Bændablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 38

Bændablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 38
38 Bændablaðið | Fimmtudagur 20. júní 2013 Lesendabás Enn skrifa þeir Guðni Þorvalds- son og Ólafur R. Dýrmundsson grein í Bænda blaðið þar sem þeir verja meirihlutaákvörðun sína í ítölunefnd um að leyfa beit á Almenninga. Í grein þeirra kemur margt ágætt fram en annað orkar tvímælis þó að ítrekað hafi verið reynt að leiðrétta sumt af þeim misskilningi sem þar kemur fram. Æ ofan í æ ræða þeir merkilega þróunarvinnu sem fór fram undir stjórn Ingva Þorsteinssonar fyrir um hálfri öld hjá Rannsókna- stofnun landbúnaðarins (RALA). Vissulega má RALA (nú LbhÍ) vera stolt af þeirri vinnu enda var þróun beitarrannsókna á RALA merkileg á sínum tíma. Sú þróun hélt þó áfram og var grundvelli þeirrar aðferðafræði breytt á árunum 1983-1987. Í samræmi við alþjóðlega þróun og aukna þekkingu á sviði beitarvísinda hefur í vaxandi mæli verið lögð áhersla á ástand lands í greinargerðum sem Rannsókna stofnun landbúnaðarins (RALA) hefur unnið að. Gamlar beitarþolstölur voru afturkallaðar formlega með yfirlýsingu frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins þann 10. nóvember 1999. Þetta var talið nauðsynlegt vegna þess að ýmsir aðilar „héngu á“ gömlum tölum, jafnvel þótt breyttar aðferðir höfðu gert þær ómark- tækar. Greinarhöfundar nefna að gömlu aðferðina hefði mátt þróa frekar og bæta og taka inn fleiri þætti. Það er nákvæmlega það sem var gert að hálfu RALA eftir 1983. Þar var m.a. gefinn meiri gaumur að ástandi lands, auk þess sem framleiðslugeta einstakra gróður hverfa var endurmetin í ljósri víðtækra mælinga á afréttum landsins. Því höfðu hinar gömlu beitarþolstölur ekkert gildi lengur. En margt í aðferðafræðinni er í fullu gildi þar sem það á við, á landi sem er talið hæft til beitar. Í grein þeirra Guðna og Ólafs eru ýmsar beitarfræðilegar vangaveltur, en kannski fyrst og fremst frá sjónarhóli þeirra sem vilja nýta svæðið til beitar. Fyrst nefna þeir til sögunnar að nauðsynlegt sé að meta fóðurþarfir og átgetu búfénaðar, sem þarf að vega á móti útbreiðslu og uppskeru beitargróðurs. Þeir nefna einnig ójafna dreifingu búfjár o.fl. atriði og síðast í vangaveltum þeirra kemur til sögu þeirra hve mikið er af ógrónu landi og uppblástur sem þeir nefna svo. Þetta eru allt vissulega réttmæt atriði, en ekki síst síðast nefndu atriðin – jarðvegsrof og hve landið er mikið gróið – sem í raun ákvarðar hvort land sé beitarhæft. Sé svo er einmitt hugað að útbreiðslu og samsetningu gróðurhverfa, uppskeru o.fl. til að ákvarða hve margt fé getur gengið í haga. En það er algjört lykilatriði að huga að ástandi vistkerfanna sem ætlunin er að nýta og nú á dögum er fyrst litið til ástands landsins. Ef ástandið er slæmt, t. d. ef landið einkennist af ógrónu landi og rofsvæðum, þá á beit ekki rétt á sér. Greinarhöfundar fjalla nokkuð um hve mikil áhrif ógróið land ætti að hafa á beitarmat. Þeir telja það enn fremur ekki réttmætt að leggja mikla áherslu á að gróðurþekja þurfi að vera samfelld til að land sé hæft til beitar. En það nú einu sinni svo að Almenningar eru meðal verst grónu afrétta landsins, að stærstum hluta illa gróið land. Land með gróðri er um 20% afréttarins (það land þó ekki algróið). Þar vantar ekki aðeins gróðursamfellu, heldur gróðurinn sjálfan. Það er afar sérstæð röksemdafærsla sem þeir setja fram að þar sem sandur fýkur hvort sem er skipti beitin litlu máli. Vissulega eru til sandfokssvæði sem gróa ekki upp af sjálfum sér, en önnur ógróin svæði gróa saman sé þeim hlíft við beit. En í öllu falli teljast ógróin svæði ekki beitiland. Þó ákvað meirihluti ítölunefndar að gefa slíku landi á Almenningum 5% gróðurhulu og margfalda með flatarmáli ógróins lands og þannig fékkst stór hluti þess beitilands sem ætlunin er að nýta samkvæmt ítölugerðinni. Slíkur málflutningur sýnir lítinn skilning á þeim vistkerfum sem um er að ræða. Sérstaklega er þetta ankannalegt þegar litið er til Almenninga, þar sem víða má sjá merki um að landið sé í raun og veru að gróa saman vegna friðunarinnar! Á Almenningum hefur víða myndast lífræn jarðvegsskán á landi sem áður var ógróið. Lífverur í skáninni geta numið nitur úr andrúmsloftinu, auk þess sem skánin gerir yfirborðið stöðugt, minnkar vatnsrof og vindrof og býr í haginn fyrir frekari gróðurframvindu, m.a. fyrir grös, blómplöntur, víði og birki. Lífræn jarðvegsskán er afar viðkvæm fyrir ágangi beitardýra, sem er ein af ástæðum þess að lítil beit getur viðhaldið gróðurleysi á víðáttumiklum svæðum. Allt kemur þetta fram í skýrslu LbhÍ um ástand afréttarins. Greinarhöfundar telja að ekki séu nógu sterk rök til að banna beit á svæðinu. Undirritaður er fullkomlega ósammála því. Þau rök hafa verið lögð fram fyrir ítölunefnd og í athugasemd/kæru til ráðuneytis eftir úrskurð ráðuneytis. Þau rök lúta að útbreiðslu auðna og rofsvæða og miklum áhrifum beitarinnar á viðkvæmasta stigi batans á afréttinum, auk skorti á framleiðslugetu landsins. Spyrja má á móti: Eru nógu sterk rök fyrir hendi til að hefja beit á ný? Vitaskuld ekki. Síst af öllu þar sem viðmið um náttúruvernd gera ráð fyrir að náttúran eigi að njóta vafans. Það vekur ekki síður athygli að rétthafar beitarinnar telja nauðsynlegt að finna beitiland fyrir nokkra tugi lambáa. Er þörf á því? Er virkilega svo mikill skortur á beitilandi að það sé nauðsynlegt að fórna þeim árangri sem náðst hefur á Almenningum? Slík beit með tilheyrandi gróðurskaða og afar miklum tilkostnaði fellur á öllum hugsanlegum viðmiðum fyrir sjálfbærni. Mun skynsamlegra er að hlífa þeim náttúruauði sem er að byggjast upp á Almenningum svo hann geti nýst komandi kynslóðum til fjölbreyttrar notkunar. Ólafur Arnalds prófessor, Landbúnaðarháskóla Íslands. Um ástand lands, beit og Almenninga „Almenningar eru afréttareign“ Svo nefnist heilsíðugrein 3ja manna sem eru í stjórn „Félags afréttareigenda í Almenningum“ og birtist í Bændablaðinu 23. maí sl. Höfundar fara nokkuð út um víðan völl og fullyrða ansi mikið, taka nokkuð djúpt í árina og eru nokkuð brattir í sínum málflutningi. Margt er því aðfinnsluvert, sumt varðar jafnvel við fjölmæli. Mér finnst þeir tala niður til annarra samfélagsborgara sem þeir telja sjálfsagt taki þátt í búskaparháttum þeirra. Og víða er með nokkuð hrokafullum hætti lýst lítilsvirðingu á því sem aðrir eru að starfa við. Dæmi um það eru viðhorf þeirra gagnvart Ólafi Arnalds sem telst vera einn menntaðasti sérfræðingur okkar á sviði umhverfisrannsókna þar sem gróður landsins kemur við sögu. Þessi grein er málstað þre- menninganna EKKI til framdráttar. Því miður. Sem skattborgari finnst mér málefni þetta koma mér nokkuð við. Það er nú svo að sauðfjárbúskapur hefur lengi verið stundaður með mikilli meðgjöf á kostnað okkar skattborgara, m.a. með niðurgreiðslufyrirkomulagi. Það er miður að sumir þegnar þessa lands séu þannig innstilltir að framleiðsla dilkakjöts verði með dýrari aðferð en raunveruleg þörf er á. Eigum við t.d að kosta uppgræðslu í þágu sauðfjáreigenda til þess að þeir geti nýtt hvert strá, þó svo að þeir telji sig „eiga“ einhverja afrétti? Hvað er „eign“? Ljóst er að „eignarréttur“ bænda að svonefndum Almenningum norðan Þórsmerkur hlýtur að vera einhverjum takmörkunum háður. Sögulega séð er „Félag afréttareigenda í Almenningum“ vörsluhafar beitarréttar. Telur félagið sig eiga óheftan og beinan eignarrétt umfram þann sem hlýst af fornum beitarafnotum? Með gildum rökum má sýna fram á að þessi réttur teljist sögunni til. Ef þeir telja sig eiga þennan eignarrétt ber þeim væntanlega að sýna fram á með rökum að þeir hafi rétt fyrir sér. Nokkrir dómar Hæstaréttar hafa tekið á þessu m.a. um Landmannaafrétt frá 1955 og 1981 sem telja að beitarréttur og önnur hliðstæð hlutaréttindi og ítök ekki fela í sér eignarrétt. Þá má einnig vísa á „Úrskurð Óbyggðanefndar vegna afrétta í Rangárþingi“ – sem eðlilega á ekki við Almenninga: http:// obyggdanefnd.is/skjol/mal_3_2003. pdf Í Bændablaðinu 12.6.2007, bls. 7 er þörf ádrepa Einars Gunnars Péturssonar um „Úrskurði Óbyggðanefndar“ en umræða um þessi málefni er mjög þörf: h t tp : / /www. landbunadur. i s / landbunadur/wgbi.nsf/Attachment/ WEB_11_07/$file/WEB_11_07.pdf Ástand gróðurs á Almenningum Fyrir nokkrum áratugum var svo komið að ásigkomulag gróðurs á þessu svæði var orðið mjög slæmt. Landið var nánast gjörspillt af ofbeit. Yfirvöld tóku fram fyrir hendurnar á ofbeitarmönnum og friðuðu þetta land og Landgræðslu ríkisins var falið að bæta úr. Var það m.a. gert með því að greiða bændum úr Landbótasjóði. Kemur það saman við það sem þeir þremenningarnir fullyrða að þeir hafi sjálfir kostað til þessa uppgræðslustarfs? Í grein þremenninganna telja höfundar ekki þörf á að rækta og viðhalda skóg í grennd við eldfjöll. Reynslan eftir gosið í Eyjafjallajökli 2010 hefur sýnt að birkiskógurinn í Þórsmörk og grennd hefur lifað af en aðrar gróðurtegundir orðið fyrir miklu tjóni. Því er bráð nauðsyn að rækta sem mest af skógi í Almenningum og sem víðast næst eldfjöllum þar sem það telst mögulegt. Almenningar eru nokkuð afskekkt landsvæði norðan Þórsmerkur. Fara verður með féð yfir jökulár. Ljóst er að fé sem þangað er rekið, getur auðveldlega komist yfir Þröngá og þaðan í Þórsmörk og jafnvel Goðaland. Svæði þetta verður ekki talið vera það heppilegasta til sauðfjárhalds í landinu. Þórsmörk og Goðaland eru einhver erfiðustu lönd til smölunar. Þeir sem þekkja til aðstæðna hér á landi eru væntanlega sammála. Og í Almenningum má telja það einnig. Þarna eru ótalmörg mjög djúp gil og allháir snarbrattir móbergshálsar, varhugaverðir bæði fyrir fólk og fé. Og hver skyldu afföllin vera enda hættur fyrir lömb og ær við hvert fótmál? Kannski hafa afföll hvergi verið meiri á landinu en einmitt á svæði þessu. Mér finnst og vonandi sem flestum sem málið þekkja, nokkuð einkennileg, að áform séu uppi að beita þetta viðkvæma og erfiða landsvæði. Í ritinu Göngur og réttir frá miðri síðustu öld var talið að smölun í Almenningum væri dagsverk 18 manna, Þórsmörk þyrfti auk þess að smala og vegna Goðalands eru talin 2 dagsverk að auki. Dæmi eru um að smölun hafi tekið allt að 6 daga á þessum slóðum, (Göngur og réttir, Akureyri, 1948, I. bindi, bls. 127 og áfram). Þá er ágæt heimild um fyrri landnytjar um landsvæði þetta í riti Þórðar Tómassonar í Skógum um Þórsmörk (Þórður Tómasson: Þórsmörk, land og saga. Reykjavík: Mál og mynd, 1996). Ætla menn sér að smala með því að aka um á fjórhjólum? Það er ekki til fyrirmyndar og getur auk þess verið varhugavert í hættulegu landslagi og víðsjárverðum veðrum. Hvað kostar að reka milli 30 og 40 ær með kannski hátt í 80 lömb á afrétt sem Almenninga? Hvað kostar smölun þess og að koma í sláturhús að hausti? Hyggjast bændur sjálfir bera kostnaðinn af smölun afréttarins? Ekki er það sennilegt og þeir vísa væntanlega til ævaforns verkefnis sveitarfélaga varðandi göngur og réttir. Ekki hefur heyrst viðhorf sveitarfélagsins sem málið varðar, hvort það sé tilbúið að taka að sér skipulag og kostnað vegna þessa. Hver dilkur af Almenningum verður sennilega með þeim dýrustu sem framleiddir verða í landinu. Hagkvæmni og aðlögun vegna breyttra aðstæðna Í nútíma samfélagi þarf að sinna atvinnuháttum með aukinni hagkvæmni eftir aðstæðum. Í dag ættu sauðfjárbændur að einbeita sér að koma sér upp beitiskógum í heimahögum og nytsömu graslendi. Þannig væri unnt að halda kostnaði í lágmarki. Beitiskógar í heimalöndum bænda hlýtur að vera framtíðin í huga hvers skynsams bónda sem vill sem mesta hagkvæmni. Sveitarfélög ættu að hvetja bændur sem mest til ræktunar beitiskóga enda mætti stórlega draga úr kostnaði við göngur og réttir. Við höfum oftsinnis breytt um búskaparlag vegna aðstæðna. Við siðaskipti jókst mjög kvikfjárrækt á kostnað nautgripa- og svínabúskapar á sínum tíma. Var það m.a. vegna ýmissa kvaða sem voru innleiddar og gerðu bændur ákaflega háða Bessastaðavaldinu. Leigur fyrir afnot jarða voru greiddar með vinnuframlagi bænda en fyrir siðskipti voru matvæli eins og ostar hefðbundin greiðsla. Á 19. öld varð smám saman gríðarleg breyting á búskaparháttum. Þannig lagðist seljabúskapur af víða í landinu enda talið að mannaflinn væri betur nýttur á bæjunum t.d. vegna aukinnar túnræktar og garðræktar. Á þessum árum fór framleiðsla landbúnaðarvara smám saman vaxandi og bændur hófu sölu hrossa og sauða til Bretlands fyrir um 150 árum. Og við erum sífellt að horfa fram á nýjar breytingar, jafnvel allt að því byltingar til að starf okkar verði markvissara og meira virði. Hvers vegna vilja sumir bændur eins og stjórnendur „Félags afréttar- eigenda í Almenningum“ halda dauðahaldi í gamlar búskaparvenjur? Ætla þeir kannski að endalaust megi vænta skilnings á fornum viðhorfum þeirra til landsnytja og búskaparhátta? Góðar stundir! Guðjón Jensson Mosfellsbæ Uppgræðslusvæði í Almenningum. Bændablaðið Smáauglýsingar 56-30-300

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.