Bændablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 32

Bændablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 32
32 Bændablaðið | Fimmtudagur 20. júní 2013 Í byrjun júní var ársfundur samtakanna NMSM (samstarfs- vettvangur afurðastöðva í mjólkuriðnaði á Norðurlöndunum um mjólkurgæði) haldinn í Tromsø í Noregi. Tilgangur þessa samstarfs afurðastöðvanna er að bera saman bækur sínar varðandi frumframleiðslu mjólkur og miðla af reynslu á milli landanna. Eitt helsta verkefni samtakanna er að halda saman tölfræði varðandi helstu grunnþætti mjólkur- framleiðslunnar. 50,3 kýr að jafnaði Kúabúunum á Norðurlöndunum hefur fækkað mikið á liðnum áratugum og er áþekk þróun innan allra landanna. Kúnum hefur hins vegar ekki fækkað í sama hlutfalli og raunar stórlega dregið úr fækkun kúa undanfarin ár. Alls voru starfrækt 29.110 kúabú á Norðurlöndunum um síðustu áramót en fyrir 20 árum var fjöldi þeirra 97.552 og nemur fækkunin 70,2%. Hlutfallslega hefur búum fækkað mest í Danmörku frá árinu 1993, um 77,0%, en fækkun búanna hér á landi er minnst, 53,4%. Athygli vekur að 68% kúabúa á Norðurlöndum eru í Noregi og Finnlandi. Heildarfjöldi norrænna kúa var hins vegar 1,5 milljónir um síðustu áramót og fækkaði kúnum einungis um rúmlega sex þúsund frá árinu 2011. Flestar eru kýrnar í Danmörku eða 579 þúsund og þar er meðalbústærðin einnig mest eða 153 kýr að jafnaði. Dönsku kúabúin eru þau lang stærstu en þar á eftir koma sænsk kúabú með 71 kú að jafnaði. Minnstu búin á Norðurlöndum er hins vegar að finna í Noregi þar sem að jafnaði eru 23,4 árskýr. 11,6 milljarðar lítra Heildarmjólkurframleiðsla þessara kúabúa árið 2012 nam alls 11,6 milljörðum lítra sem er aukning frá fyrra ári um 223 milljónir lítra. Þegar horft er til framleiðslunnar trónir dönsk mjólkurframleiðsla á toppnum með 4,9 milljarða lítra en þar á eftir koma sænskir kúabændur með 2,9 milljarða lítra innvegna í afurðastöð. Meðalbúið á Norðurlöndum lagði inn 400 þúsund lítra á síðasta ári og jókst meðalframleiðslan um 8,1% á milli ára. Meðalafurðir norrænna kúa, reiknað út frá því að 92% framleiddrar mjólkur endi í afurðastöð, jukust einnig verulega á milli ára eða úr 8.436 lítrum í 8.635 lítra eða um 2,4%. Mestar skýrsluhaldsafurðir í Svíþjóð Þegar skoðaðar eru meðalafurðir kúa í skýrsluhaldi landanna fimm kemur í ljós að meðalafurðirnar hér á landi, 5.696 kg af orkuleiðréttri mjólk, eru áberandi lægstar. Bilið í næst afurðaminnstu kýrnar er 1.744 kg en næstafurðalægstu kýrnar á Norðurlöndum er að finna í Noregi. Afurðamestu kýrnar eru hinsvegar í Svíþjóð og er meðalnyt þeirra (orkuleiðrétt) 9.868 kg og vantar því 4.172 kg upp á afurðirnar hér á landi til þess að ná að jafna þær sænsku. Vegin meðalnyt allra skýrslufærðra kúa á Norðurlöndunum árið 2012 var 9.029 kg af orkuleiðréttri mjólk, sem er aukning um 189 kg frá árinu 2011. Lægsta frumutalan enn í Noregi Þegar mjólkurgæðin eru skoðuð kemur fram að frumutalan er hæst í Danmörku, en þar var meðaltalið 221 þúsund frumur/ml árið 2012. Næsthæsta landið er Ísland með 209 þúsund frumur/ml en lægsta landið er sem fyrr Noregur, þar sem frumu talan var að jafnaði 128 þúsund frumur/ml á síðasta ári. Mest efnainnihald í Svíþjóð Sænskar kýr náðu þeim árangri árið 2011 að komast fram úr þeim dönsku við framleiðslu verðefna mjólkurinnar, þ.e. í fitu- og próteinframleiðslu miðað við efnamælingar á innveginni mjólk til afurðastöðvanna. Þessu sæti héldu þær einnig árið 2012 og bættu raunar verulega í. Þannig framleiddi meðal kýrin í Svíþjóð 756 kg af verðefnum árið 2012 sem skýrist af meðalmjólk með 3,45% próteini og 4,21% fitu. Hinar dönsku kýr eru þó ekki langt undan með 726 kg verðefna með meðalmjólk sem inniheldur 3,47% prótein og 4,28% fitu. Þriðja sætið verma hinar finnsku kýr með framleiðslu á 684 kg verðefna úr meðalmjólk sem innihélt 3,39% prótein og 4,15% fitu. Kvígurnar bera elstar hér á landi Margar fróðlegar upplýsingar komu fram á fundinum þegar rýnt var í skýrsluhaldsupplýsingar. Þannig mátti t.d. sjá að íslenskar kvígur bera elstar eða 29,2 mánaða gamlar en þær dönsku bera yngstar eða 25,7 mánaða gamlar. Þá kom einnig fram í samanburðinum að íslenskar kýr eru frjósamar og halda vel. T.d. líða ekki nema 90 dagar að jafnaði þar til kýr festa fang hér á landi en í Finnlandi tekur þetta mun lengri tíma eða 140 daga að jafnaði. Þetta skilar sér svo aftur í því að meðaltals bil á milli burða er lægst hér á landi eða 373 dagar að jafnaði. Endurnýjunarhlutfallið hæst í Noregi Ýmsar fleiri áhugaverðar niðurstöður komu fram, s.s. að endurnýjunarhlutfall kúnna á Íslandi, í Svíþjóð og í Finnlandi er lægst, eða 37%. Í Danmörku er það aftur heldur hærra, eða 39%, en í Noregi er það langhæst, eða 43%. Þá kom fram að sem fyrr eru flestir dauðfæddir kálfar hér á landi, eða 12,1%, sem er um helmingi hærra en í Danmörku, sem er með næstflesta dauðfædda kálfa. Flestir lifandi fæddir kálfar koma svo í Noregi, en þar er hlutfall dauðfæddra ekki nema 3,4%. Gögn um heilbrigði sárvantar Margar heilsufarsupplýsingar eru skráðar á Norðurlöndunum þegar kýr eða nautgripir eru meðhöndlaðir s.s. júgurbólga, fóðrunarsjúkdómar og fleira. Þá gefur lyfjaskráning mikil- vægar upplýsingar um margskonar vinnulag s.s. hlutfall geldstöðumeð- höndlunar kúa og ótal fleira. Með aðgengi að slíkum upplýsingum er hægt að fara miklu dýpra í allan samanburð og greina hvað sé að og hvað megi betur fara. Fyrir rúmum áratug var sett reglugerð hér á landi um merkingar búfjár (nr. 427/2002) en setning reglugerðarinnar skapaði einmitt grunn þess að hægt væri að hafa eftirlit með skráningu sjúkdóma og lyfjanotkun og safna þessum mikilvægu gögnum saman til frek- ari úrvinnslu. Að þessar upplýsingar skuli ekki enn vera nýtanlegar hér á landi er auðvitað með ólíkindum og nauðsynlegt að bæta úr því sem fyrst. Snorri Sigurðsson sns@vfl.dk Nautgriparæktarsviði Þekkingarsetri landbúnaðarins í Danmörku Utan úr heimi Kúabúum á Norðurlöndunum hefur fækkað um 70% á 20 árum Frá Bæjaralandi í Þýskalandi. Mynd / HKr. Ræktunarland víða um heim safnast á æ færri hendur Það eru ekki aðeins þróunarlönd sem eru fórnarlömb þess að missa yfirráð yfir ræktunarlandi sínu. Stórfyrirtæki, fjármálamenn og alþjóðlegir sjóðir eru einnig stórkaupendur á jarðnæði víða um heim. Samþjöppun eignarréttar á landi fer hraðvaxandi, segir í hollendskri rannsóknarskýrslu sem greint var frá í Landsbygdens Folk, 26. apríl sl. „Landrán“ er skilgreint sem endurvakin nýlendustefna. Ríkis- stjórnir og fyrirtæki í efnuðun löndum kaupa nú ræktunarland í stórum stíl, einkum í þróunarlöndum. En landrán á sér einnig stað í Evrópu. Frá því er greint í skýrslu frá hollensku stofnuninni „Transnational Institute“ en hún hefur safnað upplýsingum um félagslegt óréttlæti um víða veröld. Eignar- og umráðaréttur á jarðnæði safnast á sífellt færri hendur víða um heim, segir í skýrslunni. Fjöldi bújarða með yfir 100 ha af ræktunarlandi er um 3% af 12 milljón bújörðum í Evrópu. Þessar jarðir ráða hins vegar yfir helmingi alls ræktunarlands í álfunni. Að sögn skýrsluhöfunda er þessi skipting farin að minna á Brasilíu, Filippseyjar og Kólumbíu, þar sem ójöfn skipting ræktunarlands hefur leitt til óteljandi árekstra og átaka íbúanna. Sem dæmi um þróunina í Þýskalandi þá hefur bújörðum undir 100 ha að stærð fækkað verulega á sama tíma og stóru jörðunum fjölgar. Nú eru 11,7% þýskra bújarða yfir 100 ha að stærð og þær ráða yfir um 55,9% af ræktunarlandinu. Í Andalúsíu á Spáni hefur bújöðum fækkað um 2/3 hluta frá árinu 2007 og árið 2010 áttu 2% landeigenda þar um helming af akurlendinu. Auk þessarar samþjöppunar eiga sér stað hljóðlát kaup á ræktunarlandi í Austur- Evrópu. Kínversk fyrirtæki rækta maís í Búlgaríu og stórfyrirtæki, skráð í Mið-Austurlöndum, rækta korn í stórum stíl í Rúmeníu. Þessi landakaup hækka söluverð á jarðnæði og hrekja óbreytta bændur úr stéttinni. Samþjöppunin er einnig áberandi utan ESB. Í Úkraínu ráða 10 stærstu fyrirtækin í landbúnaði yfir um 2,8 milljón hektörum lands. Landbúnaðarstefna ESB gagnrýnd Samkvæmt áðurnefndri skýrslu hvetur landbúnaðarstefna ESB, (CAP) til samþjöppunar á eignar- aðild að ræktunarlandi, og þar með fellur sívaxandi hluti styrkja til landbúnaðarins í hlut stórbýlanna. Árið 2009 fengu 0,29% ítalskra bújarða 18% af landbúnaðarstyrkjum sambandsins. Á Spáni skiptu 16% jarðeigandanna með sér 75% styrkjanna. Að áliti skýrsluhöfunda er aðgangur að ræktunarlandi forsenda þess að lönd Evrópu séu sjálfun sér næg um fæðu. Landbúnaðarstefna Evrópu í framtíðinni verður að efla stuðning við smábýli, segir í lokaorðum skýrslunnar. Höfundar hennar telja að ræktunarland eigi að vera í eigu bænda sem nytja það sjálfir á félagslegum og vistfræðilegum grunni. Ríkisvaldið verður sjálft að hafa yfirumsjón með ráðstöfun þess en ekki fela markaðnum það sem verslunarvöru. Skýrslan er unnin í samstarfi við alþjóðlegu smábændasamtökin „Via Campesina“, sem stendur vörð um umráðarétt bænda yfir jörðum sínum og sjálfbæran landbúnað. Eitt af baráttumálun samtakanna er svokallað „matsuverenitet“, þ.e. óskoraður réttur hvers bónda til að framleiða mat á jörð sinni. Þýtt og endursagt/ ME Í samanburði NMSM kom fram að íslenskar kýr eru frjósamar og halda vel. T.d. líða ekki nema 90 dagar að jafnaði þar til kýr festa fang hér á landi en í Finnlandi tekur þetta mun lengri tíma, 140 daga að jafnaði. Þetta skilar sér svo aftur í því að bil á milli burða er lægst hér á landi, 373 dagar að jafnaði.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.