Bændablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 16

Bændablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 16
16 Bændablaðið | Fimmtudagur 20. júní 2013 Mikil frjósemi og sauðburður gekk vel hjá Kristínu og Sigþóri í Sandfellshaga 1 í Öxarfirði: Ein „Þokugens“ ær var fimmlembd og tvær systur hennar þrílembdar og fjórlembdar – verða nýttar í haust í verkefni bænda og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins til ná fram arfhreinum hrút með „Þokugen“ „Það var ein ær, Prýði 10059, fimmlembd hjá okkur, en við gerðum ráð fyrir fjórum stykkjum eftir fósturtalningu. Það fimmta kom hins vegar óvænt, hresst og sprækt og heilsast öllum systkinunum vel. Þá fengu þrjú þeirra fósturmóður,“ segir Kristín S. Gunnarsdóttir, sem býr í Sandfells haga 1 í Öxarfirði ásamt Sigþóri Þórarinssyni eiginmanni sínum. Ærin á tvær systur, önnur var þrílembd og hin fjórlembd. Sú sem var fimmlembd núna var þrílembd sem gimbur í fyrra og systur hennar voru þá tvílembdar. „Annars er frjósemi nokkuð góð hjá okkur og lítið um að ær séu með eitt lamb nema helst gemlinga. Reyndar gerðist það núna að gemlingur kom með þrjú lömb og öll væn,“ segir Kristín. Þau Sigþór eru nú með um sex hundrað kindur og hefur burðurinn gengið vel. Veðurblíða eftir langan vetur Bongóblíða var í Öxarfirði þegar blaðamaður sló á þráðinn á miðvikudag í síðustu viku og hafði blíðan þá staðið í marga daga. Er það smá uppbót á langan og erfiðan vetur. Eigi að síður er enn mikill snjór í uppsveitum og nýbúið að ryðja veginn austan og vestan Jökulsár á Fjöllum. Fé var enn heimavið og í hagagirðingum í síðustu viku og sagði Kristín ekki hægt að hleypa upp á heiðar þar sem enn væru miklar fannir og bleyta. Þótt komið hefði skellur í fyrravor hefði verið mun snjóléttara þá á heiðum en núna. Kristín sýslar um fleira ungviði en lömbin því hún starfar líka sem leikskólakennari í Lundi í Öxarfirði. Þar eru átta börn þessa dagana en þau voru allt upp í 16 í vetur, sem þykir mjög gott á þessum slóðum. Tekur þátt í rannsókn á Þokugensfé Sigþór segist taka þátt í eins konar rannsókn á frjósemi kinda með hreint „Þokugen“ sem svo er kallað. Þetta er gert á vegum Bændasamtaka Íslands og nú Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, og miðast við að reyna að fá fram arfhreinan hrút með Þokugen til undaneldis á sæðingastöð. Segir hann að Eyjólfur I. Bjarnason og Þorsteinn Ólafsson yfirdýralæknir hafi komið í vor og tekið sýni úr 10 ám hjá honum sem allar eru með þetta Þokugen. Stór hluti af þeim er komin út af hrút sem hét Kaldi og var á sæðingastöð. „Ég átti hrút sem hét Klaki, en hann var undan Kalda frá Kaldbak á Rangárvöllum og var með þetta gen. Frjósömu kindurnar þrjár sem eru jafnframt þrílembingar eru dætur hans. Nú þarf ég að finna óskyldan hrút með þetta Þokugen sem ég get haldið ánum undir á næsta fengitíma. Þá ætti ég að ná út úr því arfhreinum hrút. Það þýðir að allt sem undan honum kemur verður með þetta gen.“ Sigþór segir þetta eftirsóknarvert upp að vissu marki til að bæta frjósemi og fækka mögulegum einlembingum. Fimm lömb í burði geti þó kallað á vandamál, en allt hafi þó gengið mjög vel í þetta skiptið. Burðurinn hafi gengið hjálparlaust og öll lömbin verið spræk. „Það er orðið sjaldgæft að kindur hjá mér fari með eitt lamb á fjall. Þetta er það sem skapar tekjurnar.“ Sigþór segist svo sem vita af heppilegum hrúti hjá Sigurði Þór Guðmundssyni ráðunaut í Þistilfirði. Ekki sé þó búið að ganga frá því að afnot fáist af þeim hrút. Þar fyrir utan sé hægt að fá sæði frá hrútum á sæðingastöðvum sem séu með þetta Þokugen, en þeir séu ekki arfhreinir. Bærileg afkoma en þung lánabyrði Hann segir afkomuna af búskapnum bærilega þótt auðvitað sé hún þung vegna ófrágenginna stökkbreyttra lána. Nýbúið var að byggja allt upp í Sandfellshaga fyrir hrun og mikið verið unnið í að rækta upp ný tún og afrétt. Sigþór telur að bú með 600 fjár sé líklega hámarksstærð út frá hagkvæmni og miðað við að lítill mannskapur nái að sinna því vel. Stærri sauðfjárbú útheimti meiri mannskap og erfiðara verði að hafa yfirsýn yfir reksturinn. Þá þurfi líka að hugsa um hvað landið geti gefið af sér. Uppgræðsla hefur skilað sér Við erum búin að vera í mikilli uppgræðslu á heimalöndum sem hefur komið okkur til góða. Vigt á sumum bæjum hér hefur farið upp um 2 kíló á lamb á síðustu tíu árum og vil ég þakka það skipulegri uppgræðslu á afrétti og heimalöndum. Þá er hér mikill birkiskógur í heimalandinu sem er stíf beit á bæði vor og haust en hann er samt í mikilli framför. Það eina sem hefur sett þar strik í reikninginn er ásókn maðks birkifeta sem gengið hefur hér yfir undanfarin ár. Það var þó minna af honum í fyrra en áður og lággróðurinn dafnar líka vel. Við höfum líka verið í mikilli uppgræðslu á melum og þar er lyng og birki að ná fótfestu. Ég held að sauðkindin hjálpi þar mikið til með sínum umgangi. Auðvitað eru þó á því einhver mörk. Þá erum við með afrétt hér niður á svokölluðum Austursandi þar sem allt lagðist af í Kópaskersskjálftanum 1976 og búin í eyði. Þar er stór afréttur og mikið land sem er hreinlega að verða ónothæft vegna vanbeitar. Þar er allt á kafi í sinu en auðvitað rýkur þar upp um leið grávíðir og gulvíðir. Í þessu öllu er þó meðalvegurinn örugglega bestur ef hægt er að rata hann.“ Mismikið kal milli bæja Segir Sigþór að allt hafi farið á kaf hjá þeim í snjó í lok október og enn sé mikill snjór til heiða og ekki hægt að hleypa fé á afrétt. Því sé því enn haldið í hagagirðingum. „Menn eru flestir að hætta að gefa fé, sem er bara góður tími. Í fyrra var ég að gefa alveg fram til 20. júní. Það hefur verið veðurblíða að undanförnu Mynd / Kristín S. Gunnarsdóttir Þokugenið er frjósemisgen í íslensku sauðfé, kennt við ána Þoku frá Smyrlabjörgum. Áætlað hefur verið að ær sem beri genið eigi að jafnaði 0,6 lömbum fleiri fædd en ær sem ekki bera genið. Upp úr 1980 var byrjað að dreifa Þokugeninu með sæðingum um landið og á þeim tíma var flutt sæði til Skotlands sem var blandað saman við Cheviot-kindur þar til frekari rannsókna. Á grunni þeirra rannsókna er nú hægt að arfgerðargreina grip m.t.t. þess hvort hann ber genið eða ekki. Þær rannsóknir leiddu einnig í ljós að ær sem eru arfhreinar um genið eru ófrjóar og geta ekki eignast lömb. Arfblendnar ær eru aftur á móti frjóar og sýna þessa miklu frjósemi sem genið veldur. Arfhreinir hrútar eru aftur á móti frjóir og undan þannig hrút erfa allar dætur hans genið. Í ljósi þessarar þekkingar hefur verið ákveðið að á sæðinga- stöðvunum verði framvegis aðeins arfhreinir hrútar. Með því móti getur hver og einn bóndi haft það í hendi sér hversu margar ær með þennan eiginleika hann vill hafa í hjörð sinni. Með þeirri leið þyrfti að viðhafa þá reglu að framleiða þessar ær aðeins undan ám sem ekki bæru genið sjálfar til að forðast að framleiða ær sem væru ófrjóar. Jafnframt væri ekki mælst til þess að setja mikið á af arfblendnum sonum þessara arfhreinu hrúta, heldur endurnýja ærnar reglulega með notkun hrúta á sæðingastöð. Til að framleiða þessa arfhreinu hrúta verður komið upp litlum ræktunarkjörnum, u.þ.b. 50 ám, þar sem samhliða verður unnið að framræktun annarra eiginleika s.s. kjötgæða, mjólkurlagni og vaxtarhraða. Sandfellshagi 1 er eitt þeirra búa þar sem svona ræktunarkjarna verður komið upp. Á fundi fagráðs í sauðfjárrækt í apríl sl. var samþykkt að veita fjármunum af fagfé sauðfjárræktarinnar í þetta verkefni og heldur Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins ehf. (RML) utan um það sem ábyrgðaraðili á ræktunarstarfinu í sauðfjárrækt. Nánari upplýsingar veitir Eyjólfur Ingvi Bjarnason sauðfjár- ræktarráðunautur, sem heldur utan um verkefnið fyrir hönd RML. Um Þokugen

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.