Árbók skálda - 01.12.1955, Page 102
100
Og við göngum út, tveir einir, út í vorið og finnum kaldan
andvara leika um okkur, því að hér erum við á Islandi.
Börn fyllast nýjum ótömdum lífskrafti, þegar þau skynja að.
heimurinn er úti engu síður en inni. Þau geta verið úti margar
klukkustundir samfleytt án þess að vilja fara inn, og þegar
þau eru komin inn, vilja þau fara út aftur.
Ég leiði barnið, litla drenginn í svörtu kápunni, með húfuna
á höfðinu, og nefið út undan húfunni. Ég verð hérumbil alltaf
að leiða hann, því að hann er svo lítill. Ég held í hægri eða
vinstri hönd hans, og það eru vettlingar á báðum höndum
hans, en ég nota ekki vetilinga þegar vorið er komið, mér er
sama þótt það sé ís fyrir Norðurlandi.
Ég leiði hann fram og aftur um hlaðið, út á túnið, heim á
hlað aftur, þannig áfram í sífellu. En þó að ég hafi sagt, að
mér kæmi ekki við ísinn, sem flaut í óendanlegri vídd fyrir
norðurströndinni, þá var það misskilningur. Það næddi um
bera fótleggi mína og gegnum þunría léreftsskyrtuna. Ef hér
væri lítill fjörkálfur, sem hægt væri að slást við, þá yrði manni
ekki kalt, en hér er eins árs drengur, sem bara er hægt að
leiða, það er allt og sumt.
Einhverju sinni segi ég við hann Viltu nú ekki fara inn?
Nei, segir hann.
Svo var það ekki meira, ekki þann dag, en næsta dag var
það meira.
Ég sagði: Viltu ekki fara inn?
Nei, sagði litli drengurinn.
En ég gafst ekki upp, því að ég vildi fara inn í hlýjuna.
Ég var búinn að drattast ótal hringi kringum húsið, en hafði
ekki enn skilizt gamanið í slíku ferðalagi án þess að hafa
neinn til að slást við.
Þér er svo kalt, sagði ég við barnið, og notaði klæki. Þú
vilt fara inn, af því þér er kalt.
Já, sagði litli drengurinn.
Hann hélt í sakleysi sínu, að þetta væri rétt.
Síðan fórum við inn, og ég sagði við fólkið: