Læknablaðið

Árgangur

Læknablaðið - 15.08.1987, Síða 6

Læknablaðið - 15.08.1987, Síða 6
190 LÆKNABLAÐIÐ Ónæmisbælingin hefur ýmist verið í formi lyfja, svo sem prednisóns og azatíópríns, eða geislunar. Barksterameðferðin ein er talin geta átt þátt í myndun KS, en KS myndast þó fyrr ef azatíóprín er gefið jafnframt (9, 11). Tíminn, sem líður frá upphafi barksteragjafar þar til KS greinist, er mislangur, og steraskammtar eru breytilegir (12). Sjúkdómsgangurinn er breytilegur, og konur eru fleiri í þessum hópi, en í klassísku KS (12). 4. Kaposisarkmein birtist í nýjum sjúklingahópi árið 1981, ungum, samkynhneigðum (homosexual) karlmönnum samfara sjúkdómnum eyðni (AIDS) (13). Eyðnisjúklingar hafa alvarlega ónæmisbilun og nú er um þriðjungur þeirra talinn fá KS á síðari stigum sjúkdómsins (2, 14), en stundum er KS fyrsta einkennið um eyðni (7). KS hjá eyðnisjúklingum er venjulega hratt vaxandi, meinin eru minni og fölari og oftar á efri hluta líkamans, t.d. bol og hálsi (3, 13). KS getur leitt til dauða eyðnisjúklinga og finnst oft í innri líffærum, svo sem eitlum, milti, lungum og meltingarvegi (2). Vefjagerð æxlisins er í meginatriðum talin sú sama hjá þessum fjórum sjúklingahópum (2, 13). Við smásjárskoðun finnst blanda af óreglulegum, þunnveggja æðum og spólulaga frumum. Spólufrumurnar eru afbrigðilegar og líkjast þeim frumum, sem sjást í bandvefssarkmeini en æðaþelsfrumurnar eru nokkuð reglulegar. I burðarvef (stroma) sjást bandvefsþræðir (retikúlín og kollagen), rauð blóðkorn utan æða, hemosíderín-útfellingar og oft væg hnattfrumuíferð (13, 15). Stundum er vefjagerð KS í húðsýni skipt niður í þrjá flokka eða stig: blett (patch), þykkildi (plaque) og hnúð (nodule) (13). Á hinu fyrsta af þessum stigum eru spólufrumur mjög fáar, en æðar margar og útvíkkaðar, á næsta stigi sjást spólufrumur og æðar, en á síðasta stiginu er meinsemdin að mestu gerð úr spólufrumum og æðar eru minna áberandi. Útbreiðslu Kaposisarkmeins í líkamanum svipar til útbreiðslu illkynja æxla, en þó er ósannað að KS myndi eiginleg meinvörp og talið er að æxlisvöxturinn sé margstæður (multicentric) frá upphafi (1, 3, 16). Tilgangur þessarar rannsóknar var að finna algengi Kaposisarkmeins á íslandi, kanna hvaða faraldsfræðilegum hópum íslenzku sjúklingarnir tilheyra og að bera klínískar upplýsingar saman við vefjafræðileg stig sjúkdómsins. Þá er ætlunin að vekja athygli íslenzkra lækna á sjúkdómnum, áhættuhópum og tengslum KS við ónæmisbælandi meðferð, sérstaklega barkstera. EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR Leitað var að sjúkdómsgreiningunni Kaposisarkmein í sjúkdómaskrá vefjarannsóknadeildar Rannsóknastofu Háskólans við Barónsstíg á tímabilinu frá nóvember 1983 til október 1986, en það tímabil er skráin tölvugeymd. Við þessa leit fengust upplýsingar um 22 vefjasýni frá 14 sjúklingum, allt húðsýni. í Ijós kom að sýni frá tveimur sjúklingum uppfylltu ekki skilmerki um Kaposisarkmein þannig að rannsóknin nær til 12 sjúklinga, sem greindust með vefjarannsókn. Staðfest var að skrá Krabbameinsfélags íslands geymdi ekki upplýsingar um fleiri KS á íslandi á þessu tímabili. Ferill þessara 12 sjúklinga var kannaður. Farið var yfir sjúkraskýrslur níu sjúklinga, sem legið höfðu á sjúkrahúsi, en upplýsingar fengnar beint frá læknum hinna þriggja. Viðbótarupplýsingar um átta sjúklinga og meðferð KS voru fengnar úr skýrslum krabbameinslækningadeildar Landspítala. Þrír sjúklingar voru skoðaðir og rætt var við fjóra aðra. Tveir sjúklingar voru látnir þegar rannsóknin fór fram og voru krufningaskýrslur þeirra skoðaðar. Upplýsingar um krabbamein voru fengnar úr sjúkdómaskrá vefjarannsóknadeildar Rannsóknastofu Háskólans og bornar saman við skrá Krabbameinsfélags íslands til staðfestingar. Eftirfarandi klínískar upplýsingar voru skráðar: Aldur sjúklings við fyrstu greiningu; kyn; greiningarár; staðsetning KS og útbreiðsla; notkun ónæmisbælandi lyfja eða geisla fyrir greiningu KS, sérstaklega barksteranotkun; magn og tímalengd slíkrar meðferðar; aðrir langvarandi og alvarlegir sjúkdómar, bæði áður greindir og meðfylgjandi; og loks meðferð vegna Kaposisarkmeins og árangur hennar. Allar smásjársneiðarnar voru endurskoðaðar. Upphaflegar hematoxýlín-eósín-litaðar (HE) vefjasneiðar fundust allar nema ein, en þar var skorin og lituð ný sneið. Nýjar sneiðar voru skornar úr kubbum frá öllum sýnunum og gerðar sérlitanir, retikúlín-, tríkróm- og períódiksýru- Schiff-litanir (PAS). Við smásjárskoðun var eftirfarandi skráð: tegund sýnis; form æxlisvaxtarins (blettur, þykkildi, hnúður); útbreiðsla meinsins í húð; frumugerðir; frumuskiptingar; bandvefsmyndun; rauð blóðkorn utan æða (extravasation); útfellingar blóðlitarefna (hemosiderin); sármyndun og bólgufrumuíferð.

x

Læknablaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.