Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.04.1987, Blaðsíða 20

Læknablaðið - 15.04.1987, Blaðsíða 20
126 1987; 73: 126-32 LÆKNABLAÐIÐ Konráð S. Konráðsson, Urban Örtegren SJÚKDÓMSEINKENNI, MEÐFERÐ OG ÁRANGUR VIÐ MEÐFERÐ 65 BARNA MEÐ BRÁÐA SPELDISBÓLGU ÚTDRÁTTUR Bráð speldisbólga (epiglottitis acuta) er alvarlegur smitsjúkdómur barna og unglinga. Gangur sjúkdómsins er hraður og getur bólguþroti á speldi ásamt könnu- og speldisfellingum valdið köfnun og dauða ef ekki kemur til skjót greining og meðferð (1). í greinargerð þessari er sagt frá einkennum 65 barna, tólf ára og yngri, við komu á sjúkrahús, svo og meðferð og árangri meðferðar á fimmtán ára tímabili við háls-, nef- og eyrnadeild Centrallasarettet í Váxjö í Svíþjóð. Vikið er að mismunargreiningu speldisbólgu og meðferðarferli háls-, nef- og eyrnadeildar rætt og rökstutt. INNGANGUR Bráð speldisbólga er alvarlegur sjúkdómur og lífshættulegur án meðferðar, þar sem barkakýlismynnið getur lokast vegna bólguþrota á speldisstilk ásamt könnu- og speldisfellingum í kjölfar blóðeitrunar og sjúklingurinn kafnað. Gangur sjúkdómsins er hraður og skiptir miklu tafarlaus sjúkdómsgreining og meðferð. Enda þótt sjúkdómurinn hafi eflaust fylgt mannkyni frá fyrstu tíð er honum fyrst lýst, svo vitað sé, árið 1941 af Sinclair (2). Bráðri speldisbólgu veldur næstum undantekningarlaust Haemophilus influenzae, tegund B (HiB) (3-5). Sjúkdómsmyndin þróast fljótt. Einkennist hún í upphafi af hálssærindum og sótthita, en getur á nokkrum klukkustundum breyst í kyngingartregðu, slefu og vaxandi öndunarörðugleika bæði við inn- og útöndun. Rödd sjúklings er þvogluleg, en ekki hás og sá geltandi hósti, sem einkennir sogakvef er ekki til staðar. Lætur barninu best að sitja uppi og teygja álkuna, svokölluð »þrífótsstelling«, þar sem það á auðveldast með að ná andanum í slíkri stellingu. Frá Centrallasarettet 1 Váxjö, Sviþjóð. Barst 07/10/1986. Samþykkt 20/10/1986. Skiptir því miklu að barnið sé ekki lagt niður þar sem slíkt getur aukið á þrotann og lokað þeirri litlu glufu á barkakýlismynninu sem barnið andar um. Meðferð sjúkdómsins er fólgin í því að tryggja barninu öruggan öndunarveg og hefja sýklalyfjagjöf sem fyrst. Enda þótt Mac Ewan hafi þegar árið 1880 (6) lýst setningu pipu um barkamynni, sem meðferð við bólguþrengslum í efri öndunarvegum þá er barkaskurður sú meðferð sem notast hefir verið við lengst af. Pípusetningu, sem meðferð við sogakvefi og speldisbólgu, var lýst í fyrsta sinn árið 1965 (7). Hefir pípusetning raunar rutt sér sífellt meira til rúms á síðustu árum sem öruggari meðferð við að tryggja opinn öndunarveg sakir minni fylgikvilla (3, 7-9) og hefir nú að mestu leyst barkaskurðinn af hólmi. Styður greinargerð þessi tvímælalaust réttmæti þess enda þótt allir séu ekki á sama máli hvað varðar kosti pípusetningar umfram barkaskurð (10). Orsakalýsing bráðrar speldisbólgu er óljós. Andréasson og félagar höfðu þá kenningu 1971 (11) að þrotinn á speldi ásamt könnu- og speldisfellingum orsakaðist af blóðrásarþrengslum við speldisstilkinn. Sú staðreynd, að HiB veldur vægri ónæmissvörun samfara alvarlegri blóðeitrun (mikil sýklafjöld í blóði) og hefir í för með sér heilahimnubólgu hjá börnum yngri en tveggja ára, en vægari blóðeitrun samfara speldisbólgu meðal eldri barna, hefir orðið til þess að rætt hefir verið hvort HiB-sýking á ungbarnaaldri geti síðar orsakað Arthus-ofnæmissvörun teg. III (12, 13). Slíkt gæti skýrt hinn hraða gang speldisbólgu og bjúgmyndun í efri loftvegum. Við blóðeitrun af völdum HiB mun sjaldgæft að heilahimnubólga og speldisbólga fylgist að, en miðeyrabólga, lungnabjúgur, eitlaþroti á hálsi svo og lungnabólga geta verið samfara bráðri speldisbólgu (14-16).

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.