Bændablaðið - 21.02.2013, Page 26

Bændablaðið - 21.02.2013, Page 26
26 Bændablaðið | Fimmtudagur 21. febrúar 2013 Ég verð oft hugsi yfir því hvers vegna fólk í öðrum hreyfingum var ekki tilbúið til að gera slíkar kröfur.“ -Telur þú að ef sú krafa hefði orðið almennari, meðal samtaka launafólks og annarra samtaka, hefði það breytt einhverju? „Mér finnst okkur hafa mistekist tvennt. Í fyrsta lagi að við áttum að setja mikla áherslu á leiðréttingu af þessu tagi. Ég er ekki að tala um tugi prósenta heldur viðurkenningu á þessum forsendubresti sem þarna varð. Í öðru lagi hefðum við örugg- lega getað deilt byrðunum betur, líkt og gert var í búvörusamningum þegar sett var þak á verðtrygg- inguna. Við deildum áhættunni, stjórnvöld og bændur. Hefði orðið samstaða um þessa hluti hefði það getað breytt stöðunni.“ -Er þetta hægt núna, þ.e. að fara í einhvers konar almenna niðurfærslu skulda? „Nei, ég held að það verði í það minnsta að fara einhverja aðra leið í dag. Ég tel hins vegar mikilvægt að við viðurkennum þennan forsendu- brest sem varð. Við horfum til fólks sem hefur tapað eignarhlut sínum í íbúðum sínum og mér þykir ekki ganga að láta þá sem fóru varlega í sínum fjárfestingum, fólk sem var með sterka eiginfjárstöðu og tók litla áhættu, standa eftir.“ Stoltur af verkum sínum Efnahagshrunið hefur eins og áður segir tekið gríðarlegan toll af störfum Haraldar á hans formanns- tíð. Þegar við færum talið að öðrum verkefnum segir Haraldur að hann sé stoltur af þeim árangri sem náðst hefur í baráttu bænda við að gera sig sýnilega, að sýna fram á gildi landbúnaðar. „Ég er mjög stoltur og ætla að leyfa mér að vera það. Eftir þann harða skóla sem matvælaverðsum- ræðan var tókum við ákvörðun um að það yrði að tala máli landbúnaðarins með skýrari hætt. Við snerum okkur að því að útskýra gildi landbúnaðar fyrir fólki og okkur hefur tekist vel með það. Fólk samsvarar sér betur með landbúnaði og bændum í dag. Strax og ég kom hér í stól formanns Bændasamtakanna setti ég af stað vinnu í tveimur verkefnum. Það var annars vegar að halda áfram vinnu við könnun á hagsmunum land- búnaðarins í tengslum við ESB og hins vegar að draga fram gildi landbúnaðarins. Það var mjög erfitt þegar matarverð var sýnt í sjónvarpi á tölvugröfum 60 prósent hærra en í nágrannalöndum okkar. Í dag vitum við að landbúnaður skiptir máli, það er mikilvægt fyrir íslenskt efnahags- líf að hafa hér búvöruframleiðslu, úrvinnsluiðnað og bændur.“ -Var erfitt að koma bændum sjálfum í skilning um sitt eigið mikilvægi? „Ég lærði það að ímynd bændanna var, og er, verst í þeirra eigin augum. Þeir gera mun minna úr mikilvægi sínu og sínum atvinnuvegi en almenningur gerir. Bændum, eins og öllum þeim sem liggja undir í einhliða samfélagsumræðu, er tamt að hlusta á þær tíu neikvæðu fréttir sem fluttar eru um þeirra stétt en horfa framhjá þeim tuttugu jákvæðu. Það er staðreynd að það eru fluttar miklu fleiri jákvæðar fréttir um landbúnað á Íslandi heldur en neikvæðar.“ „Höfum hrakið bullið“ Innan Bændasamtakanna hefur farið gríðarlegur tími og orka í vinnu í tengslum við aðildarumsóknina að ESB. Sú vinna hófst í raun þegar stóð til að innleiða reglugerðir ESB með matvælafrumvarpinu svo- nefnda. Haraldur segir að sú vinna hafi skapað þann trausta grunn sem bændur og Bændasamtökin standi á þegar komi að andstöðu þeirra við aðild. „Það var unnin mikil greiningar- vinna varðandi ESB árin 2002-2003 og við viðhéldum þeirri þekkingu. Þegar að frumvarp um innleiðingu matvælalöggjafar ESB er í smíðum 2007, hefur Eiríkur Blöndal fram- kvæmdastjóri forystu um að við beitum allt öðrum aðferðum en við höfðum notað áður. Við hófum sjálfstæðar rannsóknir á innihaldi löggjafarinnar og greindum for- sendur hennar. Við höfðum því mjög sterkan málstað í gagnrýni okkar á frumvarpið og höfðum yfirburðaþekkingu á málinu. Þetta held ég að Bændasamtökin verði að leggja mikla áherslu á í framtíðinni. Að gera sjálfstæðar rannsóknir á málum. Við verðum að hafa burði í fjármunum, mannskap og tíma til að fara í sjálfstæðar rannsóknir á innihalda mála. Öðru vísi verður ekki hægt að koma með uppbyggi- lega gagnrýni. Við náðum miklum árangri í þessu máli og það varð í raun grunnurinn að stöðu okkar í ESB málinu.“ Haraldur segir að vegna þessarar miklu þekkingar sem hafi verið aflað hafi málstaður Bændasamtakanna staðið af sér allar atlögur þeirra sem aðhyllast aðild að ESB. Það sé einfaldlega svo að bændur hafi staðreyndirnar sín megin. „Aldrei hefur verið hægt að hrekja okkur út í horn með það sem við höfum haldið fram í ESB umræðunni því við höfum talað af þekkingu. Þetta hefur pirrað margan aðildarsinnann. Engin önnur samtök á Íslandi hafa lagt í jafn djúpa vinnu við að greina áhrif hugsanlegrar aðildar á sína atvinnuvegi. Ég vísa meðal annars til bókarinnar sem Stefán Már Stefánsson lagaprófessor skrifaði að okkar beiðni þar sem Evrópu- löggjöfin í landbúnaðar málum var greind. Við höfum látið rannsaka einstök efnisatriði finnska aðildar- samningsins, greint vinnu Finna og Norðmanna í þeirra aðildarviðræðum og núna síðast hrakið bullið um varanlegar undanþágu Finnlands í landbúnaðar málum. Við höfum gætt þess allan tíman að miðla þekkingu okkar markvisst til bænda. Við reistum okkar varnarlínur og greinargerð með þeim, settum þær í umræðu á meðal bænda sjálfra. Í tvö ár tókum við markvissa umræðu á félagslegum vettvangi bænda og bændur sjálfir komu með innlegg og tillögur. Við erum því með afstöðu í málinu sem er undirbyggð af hundruðum bænda. Það skiptir miklu máli að skapa slíka samstöðu. Við urðum mjög vör við að það var reynt að pota í einstakar búgreinar og einstaka bændur og því haldið fram að bændaforystan væri á villigötum. Bændur voru hins vegar svo vel upplýstir að þeir gátu alltaf svarað af þekkingu. Helsta gagnrýnin sem við fáum frá bændum er að við séum alltof linir í andstöðunni gegn ESB. Ég er ekki viss um að allir sem við höfum þurft að eiga samskipti við deili þeirri skoðun.“ Vill leggja ESB-viðræður niður -Það er komið á fjórða ár síðan þessi vegferð hófst. Hefur þeim tíma verið illa varið? „Mjög, og ég hefði gjarnan vilj- að vinna að framfaramálum fyrir íslenskan landbúnað og bændur allan þennan tíma. Ég er reyndar mjög hissa á íslenskum bændum hvað þeir hafa mikla þolinmæði gagnvart þessu, á meðan við höfum þurft að láta stór framfaraverkefni sitja á hakanum. -Það er ljóst að aðildarvið- ræðum lýkur ekki fyrir kosningar. Hver vilt þú að verði næstu skref? „Ég hef sagt, óháð því hvort ég er í þingframboði eða ekki, að kosningarnar í vor verði fullveldiskosningar. Það þarf bara að ljúka málinu gagnvart Evrópusambandinu með sómasam- legum hætti og það er best gert með afdráttarlausum kosningaúrslitum, lýðræðið verður einfaldlega að tala. Ég vil að við leggjum þessar viðræður niður. Við höfum lært það frá því að við sendum umsóknina inn að reglum ESB verður ekki breytt. Það er merkilegt að enginn af þeim sem vilja að við göngum þarna inn vill að við göngum inn í óbreytt Evrópusamband, allir vilja láta breyta reglunum fyrir Ísland og það er ekki hægt. Við vitum nóg í dag til að geta sagt hvernig svokallaður samningur mun líta út. Við vitum það öll sem höfum verið að fást við þetta af hálfu Bændasamtakanna að það er enginn samningur, það er aðlögun að stefnu Evrópusambandsins sem þarna fer fram.“ Þurfum að stækka landbúnaðinn Haraldur segir að nauðsynlegt sé að stækka landbúnaðinn, eins og hann orðar það. Það verði best gert með því að horfa á bújörðina og möguleika hennar í heild sinni en ekki einstakar greinar landbúnaðar. Nauðsynlegt sé að víkka sjóndeildar hringinn. „Tilfellið er að búvörusamningar eru lifandi og eru í þróun. Bráðabirgða samningarnir sem gerðir hafa verið eru engin óskastaða, það hefði þurft að fara í miklu meiri þróun á starfsumhverfi landbúnaðarins. Ég held að við höfum stigið mjög merkilegt skref þegar við gegnum frá nýjum búnaðarlagasamningi nú síðast og stigið skref þar sem við getum hafið heildarstefnumótun fyrir allar greinar landbúnaðarins. Það er enginn vafi að búgreinar sem hafa verið að skjóta rótum síðustu ár þurfi að vaxa, við eigum að stefna að því að stækka landbúnaðinn. Við gerum það ekki ef við horfum bara þröngt á landbúnaðinn eftir núverandi búvörusamningum. Til að stækka landbúnaðinn verðum við að horfa á bújörðina í heild sinni og möguleika hennar. Þá er ég ekki bara að horfa á ríkisstyrki heldur að skapa landbúnaði og dreifbýli eðlilegar forsendur fyrir því að byggja upp verðmætasköpun og atvinnurekstur. Þar má til að mynda nefna lánamál og ég get nefnt að ein af ástæðum þess að ekki er farið í frekari uppbyggingu í loðdýrarækt er skortur á lánsfé. Ég held að ein af dökku hliðunum hrunsins sé að vald bankastofnanna hefur verið fært til Reykjavíkur frá útibússtjórum á landsbyggðinni sem þekktu fólkið og getu þeirra. Þetta hefur bitnað og mun bitna mjög hart á þróun dreifbýlis.“ -Er eitthvað sem þú skilur eftir óklárað, nú þegar þú stígur til hliðar af formannsstóli? „Eitt stærsta málið á mínum for- mannsferli hefur verið endurskoðun ráðgjafarþjónustunnar. Það er nú að komast á fæturnar en það mun auð- vitað ekki klárast fyrr en að nokkru liðnu. Það sem ég skil eftir eru auð- vitað verkefni sem hafa hvorki upp- haf né enda, eins og að taka betur utan um svokallaðan landbúnaðar- klasa. Bændasamtökin sem slík tel ég að séu komin á ákveðin tímamót sem samtök bænda. Ég segi að við verðum tiltölulega hratt að gera upp við okkar hvernig við viljum skipuleggja þau sem samtök bænda. Í mínum huga erum við komin aftur á þann staða að við eigum að vera bændur saman í félagi en draga úr flokkun okkar eftir búgreinum. Ég held að Bændasamtökin verði á næstu árum að verða miklu stærri samnefnari heldur en nú er, ekki bara félagsskapur þröngs hóps frumframleiðenda. Þau eiga að vera tengslanet þeirra sem framleiða mat og byggja líf sitt á atvinnusköpun í sveitum. Í grunninn eru það mun fleiri hagsmunir sem sameina bændur í öllum búgreinum heldur en þeir sem sundra þeim. Auðvitað verður að halda fast utan um alla sér hagsmuni mis- munandi búgreina. Atvinnugreinin landbúnaður þarf hins vegar að vera mun betur samþjöppuð og gera sig meira gildandi en hún er í dag.“ Sjálfstæðismaður frá 12 ára aldri Eins og áður er nefnt er Haraldur í framboði til Alþingis fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðvestur- kjördæmi og situr í öðru sæti lista flokksins. Flest bendir til að hann hljóti brautargengi í þeim kosningum og verði kosinn á þing, þótt aldrei sé hægt að fullyrða neitt í slíkum efnum. Haraldur segist ætla að vinna íslenskum landbúnaði áfram gagn á þingi. „Framtíðarsýnin er sú sama og ég hef haft að leiðarljósi hjá Bændasamtökunum. Að sjá mögu- leikana til að stækka land búnaðinn og grípa þau tækifæri sem breytt heimsmynd færir honum, heimur þar sem fólki fjölgar og eftirspurn eftir mat eykst. Ég vil sameina fólk í því að missa ekki af þeim tækifærum. Ég hef í hjarta mínu verið sjálfstæðis- maður frá því ég fór að hugsa um stjórnmál 12 ára gamall því þar er helst að finna frjóan jarðveg, sem er laus við kreddur og alls konar isma. Í öðru lagi eru hvergi betri færi til að vinna slíkum sjónarmiðum fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá sér- stöðu umfram aðra flokka að hann er stór í þéttbýli og í dreifbýli. Þar verða menn því að skilja ólíka hags- muni og ræða þá til að ná árangri. Ef við getum viðhaldið þeim skilningi, varið sjálfstæði þjóðarinnar og varið auðlindir okkar, matarlandið Ísland, þá er það góður vísir til framtíðar.“ Styður Sindra í formanninn Spurður hvaða kosti næsti formaður Bændasamtakanna þurfi að hafa til að bera nefnir Haraldur stefnufestu og yfirsýn yfir alla þætti landbún- aðar. „Formaður Bændasamtakanna þarf á hverjum tíma að hafa fram- tíðarsýn fyrir landbúnaðinn. Hann þarf að hafa burði til að geta horft yfir sviðið allt. Hann þarf að hafa hæfileika til að leiða ólík sjónarmið saman og styrk til að takast á við erfið mál. Nýr formaður kemur til með að vinna með frábæru starfs- fólki Bændasamtakanna og takast á við skemmtilegt starf. Þess mun ég sakna mest.“ -Hver ætti að verða næsti for- maður að þínu mati? „Ég vil ekki þykjast neitt í þessum efnum. Það vita allir um vinskap okkar Sindra og ég treysti honum vel til að verða formaður og ætla ekki að dylja það að ég mun styðja hann.“ /fr Þeim Haraldi og Lilju Guðrúnu fæddist dóttirin Guðbjörg fyrir fjórum árum og að sögn Haraldar var það talsvert púsluspil að láta hlutina ganga upp. Sveinn Ingvarsson leysti Harald þá af sem formaður á meðan hann tók feðraorlof. Myndir / smh

x

Bændablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.