Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.04.1987, Blaðsíða 36

Læknablaðið - 15.04.1987, Blaðsíða 36
136 LÆKNABLAÐIÐ Nú eru 58 sjúklingar á Kristnesspítala og koma þeir bæði frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og beint að Kristnesi án þess að hafa viðkomu á annarri stofnun fyrst. Kristnesspítali er ríkisspítali og ætti því að þjóna öllum landsmönnum. Halldór sagðist þó vera tregur til að taka við sjúklingum úr öðrum landshlutum vegna þess hve þörfin er mikil í nágrannabyggðum og miklu meiri en hægt er að fullnægja núna. Þó eru hér sjúklingar frá strjálbýlum svæðum utan nágrannabyggða, svo sem frá Vopnafirði og Bakkafirði, en auk þess fimm sjúklingar sem eiga lögheimili í Reykjavík. Kristnesspítali er á tveimur hæðum og fólkslyfta á milli hæða. Á neðri hæðinni eru blandaðir sjúklingar, erfiðir hjúkrunarsjúklingar, geðsjúklingar og gamalmenni. Stofur eru stórar á neðri hæð, allt að fimm manna og er fyrirhugað að breyta þeim, þannig að engin verði nema fjögurra manna. Trausti Valdimarsson gegndi störfum Halldórs Halldórssonar í afleysingum er Lœknabiaðið bar að garði. Á efri hæðinni er 31 mjög erfiður hjúkrunarsjúklingur. Þar eru sumar stofur það litlar að sjúkrarúm á hjólum komast ekki inn, þess vegna er enn notast við gömlu sjúkrarúmin sem keypt voru til Kristneshælis í upphafi. Heilsufar viðkomandi sjúklings ræður síðan hvort hlaðið er undir rúmin að framan- eða aftanverðu. Við svona kringumstæður verður öll umönnun sjúklinga erfið, ekki síst þegar um er að ræða gamalmenni og hjúkrunarsjúklinga sem eru meira og minna ósjálfbjarga. Á efri hæð eru einnig mjög stórar stofur, fyrir sex og sjö sjúklinga hver. STARFSFÓLK ER ALLT OF FÁTT Á Kristnesspítala er heimild fyrir tveimur læknisstöðum, stöðum níu hjúkrunarfræðinga, tólf sjúkraliða og 4.5 stöðugildum ófaglærðra er vinna við hjúkrun. í heild eru um 52 stöðugildi á spítalanum og er vinnuálag mikið. Flest starfsfólk kemur frá Akureyri og er talsvert af fólkinu í hlutastörfum. Að undanförnu hefur gengið mun verr en áður að manna þær stöður sem leyfi er fyrir. Þar veldur allt í senn, léleg vinnuaðstaða á neðra gangi, erfiðir sjúklingar og betri laun á FSA og öðrum sjúkrahúsum á Norðurlandi. Þegar Læknablaðið var á ferðinni var einn sænskur hjúkrunarfræðingur á Kristnesspítala og tveir læknanemar í afleysingum fyrir hjúkrunarfræðinga. Ef vel ætti að vera þyrftu að vera 12 hjúkrunarfræðingar og um 30 sjúkraliðar í fastri vinnu. Það er lýsandi fyrir mannekluna, að á morgnana sjá tvær manneskjur um 24 sjúklinga á neðra gangi, þrífa þá og annast á allan hátt. Á nóttunni er aðeins einn ófaglærður starfsmaður á vakt á þessum gangi. REKSTRARFYRIRKOMULAG KRISTNESSPÍTALA ER ÓLÁN Kristnesspítali er ríkisspítali eins og áður sagði og heyrir undir stjórnarnefnd ríkisspítalanna. Halldór sagði að læknum norðan fjalla þætti umhendis að þurfa að leita með allt er varðar Kristnesspítala suður til Reykjavíkur. Eðlilegast væri að Kristnesspítali heyrði undir sömu stjórn og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri og þannig yrði auðveldara að samnýta sjúkrahúsin. Hulda Gunnlaugsdóttir hjúkrunarforstjóri tók í sama streng. Hulda sagði best ef Kristnesspítali væri tengdur einhverri annarri sjúkrastofnun á Norðurlandi, en stæði ekki einn eins og nú er. Einhvers konar heimastjórn þyrfti að koma til hvort sem það væri innan vébanda FSA eða ekki.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.