Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.04.1987, Blaðsíða 23

Læknablaðið - 15.04.1987, Blaðsíða 23
LÆKNABLAÐIÐ 127 SJÚKLINGAR OG AÐFERÐIR Athugun þessi nær til 65 sjúklinga, yngri en 13 ára, sem fengu sjúkdómsgreininguna »bráð speldisbólga« við innlögn á háls-, nef- og eyrnadeild Centrallasarettet í Váxjö (CLV) á fimmtán ára tímabili, eða frá 1969 til 1983. CLV er aðalsjúkrahús Kronobergsléns i suður Svíþjóð, sem í byrjun árs 1984 taldi 174.319 íbúa. í Kronobergsléni er bráð sjúkrahjálp með þeim hætti að sjúklingur eða aðstandendur hafa sjálfir beint samband símleiðis við sjúkrahús eða leita milliliðalaust á viðkomandi sjúkradeild, í þessu tilviki HNE-deild, sem sinnir öllum tilfellum með öndunarörðugleika innan Kronobergsléns. Váxjö er miðsvæðis í Kronobergsléni og munu þeir sem lengst eiga að sækja þurfa að fara um 120 km veg. Samgöngur eru góðar um lénið og sjaldgæft að veður eða ófærð hamli ferðum. Eru sjúkraflutningar því nær einvörðungu með bílum og tekur flutningur á sjúkrahúsið þvi í hæsta lagi um eina til tvær stundir eftir því hve greitt er ekið. Einungis þau börn, sem höfðu skýr einkenni bráðrar speldisbólgu samkvæmt sjúkraskýrslu við komu á sjúkrahús voru tekin með i athugun þessa. Höfðu börnin einkennandi sjúkrasögu, svo og sýnilegan þrota og roða á speldi samfara einkennum alvarlegrar sýkingar, enda þótt mismunandi væri hversu meðtekin börnin voru, svo sem fram kemur við athugun þessa. Meðferðarferli barna með öndunarörðugleika er í föstum skorðum við HNE-deild CLV. Við komu voru sjúklingar skoðaðir á sjúkramóttöku af vakthafandi lækni. Væru einkenni væg og speldisþroti óverulegur voru börnin lögð á legudeild HNE-deildar undir nánu eftirliti og gefið sýklalyf munnleiðis eða í æð. Við alvarlegri öndunarörðugleika var barnið flutt án tafar á skurðstofu HNE-deildar þar sem búin var aðstaða til bráðrar barkaskoðunar eða barkaskurðar ef pípusetning tækist ekki. Voru reyndir svæfingarlæknar og háls-, nef- og eyrnalæknar kvaddir til að pípusetja barnið. Var barnið svæft með blöndu ildis, glaðlofts og halótans og pípusett með sjálföndun, fyrst um munn, síðan nefleiðis og tryggilega frá pípuendanum gengið þannig að sem minnst hætta væri á að barnið gæti dregið pípuna í ógáti sjálft. Var við pípusetninguna notuð minnsta mögulega pípustærð hverju sinni. Bláæðarleggur var settur á meðan á svæfingu stóð og barninu gefið klóramfenikól; dagsskammtur: 100 mg/kg líkamsþunga, og einn skammtur barkstera, hydrókortison, m.t.t. speldisþrota og einkenna að mati læknis hverju sinni. Var barnið síðan flutt á gjörgæsludeild til hjúkrunar og meðferðar þar sem það var lagt í rakatjald. Þann tíma sem barnið lá með pípu i barkamynni fékk það vökva í bláæð til næringar og róandi lyf, dróperidól ásamt díasepam, í bláæð, til að draga úr óþoli vegna pípunnar. Pípuúttaka var síðan ákveðin af háls-, nef- og eyrnalækni og svæfingarlækni í sameiningu m.t.t. þrota á speldi, auk þess sem litið var til lækkandi sótthita og hvítfrumafjölda. Eftir pípuúttöku var barnið flutt á legudeild HNE-deildar og klóramfenikólgjöf hætt, en þess í stað gefið breiðvirkt sýklalyf munnleiðis, auk hóstastillandi lyfs og dropa við nefstíflu ef þörf var. Þegar börnin voru orðin einkennalaus voru þau útskrifuð, en lyfjameðferð haldið áfram í eina viku. Fjórum til sex vikum eftir heimferð komu börnin til eftirlits á göngudeild HNE-deildar, þar sem framkvæmd var venjuleg skoðun auk óbeinnar barkakýlisskoðunar, og ef grunur var um barkaþrengsl öndunarmæling. Reyndist hjá þeim sjúklingum, sem hér er gerð grein fyrir ekki frekari þörf endurkomu til eftirlits. Mismunargreining. Við sjúkdómsgreiningu og ákvörðun meðferðar barns með skyndilega öndunarerfiðleika er mikilvægt að hafa á hraðbergi mögulega orsakavalda, þ.e.a.s. mismunargreiningu bráðrar speldisbólgu, þar sem tíminn er oft naumur og barninu hrakar skjótt sé rétt meðferð ekki hafin án tafar. Bráð speldisbólga er sjaldgæf hjá börnum yngri en 6 mánaða (5, 17). Öndunarerfiðleikar af völdum sýkingar. Sogakvef er algengt meðal barna. Orsakavaldar eru oftast »parainfluensa« eða »respiratory syncytial«-veirur, sem valda þrota í slímhúð neðan raddfæra (18). Er fyrst og fremst um að ræða yngri börn, með sögu um væga sýkingu í efri hluta öndunarvega. Getur barnið haft hita, en sjaldnast verulegan. Einkenni eru væg meðan barnið er á fótum, helst hæsi og geltandi hósti, en þegar barnið er lagt niður sígur aukinn þroti í slímhúðina og barninu verður örðugt um öndun; innöndunarsog. Sýking í barkakýli, barka og berkjum veldur einkennum, sem örðugt getur verið að greina frá speldisbólgu eða sogakvefi. Megineinkenni eru hár hiti, andnauð ásamt auknum fjölda niftsækinna hvítfruma.

x

Læknablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.