Læknablaðið

Volume

Læknablaðið - 15.10.1988, Page 37

Læknablaðið - 15.10.1988, Page 37
LÆKNABLAÐIÐ 331 fjallað um heilsugæslustöðvar. Hins vegar eru hvergi í áætluninni nefndar stöðvar heimilislækna. Á Reykjavíkursvæðinu hafa heimilislæknastöðvar skipað sér fastan sess, og er ekki annað vitað en að þær standi jafnfætis heilsugæslustöðvum á svæðinu, hvað varðar gæði þjónustu, afköst og rekstrarhagkvæmni. Læknafélag íslands hefur árum saman stutt þá hugmynd, að í þéttbýli geti sérfræðingar í heimilislækningum átt þess kost að reka heimilislæknastöðvar, sbr. þann fyrirvara, sem læknafélögin settu í sambandi við D-daginn svonefnda árið 1983, þegar fyrirhugað var að gera allar stöðvar heimilislækna í Reykjavík samtímis að heilsugæslustöðvum. Bent skal á, að til er sérstakur kjarasamningur við heimilislækna, sem starfa utan heilsugæslustöðva. Stjórn félagsins leggur til, að heimilislæknastöðvum sé skipaður viðunandi sess við hlið heilsugæslustöðva í íslenskri heilbrigðisáætlun. Göngudeildir í kafla 3 í áætluninni, sem fjallar um stefnu í heilsugæslu- og sjúkrahúsmálum, segir m.a. í lið 2 (sjúkrahús): »Aukin verði göngudeilda- og dagdeildaþjónusta sjúkrahúsa í þeim tilgangi að stytta legutíma og fækka innlögnum«. í markmiði 20 segir m.a.: »Fyrirbyggjandi starfsemi, göngudeildastarf, heimahjúkrun, sjúkraþjálfun og heilbrigðisfræðsla verður aukin«. Það hefur lengi verið skoðun Læknafélags íslands, að ekki beri að auka göngudeildaþjónustu sjúkrahúsanna. í því sambandi vísast til meðfylgjandi greinargerðar göngudeildarnefndar félagsins frá árinu 1982 og til samþykktar aðalfundar árið 1985 um starfsemi og þróun göngudeilda á sjúkrahúsum. Árið 1986 leiddi könnun stjórnar Læknafélags íslands í ljós, að ekki höfðu orðið marktækar breytingar á göngudeildarstarfsemi sjúkrahúsanna næstu 4 árin þar á undan. Stjórnin leggur áherslu á meðfylgjandi álit frá 1982 um, að á göngudeildir skuli aðeins koma sjúklingar til eftirlits eftir legu á sjúkrahúsinu, sérstök tilfelli til kennslu, aðgerða eða eftirlits, sem ekki er unnt að framkvæma annars staðar. Stjórnin telur, að öll önnur heilsugæsla en sú, sem krefst sjúkrahúsvistar, skuli fara fram utan göngudeilda sjúkrahúsa. Um þessa afstöðu Læknafélags fslands til göngudeildarstarfsemi á sjúkrahúsum ríkir full samstaða meðal lækna, m.a. bæði heimilislækna og sérfræðinga. Á síðustu árum hefur verið komið á fót á Reykjavíkursvæðinu allnokkrum stöðvum sérfræðinga, þar sem ýmis þjónusta er samnýtt, m.a. rannsóknaaðstaða. Þessar stöðvar virðast hagkvæmar rekstrareiningar, sem veita sjúklingum góða þjónustu. Með þeim hafa opnast möguleikar á betra samstarfi sérfræðinga bæði innan sömu sérgreinar og á milli sérgreina. Með því að fullnýta þessar stöðvar og aðrar, sem hugsanlega verður síðar komið á fót af læknum, sparast sjúkrahúsunum umtalsverður stofnkostnaður í sambandi við húsnæði og búnað nýrra göngudeilda. Stjórn Læknafélags íslands telur einsýnt, að nýta beri þessa aðstöðu til fullnustu. Æskilegt væri að geta nýtt ofangreindar stöðvar sérfræðinga betur og í meira mæli en nú er til kennslu og rannsókna. Störf sérfræðinga í Fylgiskjali I með íslenskri heilbrigðisáætlun (Verkefni sem þarf að framkvæma til þess að markmiðin náist) segir vegna M 21: »Skýr skil verði gerð á milli sérfræðistarfa á sjúkrahúsum og utan. Sérfræðingar í fullu starfi á sjúkrahúsum sinni ekki sérfræðistarfi utan sjúkrahússins. Sérstakir læknar verði ráðnir á göngudeildir sjúkrahúsanna til sérfræðistarfa og verksvið göngudeilda skýrar ákveðið.« Stjórn Læknafélags Íslands hafnar alfarið þeim hugmyndum, sem þarna koma fram. Stjórnin sér engin rök fyrir því að reisa múr milli sérfræðistarfa á sjúkrahúsum og utan þeirra. Slíkur múr mundi sjáanlega leiða til einangrunar þeirrar starfsemi á báða vegu og mundi gera samskipti flóknari og rjúfa nauðsynlega samfellu í samskiptum sjúklings við heilbrigðisstarfsfólk. Stjórnin telur beinlínis varhugavert að meina sjúkrahúslæknum í fullu starfi að sinna sérgrein sinni utan sjúkrahúsa. Heimild sjúkrahúslækna til starfa utan sjúkrahúsa er takmörkuð í kjarasamningi þeirra og miðast við tiltekinn fjölda klukkustunda á viku. Falli þessi heimild niður, gæti það leitt til þess, að sjúkrahúslæknar muni upp til hópa leita eftir hlutaráðningum, sem væri ekki heppilegt til lengdar. Þá er sá hugsanagangur að öllu leyti óeðlilegur, að sjúkrahúslæknar séu útilokaðir frá því að hafa afskipti af öðrum en þeim, sem á sjúkrahúsunum liggja og að eiga þess ekki kost að hitta sjúklinga, áður en til innlagnar kemur, til að forvinna þau atriði, sem koma til frekari útfærslu á sjúkrahúsinu. Þessi háttur mundi ennfremur stuðla að minni samfellu í aðgerðum.

x

Læknablaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Læknablaðið
https://timarit.is/publication/986

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.