Árbók skálda - 01.12.1955, Síða 101
99
ára? Það mæla engin skynsamleg rök með því, að ég ætti
ekki að syngja, eins og íuglarnir gera úti í dýrðinni. Þess
vegna syng ég. En ég syng afarlágt, og stundum hætti ég,
þegar ég heyri, að það er betur sungið úti. Litli drengurinn
hallar höfðinu að brjósti mér og heldur víst, að ég sé fullorð-
inn maður, og ég sem er ekki einu sinni í síðum buxum, held-
ur stuttum buxum, sem ná ekki niður á hné. En ég þrýsti hon-
um að mér eins og ég sé móðir hans, og þó er ég ekki móðir
hans.
Og hann segir: Já, ofurlágt.
En þá segi ég: Nú eru fuglarnir að hátta sig. Við skulum
líka fara að sofa.
Já, segir litli drengurinn og þrýstir sér að mér. Honum þykir
víst gott að láta mig svæfa sig. Mér þykir líka gott að svæfa
hann. Ég syng fyrir hann, en hann vefur handleggjunum um
háls mér. Og þannig sit ég, þar til hann lokar augunum og
ég finn, að hann þyngist í fangi mínu, og þá er ekkert betra
en vita sig nógu sterkan til að standa upp með hann, þung-
an og mjúkan, og leggja hann í vögguna.
En það kemur að því fyrr en varir, að vorið er ekki of
kalt fyrir lítil börn, og nú mætti ætla að betra tæki við, en
svo er ekki. Litli drengurinn er dúðaður allskyns fötum, hann
er færður í svartan frakka hnepptan upp í háls og sett húfa
á höfuð hans, en við mig er sagt: Búðu þig nú vel, Nonni
minn.
Og ég, sem er tíu ára, ætli ég hlýði ekki, þegar húsmóðir
mín segir: Búðu þig nú vel, Nonni minn. Ónei, það geri ég
ekki.
Ég er þannig klæddur, að ég er ekki í neinum nærbuxum,
heldur er ég í stuttum buxum, svörtum eða gráum, sem ná
ekki niður á hné. Ég er ekki í sokkum, heldur háleistum, og
ég er ekki í nærskyrtu, aðeins þunnri léreftsskyrtu, og húfa
er þesskonar áhald, sem ég nota ekki. Skyrtan mín er erma-
laus, eða ermarnar mjög stuttar. Þannig búinn vil ég fara út
og enginn skal fá mig til að dúða mig, eða er ekki vor?