Morgunblaðið - 24.11.2012, Síða 32
32 Jólablað Morgunblaðsins
B
est er að klára jólavín-
kaupin sem fyrst því mín
reynsla er sú að mörg af
bestu vínunum koma í
takmörkuðu upplagi og
því eiga þau það til að klárast þegar
líða fer á desember,“ segir Þorri.
„Ekki bíða með að fara í vínbúðina á
Þorláksmessukvöld, þá er eins víst að
ekkert sé til sem fólk hafði hugsað
sér að kaupa.
Fordrykkur til alls fyrstur
Ef það er ekki við hæfi að fá sér
fordrykk á jólunum þá er það senni-
lega aldrei við hæfi,“ segir Þorri og
kímir. „Kampavín er auðvitað hinn
fullkomni fordrykkur sem kitlar
tunguna og æsir upp í manni hungr-
ið, fyrir utan að vera alveg fram-
úrskarandi gott. Það eru mörg
kampavín til í vínbúðunum og flest
þeirra mjög góð. Bleik kampavín eru
sérlega hátíðleg að sjá en þessi
venjulegu hvítu eru líka alveg eins
góð. Verst hvað þau eru orðin dýr
núna á seinni árum en ekki er verra
að það fást nokkur framúrskarandi
freyðivín sem geta alveg komið í
staðinn fyrir kampavín.“ Aðspurður
um tegundir í þessum efnum nefnir
Þorri freyðivínið Ferrari Brut frá
Ítalíu sem hann segir vel vera hægt
að rugla saman við kampavín. „Eins
eru til freyðivín frá Búrgúndarhér-
aðinu í Frakklandi sem eru afar góð
kaup. Prosecco frá Ítalíu er svo aftur
á móti kannski ekki alveg í sama
þungavigtarflokki og kampavín en
þessi vín eru afar þokkafull og ljúf.
Ég hvet lesendur til að prófa þetta
nýja frá Pasqua, það er bæði mjög
ódýrt og framúrskarandi gott! Berið
kampa- eða freyðivínin fram í háum
og uppmjóum kristalsglösum til að
stemningin sé fullkomnuð!“ Þorri
minnir á að kampavín og þyngri
freyðivínin eru einnig mjög góð með
matnum, þvert ofan í það sem margir
telja.
Forréttir og vín í stíl
Forréttir á jólunum eru auðvitað
margskonar og ólíkir frá einni fjöl-
skyldu til annarrar. Þótt fiskneysla
sé alla jafna ekki mikil á jólunum eru
margir sem hafa humar og hörpuskel
í forrétt enda er það úrvalshráefni
sem hæfir árstíðinni. „Saltfiskur er
borðaður á Spáni og í Portúgal á jól-
unum en ég held að það séu fáir Ís-
lendingar sem hafa tekið upp þann
sið. Það er þó aldrei að vita,“ bætir
Þorri við. Sumir hafa fiskisúpur og
aðrir grilla eða baka humar og
steikja hörpuskel en það breytir ekki
öllu. Hægt er að finna framúrskar-
andi vín sem hæfa þessu öllu, að sögn
Þorra. „Hvítvín úr þrúgunni Char-
donnay eru eins og sköpuð fyrir
bragðmikla fiskrétti og feita fiska
eins og humar og hörpuskel. Og nóg
er úrvalið af þeim. Sjálfur myndi ég frekar halda mig við hvítvín frá Evr-
ópu frekar en annars staðar úr heim-
inum en þetta er auðvitað smekks-
atriði,“ bætir hann við. „Vín frá
Evrópu eru fínlegri, sýruríkari og
alla jafna persónulegri. Þau eru líka
oftar betri með matnum en þessi sem
koma frá heitari svæðum. Frakkland
er heimavöllur Chardonnay-
þrúgunnar og vín frá Búrgúnd eða
Chablis eru framúrskarandi með
flestum uppáhaldsfiskréttunum sem
menn galdra fram á jólunum. Eitt af
mínum uppáhaldshvítvínum þessa
dagana er reyndar Chardonnay frá
Ítalíu, Isole e Olena sem getur skák-
að mörgum búrgúndarhvítvínum.“
Þorri minnir ennfremur á að hvítvín-
in frá Soave séu líka framúrskarandi,
sérstaklega með hörpuskelinni. Vilji
menn frekar ávaxtaríkari Char-
donnay-vín bendir hann á vín frá
Nýja-Sjálandi.
„Ég sjálfur er afar hrifinn af
franskri anda- eða gæsalifur, foie
gras, og finnst varla komin jól ef ég
fæ hana ekki í forrétt. Með henni
verður auðvitað að vera sætt hvítvín
og þau bestu koma frá Sauternes í
Frakklandi. Einnig eru til nokkur
sætvín frá öðrum heimshlutum og
sum þeirra geta vissulega verið frá-
bær fylginautur þessa réttar sem
hægt og rólega er að smeygja sér á
íslenska jólaborðið. Þeir sem hafa
einu sinni smakkað fyrsta flokks
gæsalifur og sætvín eru ekki samir
eftir á.“
Í framhaldinu segir Þorri að pâté
eða kæfur ýmiskonar sjáist líka á
jólaborðinu sem forréttir og með
þeim sé fínt að hafa hvítvín úr þrúg-
unni pinot gris. „Þau bestu koma frá
Alsace í Frakklandi en einnig er gott
að hafa frekar einföld og ávaxtarík
rauðvín með heimatilbúnum kæfum.
Mér dettur í hug Crianza frá Rioja á
Spáni, Valpolicella frá Ítalíu eða
Beaujolais frá Frakklandi. Þurrt
sérrí er líka frábært með kæfum, alls
konar hráskinkum og sérlöguðum
þurrkuðum pylsum.“
Hvað passar með aðalréttinum?
Eins og margoft hefur borið á
góma er vinsælasti jólamatur Íslend-
inga, hamborgarhryggurinn, alveg
hreint sérlega ó-vínvænn, eins og
Þorri nefnir. „Það er ekki bara að
sjálfur hryggurinn sé saltur og
reyktur heldur er hann einnig gljáð-
ur með sykri og meðlætið með hon-
um gerir út af við flest vín. Rauðkál
með ediki og brúnaðar kartöflur geta
seint talist heppilegir fylginautar
léttvína. Þess vegna þreytist ég seint
á því að segja að malt og appelsín er
sennilega það eina sem gengur með
honum, hvað svo sem aðrir vínsnobb-
arar segja.“ Vilji menn hins vegar fá
eitthvað áfengt með hamborgar-
hryggnum bendir Þorri á öl sem góð-
an kost. „Fyrir þessi jól er til dæmis
Giljagaur frá brugghúsinu Borg
flottur með hamborgarhryggnum, nú
eða að prófa að blanda smá appelsíni
út í jóla-maltbjórinn. Aðrar bragð-
miklar bjórtegundir, til dæmis frá
Mikkel, eru mun heppilegri en vín
með þessum erfiða mat. Sé hins veg-
ar á mig gengið vil ég meina að hvít-
vínið Pinot Gris frá Alsace sé einna
best með hamborgarhryggnum,
miklu heldur en rauðvín.“
Að sögn Þorra má segja það sama
um hangikjötið – sjálfum dettur hon-
um ekki í hug að drekka vín með því!
„Malt og appelsín eða jólaöl og app-
elsín er það eina sem ég hef verið
reglulega ánægður með í gegnum tíð-
ina.“
Kalkúnn sést nú oftar á íslenskum
jólaborðum enda er fuglinn stór og
því sjaldan að fjölskyldur leggi í að
elda hann í heilu lagi nema mikið
standi til. „Kosturinn við kalkún er
ekki bara að hann er mun léttari í
maga en hamborgarhryggurinn held-
ur er hann líka alveg sérlega vín-
vænn og í raun erfitt að finna vín sem
ekki passar með honum,“ segir Þorri.
„Það er því fínasta afsökun fyrir því
að prófa einhver ný og spennandi vín
hafi maður á annað borð ákveðið að
hafa kalkún á jólaborðinu í ár. Sjálf-
um finnst mér að bestu vínin með
honum séu ekkert endilega þessi
stóru og þungu heldur er um að gera
að prófa þessi ávaxtaríku og léttu
með svona ljósu kjöti, þótt meðlætið
geti verið allavega. Hvítvín er fullt
eins gott með kalkúninum og rauð-
vín. Eikuð og bragðmikil Char-
donnay-vín frá heitari löndum eins og
Síle og Suður-Afríku smellpassa oft-
ast nær með honum og þá ekki síður
önnur eikarþroskuð hvítvín frá öðr-
um löndum. Enn vil ég benda á hvít-
vínin frá Alsace úr þrúgunum Pinot
Gris, Riesling eða Gewurztraminer
sem öll eru frábær með ljósu kjöti og
það fer helst eftir meðlætinu hvað af
þeim ég tæki framyfir annað.“ Einn
er svo líka gullmolinn í hvítvínsflór-
unni sem alltof fáir hafa reynt að því
er Þorri segir, en það er Grüner
Veltliner frá Austurríki. „Frábært
vín með matnum, og líka fiskinum.
Rauðvín í léttari kantinum finnst
mér betri með kalkún, á borð við Chi-
anti Classico frá Toskana eða þá Cri-
anza-rauðvín frá Spáni, til dæmis úr
héruðunum Rioja og Ribera del
Duero. Pinot Noir frá nýja Síle er af-
ar ávaxtaríkur og oftast frábær með
öllu ljósu kjöti og ef menn eru í stuði
fyrir rauð Búrgúndarvín þá eru þau
líka framúrskarandi þótt þau séu oft-
ast ekki eins áberandi ávaxtarík og
þessi frá Nýja heiminum.“
Þótt rjúpum fari fækkandi hér á
landi eru samt einhverjar þúsundir
fjölskyldna á hverjum jólum sem
snæða rjúpur eða aðra villbráð á að-
fangadagskvöld. „Á mínu heimili var
og er venja að hafa villigæs og svo er
innflutta villibráðin, eins og krón-
hjörtur og dúfur, farin að sjást á
borðum þeirra sem tilbúnir eru til að
víkja frá aldagömlum fjölskyldu-
hefðum. Með villibráð og dökku kjöti
er auðvitað ekki annað hægt en að
hafa bragðmikil og glæsileg rauðvín.
Þarna á ég auðvitað við kanónur á
borð við Bordeaux, Rhône, Brunello
di Montalcino, Ribera del Duero eða
Piemont. Stóru, eikarþroskuðu rauð-
vínin frá Argentínu, Suður-Afríku og
Ástralíu úr þrúgum eins og Cabernet
Sauvignon og Syrah (eða Shiraz) eru
vissulega vel þess virði að hafa á há-
tíðarborðinu þótt mér sjálfum finnist
að þessi evrópsku séu glæsilegri og
matarvænni. Enn og aftur vil ég
benda fólki á að prófa ný vín á jól-
unum sem það hefur ekki reynt áður
og um leið og menn eru tilbúnir að
borga 3.000 krónur eða meira fyrir
vínflösku er næsta öruggt að vínið er
hæft á jólaborðið.“
Að endingu minnir Þorri á mikil-
vægt atriði sem alltaf ber að hafa í
huga, hvert sem vínið er. „Góð vín-
glös eru einn helsti þáttur í því að
njóta góðra vína og í góðu vínglasi
getur meðalgott vín orðið enn betra.
Að sama skapi verður framúrskar-
andi vín í slæmu vínglasi oftast nær
heldur rislágur drykkur. Ef menn
eiga ekki góð vínglös, eins og t.d. frá
Riedel, þá er hér komin uppástunga
að frábærri jólagjöf.“
jonagnar@mbl.is
Jólavín með jólamat
Jólin nálgast eins og óð
fluga og þeim sem
kjósa að bragða á góðu
víni með jólamatnum
er vandi á höndum, því
úrvalið er gott og úr
vöndu að ráða. Þorri
Hringsson, listmálari
og vínþekkjari með
meiru, tók snúning á
því sem hafa ber í huga
við valið.
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hátíðarmaturinn Kræsingarnar sem tilheyra jólahátíðinni eru alla vega, og eftir því misjafnt hvort kampavín,
hvítvín, rauðvín eða bragðmikill bjór fer best með því sem á borðum er. Það eru vísindi kringum veigarnar.
Kúnst Það er að mörgu að huga þegar vín eru valin með jólamatnum,
eins og Þorri Hringsson útskýrir, og stundum er jólablandið best.
’Um leið og menn eru
tilbúnir að borga 3.000
krónur eða meira fyrir
vínflösku er næsta
öruggt að vínið er hæft
á jólaborðið.
Osta- og ljúfmetisverslun
Nóatúni 1 7 • Sími 551 8400 www.burid.is