Árbók skálda - 01.12.1955, Page 16
14
— Hengdu kápuna þína fram, bauð hann og gerði sig ekki
líklegan til að hjálpa henni. Hún fór þegjandi úr kápunni
frammi í forstofunni og sagði hressari í bragði, er hún kom
inn og strauk höndunum eftir mjöðmunum.
— Hvernig fannst þér nýja kápan mín?
— Það er eins og þú sért komin langt á leið í henni.
— Veiztu nokkuð nema ég sé það, svaraði hún ertnislega.
Hann horfði á hana út undan sér vansæll á svipinn og
sagði:
— Nú ertu strax orðin vond?
— Ég er alls ekkert vond. Ég sagði bara —
— Já, ég heyrði hvað þú sagðir, þú þarft ekki að endur-
taka það. En ég fann strax, að þú varst ekki í góðu skapi.
— Ég er alls ekkert vond. Það ert þú sem ert vondur, sagði
hún og settist í stólinn dálítið önug.
Hún fór í óðaönn að blaða í blöðunum, Life og Picture Post,
en hann fékk sór með mestu hægð sígarettu og blés bláum
reyknum út í herbergið. Hann virti hana tortrygginn fyrir sér
gegnum reykinn. Loks sagði hann
— Jæja, hættu þá þessari leiðinda fýlu, og hann teygði
vandræðalega úr sér á dívaninum.
— Voðalega geturðu annars verið bamalegur, sagði hún
og rýndi nærsýn í blöðin, það er alveg ótrúlegt, hvað þú getur
verið barnalegur.
— Og það er alveg ótrúlegt, hvað þú hefur alltaf gaman
af þessum sömu, gömlu blöðum. Hann brosti háðslega til
hennar.
— Það er af því að húsráðandinn er svo skemmtilegur,
svaraði hún og hélt áfram að skoða blöðin.
— Komdu nú og setztu hérna hjá mér, bauð hann án fyrir-
vara og klappaði á einn dívangorminn sem stakkst út í klæð-
ið. En hún gaf boðum hans ekki gaum. — Komdu og sýndu
mér armbandið, sem ég gaf þér. Ef þú vissir, hvað það kost-
aði mig mikla fyrirhöfn, bætti hann við.