Bændablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 22

Bændablaðið - 20.06.2013, Blaðsíða 22
22 Bændablaðið | Fimmtudagur 20. júní 2013 Ný verksmiðja Fliegl Agrartechnik í Müldorf í Bæjaralandi er staðsett um 150 km norðaustur af borginni München. Mynd / Fliegl Þýska fyrirtækið Fliegl framleiðir meðal annars tækjabúnað fyrir landbúnaðinn og er í örum vexti: Verkefni eins manns sem varð að stórfyrirtæki á heimsvísu Saga fyrirtækisins Fliegl í Þýska- landi hófst með frumkvöðlastarfi stofnandans Josef Fliegl eldri við að hanna og þróa ýmsan búnað sem gagnast gæti bændum. Árið 1970 keypti hann ásamt fjölskyldu sinni sveitabæ í Kastl í Bæjaralandi í Suður-Þýskalandi. Þar hugsaði hann sér bæði að geta unnið að smíði tækja til landbúnaðar og einnig að skapa sér aðstöðu til hönnunar- og frumkvöðulstarfa. Nú er Fliegl orðið að fyrirtækjasamsteypu með starfsemi í fjölmörgum löndum og selur vörur sínar til allra heimsálfa. Hérlendis eru það trúlegast Fliegl-malarvagnarnir sem eru best þekktir. Bændablaðinu var ásamt bændablöðum um alla Evrópu boðið að senda fulltrúa sinn á opnun glænýrrar og mjög fullkominnar verksmiðju Fliegl Agrartechnik í Müldorf í Bæjaralandi í fyrri viku. Hún er á um 30 hektara lóð, þar sem hjarta fyrirtækisins slær í dag. Framkvæmdir við verksmiðjuna hófust í nóvember 2009, en þar er hægt að framleiða 300 til 500 vagna og tæki af ýmsum stærðum á mánuði. Þessi verksmiðja er aðalframleiðslufyrirtækið sem framleiðir ýmsan búnað fyrir öll fyrirtækin í Fliegl-fjölskyldu- samsteypunni. Yfir 800 manns vinna nú hjá framleiðslufyrirtækjum Fliegl í Þýskalandi, Ungverjalandi og Spáni auk söluskrifstofa víða um heim. Um 85.000 fermetra verksmiðja Í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Müldorf starfa um 280 manns. Nýja verksmiðjan, sem er um 85.000 fermetrar og 900.000 rúmmetrar, er byggð úti í sveit með landbúnaðarstafsemi allt um kring. Það eru því hæg heimatökin að gera prófanir á þeim búnaði sem þarna er framleiddur. Gríðarlegt magn af stáli er notað við framleiðsluna í Müldorf, en þar er hægt að hafa 6.000 tonn af stáli á lager hverju sinni. Íhlutalager er með 27 metra lofthæð og þar eru um 18.000 tonn af ýmsum hlutum í rekkum sem hægt er að sækja með sjálfvirkum lyfturum. Þar að auki er dekkjageymsla undir þaki fyrir um 12.000 dekk, en hún var þegar sprungin þegar blaðamenn bar að garði þó að verksmiðjan sé rétt komin í gang. Því eru gríðarlegar dekkjastæður hafðar á plani fyrir utan verksmiðjuna. Gólfhitun er á 20.000 fermetra plássi í verksmiðjunni en alls þarf að kynda upp 42.000 fermetra svæði. Stórt óupphitað húsnæði er einnig fyrir tilbúin tæki á lager. Stofnað 1975 Fyrsta fyrirtækið stofnaði Josef Fliegl í Kastl árið 1975. Með örfáum starfsmönnum var þar unnið að endursmíði á sturtuvögnum og framleiðslu á mykjutönkum og síðar stórum mykjudreifurum. Á níunda áratugnum komst virkilegur skriður á tækjahönnunina með þróun á steypuhrærivélum og framleiðslu á eigin sturtuvögnum. Þetta var líka fyrsta skrefið inn í flutningageirann. Við fall Berlínarmúrsins sáu menn mikil tækifæri í opnun landamæra Þýskalands til austurs. Árið 1991 stofnaði Josef fyrritækið Fliegl Fahrzeugbau (vélaframleiðslu) í Triptis í Þýringalandi (Thüringen). Þar eru nú framleiddir vagnar fyrir flutningaverktaka á 12 hektara lóð. „Push-off“ tæknin markaði tímamót í starfseminni Uppfinning á „push-off“ (ýtt af) tækninni á tíunda áratugnum markaði tímamót í starfsemi fyrirtækisins. Í stað hefðbundinna sturtuvagna sem losuðu farminn af með því að lyfta pallinum var fundin upp búnaður sem ýtti hlassinu af láréttum palli, sem lágmarkaði hættu á að menn veltu vögnunum á ósléttu landi þegar affermt var. Þetta skiptir miklu máli þegar farmurinn er þungur. Búnaðurinn sem ýtir hlassinu af vögnunum er afar öflugur, enda þarf hann að ráða við allt að 90 rúmmetra hlass á stærstu vögnunum. Þar sem stálið í vögnunum vegur einnig sitt (70 rúmmetra stálvagn vegur 10,7 tonn) fóru Fliegl-menn fljótlega að hanna og selja slíka vagna sem að hluta eru byggðir úr áli og sérstyrktu stáli til að mæta kröfum um orkusparnað. Hægt er því að fá slíka vagna í ýmsum útgáfum, eins, tveggja eða þriggja öxla og með burðargetu upp á allt að 26 tonn. Fyrstu stóru „Fliegl push off“ vagnarnir komu svo á markað árið 1999. Fyrir utan augljóst notagildi fyrir verktaka sáu menn þar gríparleg tækifæri í notkun slíkra vagna í landbúnaði. Það gat átt við um jarðvegsflutninga, heyflutninga, kornflutninga, viðarkurlsflutninga og ýmislegt annað. Ekki þurfti lengur mikla lofthæð í kornskemmum til að hægt væri að sturta hlassinu af, aðeins að bakka vagninum inn og hlassinu var ýtt af láréttum vagninum. Vegna mikils vaxtar á fyrir- tækinu er starfsemin flutt til Töging, en í Kastl var opnuð miðstöð landbúnaðargeira fyrirtækisins, Fliegl Agro-Center, þar sem sala á ýmsum landbúnaðartækjum og vélahlutum fer fram auk þess sem varahlutalager er í 25.000 fermetra húsnæði. Sótt út fyrir landsteinana Eftir árið 2000 hefur starfsemin vaxið hratt og sérstaklega framleiðslan í Töging. Opnuð var útflutningsmiðstöð á Spáni undir nafninu Fliegl Ibérica fyrir Suður- Evrópu og Suður-Ameríku. Árið 2005 var tekin stækkun verksmiðjunnar í Triptis Fliegl-Werk II. Á sama tíma urðu breytingar á stjórn fyrirtækisins. Börnin fimm eru hvert með sitt fyrirtæki Josef Fliegl eldri dró sig út úr framleiðsluþættinum og fór að einbeita sér að stefnumótun, rannsóknum og þróunarstörfum. Í stað þess að eiga á hættu að fyrirtækið yrði að bitbeini fimm barna sinna tók hann þá stefnu að hvert barnanna sæi um sinn hluta af starfseminni í sjálfstæðum félögum en undir Fliegl-nafninu. Þannig tók Josef Fliegl yngri við Agrartechnik- fyrirtækinu í Müldorf, sem sér um framleiðslu og hönnun á ýmsum landbúnaðartækjum. Helmut Fliegl er nú yfirmaður Fliegl Trailer í Triptis, sem framleiðir ýmiss konar flutningavagna. Johann Fliegl er yfirmaður útflutningsfyrirtækisins Fliegl Ibérica á Spáni og dóttirin, Angelika Fliegl, er yfirmaður Fliegl Agro-Center í Kastl. Þá er Martin Fliegl yfirmaður Bau & Kommunaltechnik í Müldorf, sem er fyrirtæki í byggingariðnaði og framleiðslu tækja fyrir sveitarfélög, eins og götusópa og annað. Einnig er hann yfirmaður fyrirtækis í framleiðslu búnaðar fyrir skógar- og timburiðnaðinn sem heitir Fliegl Forsttechnik. Þannig eru öll börn Josef gamla Fliegl orðin ábyrg fyrir rekstri á sínum eigin sjálfstæðu fyrirtækjum innan Fliegl-samsteypunnar. Í miklum vexti Fliegl hefur síðan verið að feta sig inn á nýjar brautir, m.a. með aukabúnaði sem tengir fyrirtækið inní framleiðslu á lífgasi. Þar telja menn möguleika á miklum vexti í framtíðinni. Í því skyni var Fliegl Agro-Center Ost m.a. stofnað í Triptis en í höfuðstöðvunum í Kastl var stofnuð ný sölu-, markaðs- og dreifingarmiðstöð. Hönnuðir Fliegl Stofnandinn Josef Fliegl. Á þessum bóndabæ í Kastl hófst starfsemi Fliegl-fyrirtækisins árið 1975. Tankar á stóra mykjudreifara eru soðnir saman með sjálfvirkum rafsuðuvélum. Myndir / HKr.

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.