SunnudagsMogginn - 09.09.2012, Side 17
9. september 2012 17
unarkerfið og sjávarútveginn. Þar
treystum við á vísindalega ráðgjöf Hafró
og höfum borið gæfu til að ganga vel
um fiskistofnana. Ég held að allir séu
sammála um að ekki væri gott ef stjórn-
málamenn færu að eiga mikið við það.“
Kapp er best með forsjá
„Svo er hitt, að óróinn hefur verið svo
mikill eftir fall bankanna og það hefur
litað stjórnmálin. Sett hafa verið fram
mál í bullandi ágreiningi í stað þess að
byrja á þeim sem við erum sammála um
að séu til bóta. Átakalínurnar eru á vit-
lausum stöðum. Stjórnarskráin er dæmi
um það og aðildarumsóknin að ESB. Það
hefði verið ráðlegra að koma hag heim-
ilanna í betra horf og taka síðan deilur
um grundvallaratriði þegar komin er
meiri kyrrð á þjóðfélagið. Það er
ómögulegt að vera í stríði á öllum víg-
stöðvum.“
– Hafa sjálfstæðismenn gert upp sín
mál eftir bankahrunið?
„Við sjálfstæðismenn höfum alltaf
haldið að við værum best til þess fallin
að stýra efnahagsmálum, að okkar
styrkur væri skynsamleg stefna í rík-
isfjármálum. Ef ég hefði talað við þig
fyrir nokkrum árum, þá hefði ég fullyrt
að sagan sýndi að engum flokki væri
betur treystandi í þeim efnum. Það var
því auðvitað gríðarlegt áfall fyrir okkur,
og það sýndi sig í síðustu alþingiskosn-
ingum, að lenda í þessum hrikalegu
hremmingum í okkar ríkisstjórnartíð.
Sjálfstæðisflokkurinn hafði verið í rík-
isstjórn í átján ár og það væri fráleitt ef
við horfðum ekki til þessara hluta og
hugsuðum hvað við hefðum átt að gera
öðruvísi.
Við treystum því að viðskipti færu
fram með eðlilegum hætti, treystum því
að með því að hleypa einkaframtakinu
inn í ríkisbankana myndi það skila já-
kvæðum áhrifum fyrir þjóðarbúið í
heild. Og ég held að það hafi verið rétt
hugsun. Ég er ósammála því að við ætt-
um að vera með ríkisbanka. Hitt er svo
annað mál, að við áttuðum okkur ekki á
því hvað var á seyði inni í bönkunum.
Við sáum ekki fyrir þau óveðursský sem
voru að hrannast upp erlendis og hvaða
áhrif þau gætu haft hér heima. Og auð-
vitað ber Sjálfstæðisflokkurinn ábyrgð
þar sem leiðandi flokkur í ríkisstjórn á
þeim tíma og hefur aldrei vikist undan
henni. Þegar við lítum til framtíðar,
hvað horfir til heilla fyrir þjóðina, þá er
eftir sem áður skynsamlegt að treysta
áfram markaðskerfið, að draga úr rík-
isafskiptum og skapa jarðveg fyrir frjáls
viðskipti. En við eigum að hafa gætur á
því hvað þar fer fram. Allt kapp er best
með forsjá.“
Pólitísk stefnumörkun
– Ólík sjónarmið togast á innan Sjálf-
stæðisflokksins. Hvernig finnst þér hafa
tekist að þétta raðirnar þar?
„Staða varaformanns breyttist á síð-
asta flokksstjórnarfundi þegar nýja
embættið kom til, þannig að nú er ég
með pólitíska stefnumörkun og annar
varaformaður með innra starfið.
En það var mikil ögrun fyrir mig þeg-
ar ég var kjörin varaformaður árið 2010
að vinna að því að þjappa flokknum
betur saman. Þorgerður Katrín Gunn-
arsdóttir hafði verið öflugur varafor-
maður fyrir flokkinn og þegar hún dró
sig til baka var þetta stærsta verkefnið
sem beið mín. Í öllum flokkum verða
átök og spenna milli hópa, en mér hefur
þótt ganga bærilega. Andstæðingar
flokksins töluðu um að kosningarnar
2009 væru svo mikið áfall fyrir Sjálf-
stæðisflokkinn að það myndi taka óra-
tíma að byggja hann upp aftur. En við
vitum fyrir hvað flokkurinn stendur og
smátt og smátt hefur honum vaxið ás-
megin.
Ég hef lagt mig fram um að brúa
sjónarmið höfuðborgar og landsbyggðar
í mínu starfi. Ég byrjaði sem þingmaður
í Norðausturkjördæmi og tel að það hafi
dýpkað mig mikið í stjórnmálum. Og þó
að ég sé þingmaður Reykvíkinga, þá er
ég auðvitað sem varaformaður fulltrúi
allra á landinu. Ég held það sé mjög
hollt fyrir þingmenn Reykvíkinga að
hitta fólk á landsbyggðinni og sömu-
leiðis mikilvægt að fólk úti á landi skilji
stöðu höfuðborgarinnar. Mér hefur þótt
skemmtilegast að tengja saman ólík
sjónarmið, líka hinna yngri og eldri. Það
þarf að gæta að eldra fólki í þeim öldu-
dal sem við göngum í gegnum. Það lenti
líka í efnahagsþrengingum, þó að yngri
kynslóðir hafi almennt orðið verr úti.
Svo erum við að fikra okkur áfram
með breytingar á skipulagsreglum
flokksins og það er spennandi. Nú felst
mitt starf í að vera með augun á mál-
efnastarfinu og þeirri stefnumörkun
sem þar fer fram. Það er gott fyrir okk-
ur þingmennina að vera í góðu sam-
bandi við málefnanefndir flokksins,
þannig að þegar við förum inn á lands-
fund og mörkum okkur stefnu þar, þá
sé þétt net þar á milli. Það er líka gagn-
legt fyrir sveitarstjórnarmenn að líta til
þessara þátta í starfinu. Það er nefnilega
merkilegt starf að vera trúnaðarmaður
fyrir flokk eins og Sjálfstæðisflokkinn og
mikil forréttindi að hafa fengið að taka
þátt í því.“
Ekki einkamál kvenna
– Þarf að styrkja stöðu kvenna innan
flokksins?
„Við leggjum mikla áherslu á að auka
traust kvenna á Sjálfstæðisflokknum og
rannsóknir á okkar vegum sýna að það
hefur aukist verulega á síðustu árum. Í
því sambandi skiptir miklu máli að
konur séu til jafns við karla á framboðs-
listum og auðvitað líka að í forystu
flokksins veljist konur. En það er jafn-
mikilvægt að karlarnir í Sjálfstæð-
isflokknum tali máli kvenna líka. Það er
ekki einkamál kvenna, heldur málefni
allra sjálfstæðismanna að tryggja að
sjónarmið allra einstaklinga njóti sín, að
í flokkinn veljist hæfar konur og hæfir
karlar.
Ég tel ekki að ég hafi notið braut-
argengis bara af því að ég er kona, held-
ur af því að fólk lítur svo á að ég eigi
erindi. Það er ákveðinn línudans að gera
sér grein fyrir því að það þurfi að efla
stöðu kvenna en jafnframt að við séum
að berjast á jafnréttisgrundvelli. Ég er
varaformaður flokksins og við vorum
með borgarstjórann í Reykjavík. Svo er-
um við með konur sem eru oddvitar í
sveitarstjórnum og bæjarstjórar víða um
land. Og einn oddviti okkar í þinginu er
kona, Ragnheiður Elín Árnadóttir. En
við erum enn í þeirri stöðu að meiri-
hluti þingflokksins eru karlar. Af sextán
þingmönnum eru fimm konur og við
viljum að sjálfsögðu ná betri árangri.
En það má ekki gleyma því að í Sjálf-
stæðisflokknum eru að meginstefnu
haldin prófkjör og það eru kjósendur
flokksins sem velja fólk á listana. Engu
að síður er mikilvægt að hafa góða
blöndu þar, það á við um karla og kon-
ur, en einnig að það sé margvíslegur
bakgrunnur og fulltrúar ólíkra kynslóða.
Ég held að við ættum að gera meira af
því að kalla eldri kynslóðir til liðs við
okkur. Þetta er svo bráðungt fólk ennþá
– við lifum svo lengi!“
– Hvað finnst þér um að skipt hafi
verið um þingflokksformann á dög-
unum, þar sem Ragnheiður Elín vék
fyrir Illuga Gunnarssyni?
„Eftir þessa breytingu hefur forystu í
þingflokknum verið skipt á milli konu
og karls ef litið er til kjörtímabilsins í
heild. Illugi verður þá í tæp tvö ár ef við
lítum á kjörtímabilið í heild og Ragn-
heiður Elín í rösk tvö ár. Það má því
segja að það hafi verið jafnt skipt með
kynjunum þar. Ég vil líta þannig á þetta
mál og mér finnst ekki óeðlilegt að
gerðar séu breytingar á nefndum og
forystu flokksins á kjörtímabilinu. Það
höfum við séð hjá öðrum flokkum líka.
Og það er á engan hátt hægt að líta svo
á að það sé verið að grafa undan stöðu
kvenna. Við erum svo heppin að hafa úr
góðum hópi að velja, margir eru kallaðir
en fáir útvaldir eins og alltaf er þegar
um svona störf er að ræða.“
Stjórnarskráin grundvallarmál þingsins
– Nú er þjóðaratkvæðagreiðsla á næsta
leiti. Hvað viltu í stjórnarskrármálum?
„Allt þetta kjörtímabil, og það hófst
reyndar fyrir kosningar, hefur Jóhanna
Sigurðardóttir barist fyrir því að hér
verði komið á nýrri stjórnarskrá. Þrátt
fyrir það hefur engin efnisleg umræða
verið af viti í þinginu um hvað það er
sem menn vilja breyta. Það hefur verið
tekist á um formsatriði, hvernig standa
eigi að breytingunum, hvort efna eigi til
stjórnlagaþings og hvort Alþingi eigi að
vísa frá sér verkefninu eða ekki.
Við sjálfstæðismenn erum einarðir á
því að það sé grundvallarverkefni Al-
þingis að hafa með höndum breytingar
á stjórnarskrá og höfum alla tíð talið
þetta svo mikið grundvallarmál að það
verði að vera sátt um slíkar breytingar
milli allra stjórnmálaflokka. Þannig hef-
ur það alltaf verið. Og ég vil að Alþingi
fari að taka þetta hlutverk sitt alvarlega
og ræða hvað það er sem fólk vill
breyta. Það er ekkert launungarmál að
Jóhanna Sigurðardóttir hefur beitt sér
mjög í þessu máli, en samt kemur aldrei
fram hverju hún vill breyta, aðeins að
hún vilji nýja stjórnarskrá, og mér
finnst það ekki viðunandi svar frá for-
sætisráðherra.
Mér finnst það líka miður þegar þing-
menn segja Alþingi ekki fært um að
breyta stjórnarskrá. Það er einfaldlega
ekki rétt. Ég minni á að stjórnarskránni
hefur verið breytt töluvert í áranna rás,
mannréttindakaflinn kom inn á tíunda
áratug síðustu aldar og gerðar hafa verið
fleiri breytingar, meðal annars á kosn-
ingaþáttum hennar. Það hefur verið
unnið í samstarfi allra stjórnmálaflokka.
Auðvitað hefur það tekið tíma en það er
líka allt í lagi að það taki tíma fyrir
flokka að ná samstöðu um slíkar breyt-
ingar. Það er einmitt hugsunin með
stjórnarskrá, að hún standist áhlaup
sem sprottið er af dægurmálum. Mér
þykir það mikill ljóður á störfum þings-
ins núna að menn skyldu ekki leggja sig
meira fram um að ná samstöðu. Ef við
lítum til nágrannaþjóðar okkar Finna,
þá tekur þá langan tíma að ná sam-
stöðu, en þegar hún er fengin verður
niðurstaðan auðvitað miklu betri. Ég
hvet til þess að Alþingi taki nú þetta
mál til sín, enda væru menn þá virki-
lega að líta til þeirra hugmynda sem
fram hafa komið.
Ég vil líka taka fram, að ég er íhalds-
söm hvað varðar breytingar á stjórn-
arskránni – það er eðlilegt að breytingar
þar gerist hægt – en mér finnst vel
koma til greina að breyta tilteknum
þáttum hennar. Við sjálfstæðismenn
höfum verið reiðubúnir að koma að
slíkri vinnu og höfum alltaf sagt það.“
Það átti að breyta öllu
– Þarf að breyta vinnubrögðum á Al-
þingi?
„Það átti nú að breyta öllu! Það var
eitt af því sem átti að gerast í síðustu
kosningum – að breyta öllu. Það vita
líka allir að það átti ekki að tala við
Sjálfstæðisflokkinn um tiltekna hluti af
því að hann væri á öndverðri skoðun.
Það finnst mér einfeldni, að ekki sé
hægt að tala við fólk af því að það er á
annarri skoðun. Það getur ekki verið af-
staða forsætisráðherra í landi. Ef við lít-
um til þess að reyndustu þingmenn
þjóðarinnar fara fyrir þessari ríkisstjórn,
það er leitun að annarri eins þing-
reynslu, þá er makalaust hversu illa
hefur gengið að leiða ólík sjónarmið til
lykta í þinginu. Að því leyti get ég sagt
að það sé kominn tími á kynslóðaskipti.
Ég bendi líka á að háværustu og sýni-
legustu átökin í þinginu hafi verið innan
ríkisstjórnarflokkanna og á milli þeirra.
Oft koma menn vígmóðir í pontu í
þinginu eftir innanhússátök hjá þeim
sjálfum, þannig að þar hefur forystunni
líka verið ábótavant.“
– Ætlarðu að flytja til útlanda?
„Það er nú þannig að við hjónin eig-
um fjögur börn, synir mínir eru í skóla
hér á Íslandi og dætur mínar í Svissi
eins og sú minni kallar það ágæta land.
Ég er því með annan fótinn þar, en á
góða að sem hjálpa mér að brúa þetta
bil. Ég ætla því að ljúka þessu verkefni
hér og svo flyt ég út. Ég nýt þess að eiga
góða að og nú í haust fór tengdamóðir
mín með stelpurnar út og verður hjá
þeim næstu mánuði. Eins og fram hefur
komið í fjölmiðlum er Tómas orðinn
forstjóri Alcoa í Evrópu og höfuðstöðv-
arnar eru í Genf. Alcoa er með um-
fangsmikla starfsemi í álframleiðslu í
Evrópulöndunum, en einnig á öðrum
sviðum. Þannig að þetta er viðamikið og
spennandi starf.“
Maður á aldrei að loka neinum dyrum
– En hvað ætlar þú að taka þér fyrir
hendur?
„Já, þetta er mjög góð spurning,“
segir hún og hlær. „Ég hef ekki hug-
mynd um það. Það hefur einhvern veg-
inn verið svo hjá mér í lífinu að hvert
verkefnið hefur rekið annað. Þetta er nú
ekki í fyrsta skipti sem breytingar verða
út af aðstæðum hjá eiginmanni mínum.
Það var líka út af honum sem ég flutti
til Egilsstaða og þar hófst minn pólitíski
ferill. Og ég held að það hafi verið eitt
af happasporum mínum í lífinu. Það
getur allt gerst. Ég vanda mig við að
klára verkið hér heima og svo er ég viss
um að lífið kemur manni alltaf á óvart.
Ég ætla að ganga mót vorinu í því. Síðan
ætla ég náttúrlega ekkert að hætta að
skipta mér af Sjálfstæðisflokknum. Það
er mér lífsins ómögulegt, hjarta mitt
slær þar áfram, þó að ég verði ekki í
framboði í næstu kosningum.“
– Seinna kannski?
„Maður á aldrei að loka neinum dyr-
um. En ég held að ég þurfi að byrja á
því að læra frönsku. Ég lærði ekki
frönsku í menntaskóla og hef alltaf séð
eftir því. Ég var á málabraut en valdi
ekki frönsku. Nú hefur lífið komið því
þannig fyrir að ég verð í frönskumæl-
andi landi en skil ekkert! Ég hugsa að
krakkarnir verði langt á undan mér, en
ég ætla samt að leggja mig mjög mikið
fram um að ná tökum á þessu máli og
jafnvel keppa við dætur mínar í því.“
’
Síðan ætla ég náttúrlega ekkert að hætta að skipta
mér af Sjálfstæðisflokknum. Það er mér lífsins
ómögulegt, hjarta mitt slær þar áfram, þó að ég
verði ekki í framboði í næstu kosningum.