Bændablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 30

Bændablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 30
30 Bændablaðið | Fimmtudagur 20. júní 2013 Fróðleiksbásinn Vilmundur Hansen garðyrkjufræðingur Tjörn í garðinum er óneitanlega skemmtileg viðbót og eykur möguleika til ræktunar. Fyrsta skrefið er að velja tjörninni stað og ákveða stærð hennar. Hægt er að fá tilbúnar tjarnir í mismunandi stærðum eða móta þær að vild með gúmmídúk. Mikilvægt er að ganga vel frá undirlagi tjarnarinnar með jarðvegs- skiptum til að minnka líkur á frost- lyftingu. Tilbúnar tjarnir þurfa að vera vel skorðaðar en gúmmídúkur þolir betur hreyfingu á jarðvegi. Sé ætlunin að hafa gróður eða fiska í tjörninni er nauðsynlegt að hún sé að minnsta kosti 80 sentímetra djúp og halda verður vatninu á hreyfingu til að tryggja eðlilegt flæði súrefnis. Best er að gera það með dælu sem síar vatnið og hreinsar. Nauðsynlegt er að þrífa tjörnina reglulega, háfa burt óhreinindi, halda sýrustigi vatnsins stöðugu og þörungagróðri niðri. Hvort sem keypt er tilbúin tjörn eða hún búin til úr tjarnardúk er undirlagið það sama. Tilbúnar tjarn- ir eru formótaðar og því einungis grafið fyrir þeim. Ef búin er til tjörn með tjarnardúk er hægt að leika sér meira með formið og móta tjörnina eftir eigin höfði. Undirbúningur og frágangur Eftir að búið er að ákveða tjörninni pláss og útlínur hennar hafa verið mótaðar er hafist handa við að grafa. Grafa skal 15 til 20 sentímetrum dýpra en áætluð dýpt tjarnarinnar er. Í umframgröftinn er síðan settur sandur sem tjörnin eða dúkurinn hvílir á. Vanalega eru tjarnir hafðar grynnstar við bakkann og aflíðandi út að miðju þar sem dýpið er mest. Þegar grafið er fyrir heimamótaðri tjörn getur verið gott að reka niður hæl til að merkja hvar hún á að vera dýpst og grafa í áttina að honum. Sé hugmyndin að hafa stóran stein eða steina í tjörninni skal móta fyrir sæti sem þeir eru síðan látnir standa í. Nauðsynlegt er að setja millilag á milli steina og dúks, fínan sand, filt eða steinull, til að verja tjarnardúkinn skemmdum. Að loknum greftri og mótun er komið að því að leggja dúkinn í tjörnina og ganga frá honum. Gott er að láta svolítið af vatni renna í tjarnarbotninn þannig að dúkurinn setjist við botninn og lagi sig að lögun tjarnarinnar. Að lokum er svo gengið frá efri brún dúksins og hún fergð og falin. Séu brúnir tjarnar- innar aflíðandi er hægt að hylja þær með möl en betra er að hafa fáa en stærri steina úti í tjörninni til að minnka líkurnar á þörungamyndun. Tjarnardúkur er fáanlegur í ýmsum þykktum og skal hafa hann þykkari eftir því sem tjörnin er stærri. Vatnaliljur og annar gróður Hægt er að rækta vatnaliljur í tjörn- um, enda þola þær nokkurt frost ef ekki botnfrýs í tjörninni. Mikilvægt er að næst rótum vatnalilja sé þéttur leir eða klesstur jarðvegur sem held- ur vel að rótinni. Hætt er við því að plönturnar drepist ef jarðvegurinn skolast frá rótunum. Gróðursetja skal vatnaliljur eins djúpt og kostur er til að minnka líkurnar á að rótin frjósi. Nykurrós (Nymphaea ‘Mrs Richmond’) er sú vatnalilja sem reynst hefur best hér á landi. Auk vatnalilju er hægt að gróður- setja margs konar innlendar plöntur í tjarnir en hafa verður í huga að flestar vatnaplöntur vaxa í grunnu vatni. Dæmi um innlendar plöntur sem rækta má í tjörnum eru hor- blaðka, lónasóley og vatnsnál. Í grunnu vatni við bakkann má rækta hófsóley, laugadeplu og lækjadeplu og að auki mýrarfjól, lyfjagras og ýmsar starir og sef. Fiskar í tjarnir Undanfarin ár hefur færst í vöxt að fólk sleppi fiskum í tjörnina í garðin- um. Mörgum þykir það eflaust mikil bjartsýni en reynslan sýnir að það er hægt að hafa fiska í tjörnum allt árið. Forsenda þess að garðafiskeldi takist er að tjörnin sé þokkalega djúp og að ekki botnfrjósi í henni. Ef hætta er á frosti er gott að setja plastbolta í tjörnina og fjarlægja hann þegar hana hefur lagt. Þannig myndast loftgat í gegnum ísinn ofan í vatnið. Einnig getur verið nauðsynlegt að strengja net yfir tjörnina til að varna því að fuglar éti fiskana. Algengustu skrautfiskar fyrir tjarnir kallast koi. Þeir eru upprunnir í Japan og Kína og þar er aldagömul hefð fyrir ræktun þeirra. Koi eru til í mörgum stærðum og fjölda lita og litasamsetninga. Þeir eru þekktir fyrir háan aldur og geta orðið 200 ára við góð skilyrði. Þeir sem aftur á móti vilja vera á þjóðlegum nótum geta veitt hornsíli eða murtu og sleppt í tjörnina. Garðyrkja & ræktun Tjörn með gróðri og fiskum Rétt lengd og breidd tjarnardúks Til þess að fá rétta lengd dúks er hægt að notast við eftirfarandi reikniformúlu: Lengd margfölduð með 2x mestu dýpt tjarnar- innar plús 60 sentímetrar. Breidd margfölduð með 2x mestu dýpt tjarnar- innar plús 60 sentímetrar. Sé áætluð stærð á tjörn 3 metrar á lengd, 2 metrar á breidd og mesta dýpi 60 sentímetrar, lítur dæmið svona út: 3 metrar + 2 sinnum 0,8 metrar + 0,6 metrar, sem eru fyrir brúnina á tjörninni, og 2 metrar + 2 sinnum 0,6 metrar + 0,6 metrar fyrir brúnina. Niðurstaðan er tjarnardúkur sem er 5,2 metrar að lengd og 4,2 metrar að breidd.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.