Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.04.1987, Blaðsíða 44

Læknablaðið - 15.04.1987, Blaðsíða 44
142 LÆKNABLAÐIÐ gera einn mann ábyrgan fyrir daglegu starfi, bæði faglegu og rekstrarlegu. Eðli starfsins vegna sé heppilegast að læknir sinni þessu og þá um leið eiginlegu yfirlæknisstarfi. Stefán segir: »Yfirlækni verður að ætla tíma til að annast þetta starf. í dag eru hjúkrunarforstjóri og framkvæmdastjóri ráðnir til stjórnunarstarfa en yfirlæknir ekki þó hann sé í raun lykilmaður þess. Honum ber að funda reglulega með öðrum læknum, með hjúkrunarforstjóra, framkvæmdastjóra og öðrum starfsmönnum eftir aðstæðum á hverjum stað auk þess að sitja stjórnarfundi. Þetta er tímafrekt og þýðingarmikið starf.« STARFSMENN ERU MARGIR 1 HLUTASTÖRFUM Konny K. Kristjánsdóttir hjúkrunarforstjóri Heilsugæslustöðvarinnar er dönsk að uppruna og hefur sérfræðiviðurkenningu í barnahjúkrunarfræði og heilsuvernd (félagshjúkrun). Hún er eini hjúkrunarfræðingurinn á Heilsugæslustöðinni sem hefur að baki sérnám i heilsuvernd. En á stöðinni starfa þrír hjúkrunarfræðingar með sérfræðiviðurkenningu í barnahjúkrun (ung- og smábarnavernd), einn með sérfræðiviðurkenningu í skurðhjúkrun, einn hefur lokið sérnámi í kennslu og tveir hafa lokið B.Sc. hjúkrunarnámi og annar þeirra einnig ljósmóðurnámi. Konny telur sig hafa mjög vel menntað hjúkrunarlið sér við hlið. Konny starfaði á Heilsuverndarstöðinni frá 1979 og á Heilsugæslustöðinni frá upphafi. Konny sagði að ekki væri tiltakanlega erfitt að fá fólk í þau stöðugildi sem leyfi er fyrir, hins vegar skorti að fá leyfi fyrir fleiri stöðum. í haust var ósetið hálft stöðugildi vegna heilsugæslu í skólum. Auk lækna starfa á stöðinni heilsugæsluhjúkrunarfræðingar og ljósmæður í 15 stöðugildum, sjúkraliðar í 6 stöðugildum, meinatæknar í 1.6 stöðugildi, læknaritarar í 3.5 stöðugildum og annað starfsfólk er í um 4.5 stöðugildum. Alls eru um 60 starfsmenn við Heilsugæslustöðina og mjög margir í hlutastörfum. Þetta á sér eðlilegar skýringar og er alls ekki af hinu vonda. Sem dæmi nefndi Konny skólahjúkrunarfræðingana sem eru í hlutastörfum. Þetta eru konur sem flestar hafa lengi sinnt þessu starfi. Þær eru í öllum grunnskólunum og sinna hver sínum skóla. Með því ná þær mjög góðu sambandi við nemendur og kennara og vita hvar skórinn kreppir. Einu sinni í mánuði er haldinn fundur með skólahjúkrunarfræðingum og þá er einnig reynt að vera með einhverja fræðsludagskrá. Þessar konur ráða sig upp á það að eiga frí á sumrin, annars fást þær ekki til starfa. Óneitanlega hefði verið gott að geta nýtt þennan starfskraft í sumarafleysingar á stöðinni. En með það að leiðarljósi að þessar konur vinna mjög gott starf í skólunum, var samþykkt að hafa þennan háttinn á og leysa vandann vegna sumarafleysinga á annan hátt. HEIMAHJÚKRUN Heimahjúkrun þyrfti að sinna betur en hægt er í dag. Þar strandar fyrst og fremst á heimild til að ráða fleiri til starfa. Við heimahjúkrun vinna sjúkraliðar í sex stöðugildum og hjúkrunarfræðingar í þremur. Vikulega er sinnt um 160 einstaklingum, þar af nokkrum daglega. Tilfinnanlega vantar heimahjúkrun úti í sveitunum. Grenivík er undanskilin en hjúkrunarfræðingur þar sinnir bæði heimahjúkrun og ungbarnaeftirliti. Konny taldi heimahjúkrun tvímælalaust ódýrustu og bestu leiðina sem hægt væri að fara til að mæta þörfum þeirra er þyrftu, enda er erfitt að koma hjúkrunarsjúklingum fyrir á viðeigandi þjónustustofnunum hvort heldur til langtíma- eða skammtímadvalar. í Systraseli, þar sem rúm er fyrir 20 sjúklinga, eru tvö hvíldarpláss sem heimahjúkrunin hefur til umráða, en oft reynist erfitt að senda sjúklinga aftur heim sem koma í þessi hvildarpláss, og þar með teppast rúmin fyrir heimahjúkrunina. Brýn þörf er fyrir dagvistun, fleiri hvíldarpláss fyrir hjúkrunarsjúklinga og aukið sjúkrarými fyrir gamalmenni. Mörg gamalmenni búa við bágan kost, hafa hvorki aðgang að heitu vatni né baði og sums staðar er húsnæði hvorki vatns- né vindþétt. Rauða Kross-deildin á Akureyri hefur gefið tíu sjúkrarúm til heimahjúkrunar og bætti það úr brýnni þörf. Heimahjúkrun er gert erfitt fyrir að mörgu leyti, til dæmis fá hjúkrunarfræðingar ekki vinnu við heimahjúkrun nema leggja sér til bifreið sem aðeins er greitt bensín og kílómetragjald fyrir, og allir vita að þetta gjald nægir ekki til reksturs og viðhalds bifreiða. Má svo sannarlega segja að þessar konur vinni fremur af hugsjón en gróðavon.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.