Árbók skálda - 01.12.1955, Page 21
19
Ég kafroðnctði vegna fátæktar minnar, að eiga ekki einu
sinni túkall til að miðla þessum rausnarlega manni.
Til að dylja hvað ég skammaðist mín, leitaði ég með írafári
í galtómum vösum mínum, þótt ég vissi, að þar var ekkert
að finna.
— Nei, ég á ekki túkall, hvíslaði ég. — Hann er farinn.
Drykkjumaðurinn leit á mig af meðaumkun:
— Það gerir ekkert til. Ég ætlaði bara að fá mér súpu,
heita súpu. — Það er stúlka, sem selur mér stundum súpu,
þegar ég er svangur.
Hann leit á mig eins og hann væri að biðja fyrirgefningar.
— Maður á svo sjaldan fyrir mat, bætti hann við.
Hann saup gúlsopa úr flöskunni og fékk hóstakast.
Ég hélt hann ætlaði ekki að ná andanum og studdi hann,
meðan hann engdist sundur og saman.
Sígarettan hans datt í poll, glóðin dó með snarki og þurrt
tóbakið saug í sig vatnið eins og svampur.
Vínið rann út úr munnvikjunum á honum niður í óhreint
skeggið og ofan á háls. Ég klappaði honum á vangann með
lófanum og þurrkaði honum í framan með klútgarminum
mínum og rétti honum svo hina sígarettuna, þegar hann var
búinn að jafna sig.
Svo saup ég á flöskunni. — Skál! sagði ég.
Hann leit upp hissa.
— Þú ert orðin glöð, sagði hann. — Svona eiga stúlkur að
vera í sólskini, — ungar stúlkur, glaðar stúlkur. — Skál!
Það færðist bros yfir skeggjað og úfið andlitið, og ég sá,
að hann var tannlaus í efra gómi.
— Á ég að segja þér eitt? spurði hann. — Einu sinni sat
ég á bekk með stúlku í fallegum garði fyrir mörgum árum.
Það var ung stúlka og falleg eins og þú og góð við mig
eins og þú. — Ég held ég muni það, — útræna og gekk á
með skúrum eins og núna og glaða sólskin á milli--------
Drykkjumaðurinn þagnaði og horfði fram hjá mér langar
leiðir.