Bændablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 12

Bændablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 12
Bændablaðið | Fimmtudagur 20. júní 201312 Ferðaþjónustufyrirtækið Ögur Travel, sem hefur aðsetur í Ögri við Ísafjarðardjúp, er nú að hefja sitt þriðja rekstrarár. Halldór Halldórsson, einn af eigendum fyrirtækisins, segir að veitingahúsið í Ögri hafi að þessu sinni verið opnað formlega hinn 15. júní, en í fyrra var það opnað 1. júlí. Verið sé því að lengja tímabilið um hálfan mánuð. Halldór segir að þó að formleg opnun sé nú um miðjan júní séu þau í raun á vakt allt árið ef áhugi sé fyrir því að panta ferðir utan hefðbundins ferðamannatíma. „Við tökum þetta í litlum skrefum, en þetta er þriðja sumarið okkar. Það gekk mjög vel í fyrra og varð fjórföldun á tekjum frá árinu áður. Við vonumst til að geta tvöföldað tekjurnar í sumar,“ segir Halldór, sem flestir þekkja ef til vill sem fyrrverandi bæjarstjóra á Ísafirði og núverandi formann Sambands íslenskra sveitarfélaga. Ögur ehf. er stofnað í mars 2011 af Halldóri og systkinum hans, Leifi, Hafliða, Hörpu, Guðmundi og Höllu Maríu. Fyrirtækið býður upp á leiðsögn í skipulögðum göngu- og kajakferðum um söguslóðir Ísafjarðardjúps. Boðið er upp á fimm fyrir fram mótaðar gönguferðir og fimm fyrir fram mótaðar kajakferðir. Auk þess býðst viðskiptavinum að setja saman sínar eigin ferðir, allt frá einni klukkustund upp í 14 daga. Halldór segir að fyrirtækið sé aðeins að komast inn á kortið hjá ferðaþjónustuaðilum. Þau séu þó dálítið hikandi við að gera marga samninga því þau vilji vera örugg um að gera allt vel sem þau eru að gera. „Við verðum þrjú hér á vaktinni í júní og fimm í júlí. Ef það koma stórir hópar erum við í samstarfi við fyrirtækin Borea Adventures og Sæfara og getum fengið leiðsögumenn og kajaka frá þeim ef á þarf að halda. Svo getum við alltaf kallað til einn eða tvo úr systkinahópnum ef mikið liggur við, auk þess sem börnin okkar eru orðin það stór að þau eru farin að vinna við þetta líka.“ /HKr. Fréttir Ég ólst upp á Akureyri til níu ára aldurs og í minningunni var 17. júní þar í bæ skemmti- legur dagur. Ég fékk vindrellu og íslenskan fána. Það var iðulega hægt að kría út ís í Brynju, þegar foreldrar mínir voru orðnir leiðir á skarkala hátíðarhaldanna. Ég er viss um að ég hef verið dressaður upp í sparifötin, þótt ég muni reyndar ekkert eftir því. Einhvern tíma sá ég örugglega fjallkonuna. Eigum við ekki að giska á að hún hafi farið með kvæði eftir Davíð eða Matthías? Þegar ég flutti í sveitina var töluvert minna umstang í kringum 17. júní. Kvenfélagið og Ungmennafélagið Glóðafeykir stóðu þó alltaf fyrir einhvers konar samkomum, kaffisamsæti eða grilli á íþróttavellinum. Þegar ég komst á efri unglingsár sat ég í stjórn ungmennafélagsins og minnist þess að hafa skipulagt bændakraftakeppni sem haldin var á þjóðhátíðardagsskemmtun. Þar var m.a. giskað á þyngd hrúta, dráttarvéladekkjum velt og Trabant-bifreið Agnars prestsmaddömu ýtt eftir vellinum. Það var samt á annarri 17. júní hátíð þegar flugvélin sem dreifði karamellunum hrapaði niður á íþróttavöllinn, svona 50 metra frá prúðbúnum þjóðhátíðargestum. Sem betur fer komust allir heilir frá því. Ég hef upplifað 35 þjóð- hátíðar daga. Þeir eru miseftirminnilegir. Margir sem staddir voru sunnanlands muna glöggt eftir 17. júní árið 2000, en þá reið yfir Suðurlandsskjálfti. Ég svaf hann af mér. Ég man hins vegar vel eftir 17. júní árið 2011. Þá var ég staddur á Akureyri með börnin mín að fylgjast með Gunna og Felix, bláum af kulda, reyna að halda uppi stemmingu á Ráðhústorginu. Samkvæmt hitamælinum var ísskápshitastig þann daginn. Það er ekki ofsögum sagt af góða veðrinu á Akureyri. Síðasta þjóðhátíðardag, meðan forsætisráðherra talaði fjálglega um fullveldið, var ég að koma börnunum mínum í skilning um að það væri ekki við hæfi að fara út með Los Angeles Lakers-derhúfu við sparifötin. Ég á í ástar-haturs sambandi við 17. júní. Mér finnst það vera algjör skylda mín að fara með krakkana mína niður í bæ, kaupa handa þeim gasblöðru (fyrirlitning mín á gasblöðrum er reyndar efni í annan pistil), gefa þeim pyslu og ís og fara með þau í hoppu kastala. Ég er hvergi nærri einn um þetta. Raðirnar í hoppukastalana eru endalausar, fólk með barnavagna keyrir á annað fólk og allir eru við það að springa. Börnin eru æst og spennt og heimta candyfloss. Ó, candyfloss, þú óvinur sparifatnaðar og snyrtimennsku. En svona er 17. júní. Auðvitað klæðum við okkur upp og tökum þátt í hátíðarhöldum. Og það er gaman, þrátt fyrir allt. Ekki vegna þess að við séum að hugsa um fullveldið eða sjálfstæðið eða söguna. Heldur vegna þess að við eigum öll okkar 17. júní, með mismunandi áherslum. Í mínu tilfelli er þjóðhátíðardagurinn tækifæri til að klæða mig og börnin mín upp í sparifötin, fara út og kaupa ís og vera saman á röltinu í heilan dag. Skítt með það þó að við þurfum að bíða í röðinni eftir hoppukastalanum. Ég vildi bara óska að Jón Sigurðsson hefði borið gæfu til að fæðast í seinnihluta júlímánuðar. STEKKUR Hæ, hó, jibbí, jei Ferðaþjónustufyrirtækið Ögur Travel við Ísafjarðardjúp að hefja sitt þriðja rekstrarár: Býður upp á göngu- og kajakferðir um söguslóðir við Djúp Það er ekki amalegt að róa kajak á spegilsléttu Ísafjarðardjúpi með Snæfjallaströndina fyrir stafni. Myndir / Harpa Hall Róið á Ögurvíkinni með bæjarhúsin í Ögri í baksýn. Gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs opnuð á Höfn í Hornafirði Ný gestastofa Vatnajökuls- þjóðgarðs í Gömlubúð á Höfn í Hornafirði var opnuð á dögunum, á fimm ára afmæli þjóðgarðsins. Í gestastofunni er upplýsingaþjónusta fyrir ferðamenn og starfsaðstaða fyrir starfsmenn þjóðgarðsins auk glæsilegrar sýningar um þjóðgarðinn og sögu Gömlubúðar. Þetta er fjórða gestastofa Vatnajökulsþjóðgarðs, en áður er búið að opna Skaftafellsstofu í Skaftafelli, Gljúfrastofu í Jökulsárgljúfrum og Snæfellsstofu í Fljótsdal. Þá er fyrirhugað að opna gestastofur á Kirkjubæjarklaustri og í Mývatnssveit, en undirbúningsvinna er þegar hafin vegna byggingarinnar á Kirkjubæjarklaustri. Gestastofan í Gömlubúð á Höfn er fyrsta gestastofa þjóðgarðsins í þéttbýli. Gamlabúð er 150 ára gamalt hús sem á sér merka sögu, en það hefur m.a. verið flutt af grunni sínum þrisvar sinnum. Húsið var upphaflega byggt árið 1864 á Papósi í Lóni, en síðan flutt til Hafnar í Hornafirði árið 1897. Flutningur Gömlubúðar markaði á þeim tíma upphaf Hafnar sem verslunarstaðar og húsið gegndi áfram hlutverki verslunarhúss þar í um 80 ár, til 1977, þegar húsið var flutt að Sílavík. Byggðasafn Austur-Skaftafellssýslu var þar síðan til húsa frá 1980 fram til 2012. Nú hefur Gamlabúð enn verið flutt, nánast á sinn gamla stað við Hafnarvík, þar sem hún tekur við nýju hlutverki. Arkitektastofan Gláma-Kím sá um hönnun breytinga hússins og innréttinga en yfirverktaki við breytingarnar var Þingvað. Hönnuður sýningarinnar er Þórunn S. Þorgrímsdóttir. Markmiðið með byggingu gestastofa þjóðgarðsins er að miðla fróðleik og upplýsingum um garðinn og nágrenni hans. Í gestastofunum er leitast við að fræða gesti um sérstöðu viðkomandi svæðis, með það að leiðarljósi að þeir skynji mikilvægi verndunar náttúru og menningar til framtíðar. Gestastofurnar nýtast bæði heimamönnum sem og ferðamönnum, auk þess sem þær eru mikilvægar fyrir skólafólk enda kjörinn vettvangur til uppfræðslu. Vatnajökulsþjóðgarður, sem er stærsti þjóðgarður Evrópu, var stofnaður árið 2008. Síðan hefur hann stækkað þrisvar sinnum og þekur nú um 13.900 ferkílómetra eða nærri 15% af flatarmáli Íslands. Þjóðgarðurinn er einstakur fyrir samspil eldvirkni og jökla sem mótað hefur fjölbreytt landslag. Þá gefur hann einstakt tækifæri til að fylgjast með og rannsaka áhrif loftslagsbreytinga.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.