Nýtt Helgafell - 01.06.1956, Síða 25
UTANRlKISSTEFNA ÍSLENDINGA
71
sambúðar við Bretland. Við gætum óreiðan-
lega haft ,,góða sambúð'' við Breta, ef við
létum af því að færa út friðunarlínuna og
segðum í þess stað, að þeir mættu fiska á
sömu svæðum hér við land og áður. En við
íslendingar teljum það meiri ,,lífsnauðsyn"
að standa á þeim helga rétti þjóðarinnar,
en að halda ,,góðri sambúð" við þessa vina-
þjóð okkar.
Þegar við endurheimtum sjálfstæði okkar,
gerðist það þannig, að við töldum það meira
virði að öðlast sjálfstæði á kostnað „góðrar
sambúðar'' við Dani um skeið, en sú „lífs-
nauðsyn" að hafa við þá „góða sambúð"
ósjálfstæðir og í niðurlægingu.
Af þessum örfáu dæmum — af svo að
segja óteljandi — má sjá, að „góð sambúð"
milli þjóða verður að byggjast á gagnkvæmri
tillitssemi og virðingu fyrir sjálfstæði, samn-
ingum og rétti. Ef svo er ekki, getur svo farið,
að „góð sambúð'' smáþjóðar við stórþjóð
verði að niðurlægingu, þar sem önnur þjóðin
setur skilyrðin einhliða fyrir „góðri sambúð",
en hin hlýðir. Þá er „góð sambúð" ekki leng-
ur „lífsnauðsyn", heldur dauði.
Sú góða sambúð, sem við Islendingar vilj-
um framar öilu stuðla að og eiga við aðrar
þjóðir, teljum við að eigi að vera reist á
virðingu okkar fyrir rétti þeirra þjóða, sem
við eigum samskipti við, og að við höldum
loforð okkar og samninga við þær. En jafn-
framt virði þær sjálfsákvörðunarrétt okkar og
þá samninga, sem þær hafa við okkur gert.
„Mörkin í samvinnu og skuldbindingum við
aðrar þjóðir".
Ritstjórnin spyr ennfremur um það, hvort
samstarf og þátttaka í alþjóðasamtökum
hljóti ekki „að hafa í för með sér nokkurt
afsal sjálfsákvörðunarréttar þjóðarinnar".
Hún telur, að vandinn sé að „draga mörk í
samvinnu og skuldbindingum við aðrar þjóð-
ir". Þetta tel ég rétt athugað, enda hafa ís-
lenzkir stjómmálamenn verið vel á verði um
þetta atriði.
Áður en við gengum í Atlantshafsbanda-
lagið 1949, sendi Alþingi þrjá ráðherra til
Bandaríkjanna til þess að tryggja óvéfengj-
anlega að „draga mörk í samvinnu og skuld-
bindingum", ef við gerðumst þátttakendur í
Atlantshafsbandalaginu.
Þessir þrír íslenzku ráðherrar áttu þrjá við-
ræðufundi vestra, meðal annars við utanrík-
isráðherra Bandaríkjanna. Að loknum þess-
um fundum var lýst yfir, að við Islendingar
mundum því aðeins ganga í Atlantshafs-
bandalagið, að gengið væri að eftirfarandi
ófrávíkjanlegum skilyrðum:
Að við hefðum sjálfir engan her.
Að við réðum því algerlega sjálfir, hvort
við leyfðum erlendum her að dveljast í land-
inu.
Að við mundum aldrei leyfa her að dvelj-
ast í landinu á friðartímum.
Samkvæmt skýrslu, er ráðherramir gáfu
Alþingi og ríkisstjóminni, lýsti utanríkisráð-
herra Bandaríkjanna yfir því, að hann fyrir
hönd bandalagsþjóðanna gengi að öllum
þessum skilyrðum. — Og á þeim grundvelli
gerði Alþingi ályktun sína um þátttöku Is-
lands í bandalaginu.
Þegar við Islendingar gerðum, árið 1951,
samning um, að her kæmi hingað frá Banda-
ríkjunum vegna ótta við yfirvofandi árás og
heimsstyrjöld, var uppsagnarfresturinn sam-
kvæmt 7. gr. settur svo stuttur sem raun ber
vitni, til þess að við gætum verið vissir um
að geta tryggt okkur, að herinn færi héðan
með stuttum fyrirvara, ef friðvænlegra yrði
í heiminum. Var þetta í samræmi við þau
skilyrði, sem áður greinir og við settum, er
vð gengum í Atlantshafsbandalagið. Það
virðist því ekkert á það skorta af hálfu Is-
lendinga „að draga mörkin". Það atriði er
ljóst. „Mörkin" eru þessi: Við stöndum
með nábúum okkar og við munum leyfa
þeim að hafa hér her í styrjöld, eða vegna
yfirvofandi árásar — en ekki á friðartímum.
En það vill henda, að þjóðir, sem við er
samið, vilja fara yfir „mörkin", þótt skýr séu.
Af þessu stafar okkur ekki veruleg hætta,
nema það ólán hendi, að íslenzkir menn
taki upp baráttu með erlendum öflum móti
rétti Islendinga og málstað.