Morgunblaðið - 03.03.2012, Blaðsíða 40
40 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 3. MARS 2012
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Íslendingar vilja samkvæmt þess-
ari könnun helst sjá ný íslensk leik-
rit. Best er ef atburðir verkanna
gerast um kvöld að sumarlagi. Og ef
það er dans í sýningunni þá þarf
hann að vera samhæfður,“ segir
Hlynur Páll Pálsson, einn þeirra
sem skipa sviðslistahópinn 16 elsk-
endur, en hópurinn frumsýnir Sýn-
ingu ársins í Rúgbrauðsgerðinni í
Borgartúni 6 annað kvöld kl. 20.
Að sögn Hlyns byggist sýningin á
skoðanakönnun sem hópurinn fékk
Félagsvísindastofnun HÍ til að fram-
kvæma fyrir sig til að komast að því
hvað Íslendingar vilja sjá á leiksviði.
„Í raun má segja að við séum inn-
blásin af myndlistartvíeykinu Kom-
ar og Melamid sem ferðaðist um
heiminn og rannsakaði hvað fólk
vildi helst sjá í málverki og málaði í
kjölfarið bestu og verstu myndina að
mati svarenda. Við veltum þannig
fyrir okkur hvað myndi gerast ef við
leyfðum þjóðinni að ráða leikverki
alveg,“ segir Hlynur.
Alls er í sýningunni boðið upp á 17
senur, en enginn áhorfandi fær að
sjá þær allar. „Ástæðan er sú að við
erum að reyna að skapa hina full-
komnu leikhúsupplifun fyrir hvern
og einn samfélagshóp. Sökum þessa
skiptum við áhorfendum í hópa eftir
kyni, aldri, búsetu og starfi og á
grundvelli þess eru þeir síðan leiddir
með tilteknum hætti um sýning-
arrýmið sem rúmar mörg leiksvið,“
segir Hlynur leyndardómsfullur og
vill lítið meira gefa upp um sýn-
inguna.
„Ég get þó upplýst að við fengum
leikskáldin Hrafnhildi Hagalín og
Jón Atla Jónasson til að skrifa fyrir
okkur annars vegar senuna sem
flestir vilja sjá og hins vegar senuna
sem fæstir vilja sjá, en þess má geta
að senurnar voru ólíkar eftir kyni.
Kristín Eysteinsdóttir og Stefán
Jónsson leikstýra þessum senum, en
Ilmur Kristjánsdóttir og Örn Árna-
son eru sérlegir gestaleikarar hjá
okkur í senunum sem flestir vildu
sjá, því þau voru ofarlega á lista yfir
uppáhaldsleikara þjóðarinnar. Við
16 elskendur leikum hins vegar sen-
urnar sem fæstir vildu sjá enda
nefndi enginn okkar nöfn í hópi
uppáhaldsleikara sinna,“ segir Hlyn-
ur og bætir við að reyndar sé uppá-
haldsleikkona þjóðarinnar önnur eða
óljós. Þegar blaðamaður hváir út-
skýrir Hlynur að svarendur rann-
sóknarinnar hafi nær undan-
tekningarlaust vitað fullt nafn á
öllum þeim karlleikurum sem nefnd-
ir voru. „En þegar þeir áttu að nefna
nafn uppáhaldsleikkonu sinnar þá
ýmist vissu svarendur aðeins for-
nafn hennar eða mundu ekki nafnið
og reyndu þess í stað að lýsa útliti
hennar.“
Spurður hvort hópurinn skilgreini
sýningu sína sem pólitískt leikhús
svarar Hlynur því játandi. „Við er-
um markvisst að skoða áhrif skoð-
anakannana í samfélaginu og hvað
meðaltölin geta verið blekkjandi.
Þannig er stór hætta á því að maður
endi á því að gera engum til geðs ef
maður reynir að gera öllum til geðs.
Þessi rannsókn vekur líka óneitan-
lega spurningar um tengsl almenn-
ings við leikhúsið og væntingar til
þess. Þannig má spyrja sig fyrir
hvern leikhúsið sé og til hvers verið
sé að setja upp leiksýningar.“
Í tengslum við sýninguna verður
haldið sérstakt málþing um rann-
sóknina sem verður nánar auglýst
síðar auk þess sem niðurstöður
rannsóknarinnar verða gefnar út á
bók. Allar nánari upplýsingar um
uppsetninguna og hópinn má nálg-
ast á vefnum 16lovers.com.
Hvað vilja Íslendingar að meðaltali sjá?
Tilraunastofa Sviðslistahópurinn 16 elskendur leitast í sýningum sínum við að prófa og teygja orðræðu líðandi
stundar og bjóða áhorfendum í tilraunastofu þar sem þeirra eigið samfélag, hugsjónir og gildi eru krufin.
16 elskendur frumsýna Sýningu árs-
ins í Rúgbrauðsgerðinni annað kvöld
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
Myndir úr Myrtuskógi er yfirskrift
tónleika sem Listvinafélag Hall-
grímskirkju stendur fyrir til heiðurs
Hafliða Hallgrímssyni í Hallgríms-
kirkju á morgun kl. 17.00. Þar mun
kammerkórinn Schola cantorum
undir stjórn Harðar Áskelssonar
flytja átta kórverk Hafliða, sem
spanna tuttugu og fimm ár af höf-
undaferli hans, en nýjasta verkið er
frá þessu ári.
„Fyrir mörgum árum fékk Hörð-
ur þá hugmynd að Schola cantorum
myndi taka upp á geisladisk það sem
ég hef samið fyrir kór. Ég hef í
gegnum tíðina gaukað að honum
einu og einu verki og þar kom að
verkin fylla heilan disk,“ segir Haf-
liði, en Schola cantorum vinnur í
tengslum við tónleikana að hljóð-
ritum á öllum viðfangsefnum tón-
leikanna og er stefnt að útgáfu síðar
á þessu ári.
Músíkin má ekki þvælast
fyrir textanum
Kórverkin sem hljóma munu á
tónleikunum eru fjölbreytt að gerð,
en að sögn Hafliða eru vissir þræðir
sem tengja verkin saman. „Mörg
þeirra eru samin til minningar um
samferðafólk mitt. Mér finnst fara
vel á því að minnast með verkum
mínum þeirra sem hafa skipt mig
miklu máli í lífinu. Það leiðir oft til
þess að tónlistin er íhugul en ekki
endilega grafalvarleg. Annað sem
gengur eins og rauður þráður í
gegnum verkin er valið á textum. Ég
vanda mjög valið á textum, enda er
textinn ástæðan fyrir því að verkið
verður til. Textinn er eins og beina-
byggingin og músíkin eins og hold-
ið,“ segir Hafliði og tekur fram að
tónlistin megi ekki þvælast fyrir
textanum. „Maður verður að heiðra
textann með því að skrifa músíkina
þannig að textinn heyrist.“
Spurður hvert hann hafi sótt sér
innblástur fyrir kórverkin segist
Hafliði ekki nota það orð. „Fyrir
mér er þetta spurning um að fá hug-
mynd sem manni líst sæmilega á og
síðan upphefst vinna og aftur vinna,“
segir Hafliði og tekur fram að kór-
inn setji honum vissan ramma.
„Vegna þess að tónsvið kórsins er
ekki eins vítt og ég er vanur þegar
ég skrifa hljómsveitarverk. Á móti
kemur að kórsöngur getur verið afar
fíngerður og næmur. Í hljómburði
eins og í Hallgrímskirkju getur fín-
gerður, lágvær hljómur komið ein-
staklega vel út. Litrófið er mikið
undir kórnum sjálfum komið, hvers
konar raddir eru í kórnum og hvern-
ig kórstjórinn vinnur, en Hörður er
afar laginn að draga fram það besta
sem þessi hópur hefur upp á að
bjóða,“ segir Hafliði og bætir við:
„Flutningur verka manns getur ver-
ið mjög misjafn, en þegar vel tekst
til finnst manni eins og starf manns
hafi ekki verið unnið til einskis. Og
það er sannarlega tilfinningin núna.“
Schola cantorum er á tónleikum
morgundagsins skipaður 16 söngv-
urum. Með kórnum koma fram
Björn Steinar Sólbergsson org-
elleikari, Elísabet Waage hörpuleik-
ari, Ásgeir H. Steingrímsson tromp-
etleikari og Frank Aarnink
slagverksleikari.
Lágvær hljómur
kórsins nýtur sín
Morgunblaðið/Golli
Minningar „Tónlistin er íhugul,“
segir Hafliði Hallgrímsson tónskáld.
Schola cantorum flytur átta kórverk
Hafliða Hallgrímssonar á morgun kl. 17
LA BOHÈME
GIACOMO PUCCINI
HULDA BJÖRK GARÐARSDÓTTIR · GISSUR PÁLL GISSURARSON / ÞÓRA EINARSDÓTTIR · GARÐAR THÓR CORTES
ÁGÚST ÓLAFSSON · HRÓLFUR SÆMUNDSSON · JÓHANN SMÁRI SÆVARSSON
HERDÍS ANNA JÓNASDÓTTIR · BERGÞÓR PÁLSSON
HLJÓMSVEITARSTJÓRI: DANÍEL BJARNASON · LEIKSTJÓRI: JAMIE HAYES
LEIKMYND: WILL BOWEN · BÚNINGAR: FILIPPÍA ELÍSDÓTTIR · LÝSING: BJÖRN BERGSTEINN GUÐMUNDSSON
FÖSTUDAGINN 16. MARS KL. 20 - FRUMSÝNING
LAUGARDAGINN 17. MARS KL. 20 - 2. SÝNING
LAUGARDAGINN 31. MARS KL. 20 - 3. SÝNING
SUNNUDAGINN 1. APRÍL KL. 20 - 4. SÝNING
LAUGARDAGINN 14. APRÍL KL. 20 - 5. SÝNING
FÖSTUDAGINN 20. APRÍL KL. 20 - LOKASÝNING
MIÐASALA Í HÖRPU OG Á WWW.HARPA.IS