Árbók skálda - 01.12.1955, Síða 17
15
En hún tók þegjandi af sér armbandið þar sem hún sat og
kastaði því til hans.
Hann greip það á lofti og handlék það nokkra stund, síðan
sagði hann:
— Voðalega er kvenfólk annars hégómlegt. Með gullhömr-
um er hægt að fá kvenfólk til alls. Annars gæti ég selt fyrir
þig armbandið, ef þú vildir — ef þú vildir losna við gjöfina.
Og hann brosti mjög áberandi til hennai'.
— Þú mátt selja það, þú mátt gera hvað sem þú vilt við
það, svaraði hún og var skyndilega komin í uppnám. Ég kæri
mig bara ekki um það.
— Á ég þá að henda því út um gluggann eða gefa það
einhverri mellunni? sagði hann og brosið var stirðnað á vör-
unum.
— Já lof mér það, lof mér það.
Hún þreif af honum armbandið og grýtti því af alefli í
vegginn, og var rokin út.
Ungi laglegi maðurinn var risinn upp af dívaninum og
horfði ringlaður í dyragáttina. Frammi heyrði hann hana rífa
snöktandi niður regnkápuna af snaganum, nýju regnkápuna,
og hún kom æðandi, herská í augunum eins og helsært dýr
úr dimmum skógi — æðandi tryllt og hamslaus og hún reif
niður myndina af sjálfri sér, sem hún hafði gefið honum —
reif hana í ótal tætlur.
— Þú hefur eyðilagt — þú hefur eyðilagt, grenjaði hún og
þeytti tætlunum í kringum sig. Um leið kom hún auga á ljóða-
bókina, afmælisgjöfina frá því í haust, og hún þeytti henni
út um opinn gluggann.
Hann hafði ekki tíma til neins, því að hún var rokin út, áður
en hann gat áttað sig á neinu. Dyrnar stóðu opnar alveg út
á götu. Honum datt í hug að hlaupa á eftir henni, biðja hana
fyrirgefningar, fá hana góða á ný, en það var eitthvað sem
lamaði vilja hans — og hann gekk að glugganum og hallaði
sér út.