Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.04.1987, Blaðsíða 31

Læknablaðið - 15.04.1987, Blaðsíða 31
LÆKNABLAÐIÐ 133 NABLAÐIÐ THE ICELANDIC MEDICAL JOURNAL Læknafélag íslands og Læknaféiag Reykjavíkur 73. ARG. - APRIL 1987 HEILSUGÆSLA í REYKJAVÍK Ég hef verið beðin að gera grein fyrir því sem er að gerast í málefnum heilsugæslunnar í Reykjavík. Heilbrigðismálaráð Reykjavíkur og borgarstjórn hafa um margra ára skeið unnið að því að koma á hverfisbundinni heilsugæslu í borginni í stað þess númerakerfis sem tíðkaðist þar til nýverið. Um það hefur ekki verið pólitískur ágreiningur að leggja beri áherslu á heilsugæslu, ekki síst forvarnarstarf og þar með hefur verið samstaða um faglega uppbyggingu heilsugæslunnar. Jóhann Ágúst Sigurðsson héraðslæknir Reykjaneshéraðs skrifaði grein í desember 1985 um forvarnir í læknisfræði og segir þar meðal annars: »Rannsóknir benda til þess að hér á landi eigi sér stað um ein milljón samskipta fólks við heimilislækna (heimilis- og heilsugæslulækna) á ári hverju. Starfsfólk á heilsugæslustöðvum og læknastöðvum er um 500 talsins en um 5.000 manns vinna hins vegar á sjúkrastofnunum. Engu að síður er um 90% allra vandamála sinnt af þessum fámenna hópi heilbrigðiskerfisins. Vandamálin í heilsugæslunni eru að sjálfsögðu annars eðlis og ekki eins tímafrek eins og vinna á stofnunum«. Þessar staðreyndir leiða hugann að kostnaði við heilbrigðisþjónustu. Á miðju ári 1985 lauk nefnd á vegum heilbrigðismálaráðherra starfi sínu, en hún kannaði reynslu og kostnað af rekstri heilsugæslustöðva á Stór-Reykjavikursvæðinu. Helstu niðurstöður nefndarinnar voru þær, að í lögum um heilbrigðisþjónustu yrði að gera ráð fyrir heimildarákvæði til þess að þau sveitarfélög sem þess óska (svo sem eins og Reykjavík og líklega fleiri sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu) geti tekið að sér ábyrgð á rekstri og uppbyggingu heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa. Þar má segja að mælt sé með því að Jlytja verkefni frá ríki til sveitarfélaga, en slíkt hefur verið á stefnuskrá flestra hérlendra stjórnmálaflokka. Þannig ætti þetta að geta verið mál sem flokkar á þingi gætu sameinast um. í drögum að frumvarpi sem nefndin samdi segir svo: 3. grein. Við 18. gr. laganna bætist ný málsgrein, 18-4: »Á höfuðborgarsvæðinu og öðrum þéttbýlissstöðum er stjórn heilsugæslu heimilt að taka á leigu húsnæði og búnað fyrir heilsugæslustöð eða hluta af heilsugæslustöð. Kostnaður vegna þessa greiðist af stjórn heilsugæslu samanb. gr. 21-9.« 21-4 grein hljóði svo (ný grein): »Ef sveitarstjórn á höfuðborgarsvæðinu, eða öðru þéttbýlissvæði, ákveður, annast sérstök stjórn í umboði ráðherra og viðkomandi sveitarfélags, stjórn heilsugæsluþjónustu utan spítala. Stjórnin skal þannig mynduð að fjórir fulltrúar eru kosnir af sveitarstjórn en einn skipaður af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og jafnmargir til vara. Sveitarstjórn kýs formann. Sveitarstjórn setur stjórn heilsugæslu starfsreglur (samþykktir) sem skulu staðfestar af heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra«. 21-11 grein hljóði svo: »Kostnaður hins opinbera og hlutfallsskipting milli ríkis og sveitarfélaga við heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa skal ákveðin árlega við fjárlagagerð. Þessi kostnaður er nú af fjárfestingu 85%, af starfsemi heimilislækna, heilsugæslu, heilsuverndarstöðva, heimahjúkrun, læknastofum og læknavakt að meðaltali 50,5%, af kostnaði vegna sérfræðiþjónustu 56%, af kostnaði vegna lyfja 67,7%, af kostnaði vegna tannlæknaþjónustu 36,9%. Þessar greiðslur skulu greiddar mánaðarlega af Tryggingastofnun ríkisins til viðkomandi heilsugæslustjórna«. Stofnkostnaður við byggingu heilsugæslustöðva skiptist þannig nú, að ríkið greiðir 85% en sveitarfélög 15%. Það er því augljóst aðþað er ekki aðeins vilji borgaryfirvalda sem þarf til. Lengi vel hefur landsbyggðin gengið fyrir höfuðborginni hvað varðar fjárframlög ríkisins í þessum málaflokki, en nú má með réttu segja að komið sé að Reykjavík. Höfuðborgin hefur lagt fram fé til heilsugæslunnar í samræmi við myndina.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.