SunnudagsMogginn - 04.12.2011, Blaðsíða 47
4. desember 2011 47
Það verður líf og fjör á Þjóð-minjasafninu á aðventunni.Boð-ið verður upp á fjölbreyttajóla-dagskrá og fróðleik um
þjóðlega jólasiði þar sem byggt er á
heim-ildum um íslenska þjóðmenn-
ingu.
Jóladagskrá Þjóðminjasafnsins hefur
áunnið sér hefð og með árunum eignast
fjölmarga aðdáendur í hópi yngri gesta
safnsins. Þar ber hæst heimsókn jóla-
sveinanna en senn líður að komu þeirra
Grýlu og Leppalúða í Þjóðminjasafnið.
Þrettán dögum fyrir jóladag mætir
Stekkjarstaur, og síðan bræður hans koll
af kolli á hverjum degi fram að jólum. Þá
er von á áhugasömum börnum í Þjóð-
minjasafnið, sem ólm vilja heyra sögur af
hinni hrikalegu fjölskyldu úr fjöllunum
sem þekkt hefur verið í íslenskum kvæð-
um og sögum í aldir.
Samkvæmt heimildum eru íslensku
sveinarnir af kyni trölla og voru ógnvæn-
legir í hugum barna enda synir illvætt-
anna Grýlu og Leppalúða. Grýlu er fyrst
getið á 13. öld og minnst er á hana sem
tröllkvendi í Snorra-Eddu. Það er þó ekki
fyrr en á 17.-18. öld sem sögur af Grýlu
tengjast jólunum. Hún var sögð heyra í
óþekkum börnum gegnum holt og hæðir
og hóta því að skella þeim í pokann sinn.
Í frásögum af Grýlu hefur hún oftast ekki
erindi sem erfiði. Fyrsta ritaða heimildin
þar sem minnst er á jólasveinana sem
syni Grýlu er frá 17. öld. Það er Grýlu-
kvæði séra Stefáns Ólafssonar frá Valla-
nesi. Þar segir um þau skötuhjú Grýlu og
Leppalúða:
Börnin eiga þau bæði saman,
brjósthörð og þrá.
Af þeim eru jólasveinar,
börn þekkja þá.
Af þeim eru jólasveinar
jötnar á hæð.
Öll er þessi illskuþjóðin
ungbörnum skæð.
Jólasveinar voru ýmist sagðir koma af
fjöllum eða af hafi. Áður fyrr tíðkaðist að
hræða börn til hlýðni með tröllasögum af
Grýlu og Leppalúða og síðar jólasvein-
unum. Það þótti þó ekki tilhlýðilegt því
að með húsagatilskipun frá árinu 1746 var
bannað að hræða börn með óvættum á
borð við jólasveinana. Jólasveinanna er
getið sem illþýðis í elstu sögunum, en
ímynd þeirra mildast á 19. öld hugs-
anlega vegna áhrifa húsagatilskipunar-
innar. Þeir voru þó áfram álitnir vera
hrekkjóttir þjófar og tröllslegir. Það á þó
ekki við um ímynd Grýlu, sem enn er
ógnvekjandi í hugum barna enda ekki
frýnileg lýsingin á tröllkonunni í
þjóðsögum Jóns Árnasonar:
„Grýlukvæðin segja að hún hafi
ótal (300) hausa og þrenn augu í
hverju höfði ... kartnögl á hverjum
fingri, helblá augu í hnakk-
anum og horn sem geit,
eyrun lafi ofan á axlir og
séu áföst við nefið að framan. Hún var og
skeggjuð um hökuna og fór skeggið ekki
betur en hnýtt garn á vef og hékk þar við
bót eða flóki, en tennurnar voru sem
grjót ofnbrunnið.“
Grýla hefur sterk þjóðleg einkenni.
Eftir aldamótin 1900 urðu hinir íslensku
sveinar smám saman fyrir miklum áhrif-
um frá erlendum jólasveinum, klæddust
rauðu, urðu gjafmildir og gáfu góðgæti í
skóinn. Íslensku jólasveinarnir voru þó
upphaflega alls óskyldir hinum al-
þjóðlega rauðklædda Santa Claus sem
kominn er af dýrlingnum Nikulási bisk-
upi, verndara barna og sæfarenda í kaþ-
ólskum sið. Þrátt fyrir að hafa orðið fyrir
erlendum áhrifum héldu jólasveinarnir
þó alltaf í séríslensk einkenni sín. Þeir
voru margir og báru mismunandi nöfn í
samræmi við grallaraskapinn og áttu
heima í fjöllunum með Grýlu og Leppa-
lúða. Reyndar var það um tíma nokkuð á
reiki hversu margir íslensku jólasvein-
arnir væru, en þeir voru oftast taldir níu
eða þrettán. Mun fleiri jólasveinanöfn
hafa þó þekkst eða rúmlega 70. Nöfnin
sem birtast í þjóðsagnasafni Jóns Árna-
sonar komast næst því að vera þau sömu
og nú tíðkast. Þar eru nefndir þeir þrett-
án jólasveinar sem við þekkjum nema
hvað í stað Hurðaskellis er þar nefndur
sveinninn Faldafeykir. Í þjóðkvæðinu
„Jólasveinar einn og átta“ voru þeir ekki
nema níu. Í kvæði Jóhannesar úr Kötlum
um jólasveinana sem birtist í bókinni Jól-
in koma árið 1932 eru hinir þrettán jóla-
sveinar sem við þekkjum nú nefndir til
sögunnar og má segja að menn hafi nú
sammælst um þá þrettán hrekkjalóma.
Nauðsynlegt er að halda á lofti hinum
séríslensku hefðum og kynna þann
áhugaverða heim sem birtist í heimildum
um íslenska jólasveina og tröll. Á liðnum
áratugum hefur það verið mikilvægur
þáttur í miðlunarstarfi Þjóðminjasafns
Íslands að kynna íslenska jólasiði. Það
hefur mælst vel fyrir og hjá mörgum fjöl-
skyldum er það orðinn ómissandi þáttur
jólaundirbúnings að hitta íslensku jóla-
sveinana í Þjóðminjasafninu og njóta
annarra jólaviðburða sem í boði eru í
safninu. Í Bogasal safnsins er sýningin
Guðvelkomnir, góðir vinir! Útskorin ís-
lensk horn, en þess má geta að í heiðnum
sið var talað um ,,að drekka jól“ og þá má
hugsa sér að skálað hafi verið í drykkjar-
hornum. Á sýningunni eru einstök ís-
lensk drykkjarhorn frá miðöldum. Á
sýningunni Sérkenni sveinanna býðst
börnum að snerta gripi tengda jólasvein-
unum, fjölskyldur geta farið í jólaratleiki
og fyrirlestrar eru haldnir um íslenska
jólasiði. Einnig eru til sýnis gömul jólatré
og jólakort frá ýmsum tímum. Á jólavef-
svæði Þjóðminjasafnsins má finna ýmsan
fróðleik um gamla jólasiði. Í safnbúðinni
er jólalegt og á kaffihúsi safnsins má njóta
jólalegra veitinga. Í Þjóðminjasafninu
eins og öðrum söfnum á landinu er vert
að njóta aðventunnar og huga að íslensk-
um jólahefðum og þjóðsögum með fjöl-
skyldu og vinum.
Á liðnum áratugum hefur það verið mikilvægur þáttur í miðlunarstarfi Þjóðminjasafns Íslands að kynna íslenska jólasiði. Hér heilsar Gáttaþefur upp á börn í safninu.
Þjóðminjasafnið
Jólahefðirnar lifna í söfnunum
Þankar um
þjóðminjar
Margrét Hallgrímsdóttir
margret@thjodminjasafn.is
’
Í Þjóðminjasafninu
eins og öðrum söfn-
um á landinu er vert
að njóta aðventunnar og
huga að íslenskum jóla-
hefðum og þjóðsögum með
fjölskyldu og vinum.