Árbók skálda - 01.12.1955, Side 73
71
an þú veltist í kolmórauðu vatninu og mót.tir búast við ís-
fyllunni yfir þig og hestinn.
— Ég er með tappatogara, segir bruggarinn.
— Það er gott. Það er indælt, segir hann og réttir bruggar-
anum flöskuna.
Þú drakkst af því þig tók sórt að fólk þitt skyldi horfa á
ykkur, meðan þið börðust við dauðann í myrkum og köldum
og mórauðum flaumnum, eftir að ísspöngin brast með ykkur,
og jakahlaupið gat skollið yfir ykkur og ruddist fram, meðan
þið stóðuð á bakkanum hinum megin alvotir og skjálfandi
eftir svamlið.
Við erum mjög hátíðlegir. Bruggarinn setur flöskuna í klofið
og skrúfar í korkinn. Það er nokkurt fum á honum við þetta.
Þegar tappinn er kominn, lyftir hann flöskunni og horfir á
lárviðarbóndann.
— Já, þetta er gott, gott, segir hann.
Við brosum ekki. Það slær glampa á gullinn vökvann, þar
sem ljósið brýzt í gegn.
— Súptu á lagsmaður, segir hann við bruggarann. Honum
finnst það rammt og vont, því hann grettir sig og hóstar og
gapir dálítið. Hann réttir flöskuna frá sér.
— Beizkur ertu drottinn minn, segir bruggarinn.
— Gjörðu svo vel. Gjörðu svo vel.
Við tökum flöskuna hver á eftir öðrum. Við drekkum ekki,
heldur rekum tunguna í það fyrir siðasakii af því okkur hefur
verið boðið það og af því þannig stendur á í þetta sinn og
máski síðasta sinn, því enginn veit hvort þetta er síðasti vagn-
inn sem við ýtum á þessu sumri. Bifreiðarstjórinn fær sér líka.
— Þrátt fyrir lögin, segir hann.
Vínið er enn í öxlum eftir að hafa gengið hringinn. Lár-
viðarbóndinn tekur við flöskunni og virðir hana fyrir sér.
— Haldið þið ég tími þessu ekki drengir, segir hann og
það er sannferðug depurð í rödd hans. Við segjum ekkert
og bíðum þess hann fái sér einn. Svo skilur hann eftir hverju
við bíðum.