Morgunblaðið - Sunnudagur - 12.05.2013, Blaðsíða 50
50 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 12.5. 2013
Þ
ýska sópransöngkonan Diana
Damrau er ein skærasta stjarna
óperuheimsins. Margir gagnrýn-
endur og tónlistarunnendur segja
hina rúmlega fertugu söngkonu
eina þá allra bestu og mest hrífandi sem
áheyrendur geti heyrt um þessar mundir,
enda hafa sigrar hennar verið glæsir á und-
anförnum árum. Stefán Ragnar Höskuldsson,
flautuleikari hljómsveitar Metropolitan-
óperunnar, leikur undir hjá öllum helstu
stjörnum óperusviðsins og er ekki í vafa:
„Hún er sú besta,“ segir hann.
Damrau er ástríðufullur listamaður og fer
ekki auðveldustu leiðirnar í listinni. Hún var
hyllt af tónlistarrýni The New York Times á
dögunum, þegar hún kaus að syngja hlutverk
Viólettu í La Traviata í fyrsta skipti þar op-
inberlega, í stað þess að prófa rulluna fyrst í
minna húsi. „Dirfskusigur,“ skrifaði hann yfir
sig hrifinn.
Þótt Damrau sé kunnust fyrir óperusöng-
inn hefur hún einnig lagt mikla áherslu á
ljóðasöng. 2. júní næstkomandi gefst tónlist-
arunnendum færi á að heyra hana í Eldborg-
arsal Hörpu, ásamt einum kunnasta hörpu-
leikara samtímans, Frakkanum Xavier de
Maistre. Þau flytja áhugaverða ljóðadagskrá
þýskra og franskra sönglaga.
„Á fyrri hluta tónleikanna ætlum við að
flytja víðfræga söngva eftir Schubert, eins og
„Ave Maria“, „Ständchen“ og „Gretchen am
Spinnrade“, og til dæmis „Ständchen“ eftir
Strauss. Gestir munu heyra að þessi lög
hljóma frábærlega vel með hörpunni,“ segir
Damrau glaðlega þegar rætt er við hana í
síma þar sem hún er stödd í Zürich í Sviss.
Þar er hún nú í fyrsta skipti að syngja í La
Traviata í Evrópu, við ekki síðri undirtektir
en vestanhafs. En við byrjum á að ræða um
tónleikana hér og hún segir þau Xavier de
Maistre hafa þekkst í rúman áratug.
„Við hittumst yfir kvöldverði með vinum
og talið barst að sameiginlegri ást okkar á
ljóðasöng og ekki síst frönskum laglínum.
Xavier er franskur en bjó í Vínarborg á þess-
um tíma með fjölskyldu sinni og þar heyrðist
þessi franska tónlist furðu lítið. Hann hélt
áfram að spyrja mig: þekkirðu þetta lag –
eða þetta? Hann sagðist getað leikið öll þessi
lög á hörpuna og það var upphafið að okkar
samstarfi. Við fórum inn í æfingaherbergið
þar sem harpan stóð, æfðum saman og höfð-
um að því loknu lagt drög að þremur efnis-
skrám,“ segir Damrau og hlær að minning-
unni – þetta var gjöful æfing.
„Það heillaði mig hvað túlkunarmöguleikar
hörpunnar voru ríkulegir,“ segir hún. „Þetta
er í senn glæsilegt einleikshljóðfæri og hljóð-
færi til að leika á með söng. Í samanburði við
píanó eru dýnamískir möguleikar hörpu enn
víðfeðmari. Sérstaklega á veika sviðinu, þó
harpan geti einnig verið afar kraftmikil. Við
höfum reynt mörg lög og ég held að um 85
prósent þeirra ljóða sem venjulega eru flutt
með píanói, sé hægt að flytja með hörpu.“
Harpan er stórkostlegt hljóðfæri
Damrau kemur aftur að efnisskránni á tón-
leikunum hér og segir að fyrir utan að de
Maistre leiki tvö einleiksverk, þá sé seinni
hluti efnisskrárinnar byggður á frönskum
lögum eftir Duparc, Hahn og Chausson, og
eftir Dell’Acqua flytja þau verk um fuglasöng
fyrir kóloratúrsópran og hörpu sem hún seg-
ir mjög fallegt. Rýnir sem skrifaði um tón-
leika þeirra í Kennedy Center í Washington
á dögunum tekur undir það, og segir Damrau
hafa á meistaralegan hátt málað „í orðum
hratt flug svalanna, þar sem hún skaut ein-
um háum tóni eftir öðrum, eins og hún væri
að hleypa litlu fuglunum sem hún söng um
upp í morgunhimininn“.
Damrau og de Maitre hafa á undanförnum
árum haldið tónleika í virtum sölum víða um
lönd, til að mynda á Scala og á óperuhátíð-
inni í München, og síðar í mánuðinum koma
þau fram í París og Genf.
„Leikur Xavier á hörpuna er langt frá
klisjunni um að á hörpu leiki bara gull-
inhærðar ævintýragyðjur einhverja draum-
kennda tóna,“ segir Damrau og hlær. „Nei,
harpan er stórkostlegt hljóðfæri,“ bætir hún
síðan við af þunga. „Og einstakt þegar Xav-
ier leikur á hana, af sínu afli og næmleika.
Við látum okkur dreyma um að kynna hljóð-
færið betur fyrir fjöldanum.
Xavier er sá besti, það er svo einfalt. Ein-
stakur einleikari sem býr yfir óviðjafnanlegri
tækni. Hann elskar ljóðlist og skilur túlk-
unina í söngnum, og kann svo vel að mynda
liti í meðleiknum. Þegar við vinnum saman er
eins og við viljum flytja línur hvor annars. Á
tónleikum njótum við þess að hlusta hvort
eftir öðru og skapa dásamleg tónlistarleg
augnablik, ekki bara með hugsuninni heldur
frekar með hjartanu.
Mér finnst að við verðum sem eitt þegar
við leikum tónlist saman,“ segir Damrau af
ástríðuþunga. „Það er alltaf dásamlegt að
endurskapa það sem tónskáldið hefur skrifað
og skapa andrúmsloft sem hrífur áheyrendur.
Við viljum fara með þá í ferðalag hátt upp og
djúpt niður, í ferðalag sem er dramatískt,
ástúðlegt, milt …“
Ljóðasöngur persónulegri
Diana Damrau talar af mikilli ástríðu um
flutning þeirra de Maistre og sönglögin. Það
hlýtur að vera býsna ólíkt að vera annars
vegar tvö saman á sviði stórra tónleikahalla
að túlka ljóð og taka síðan þátt í viðamiklum
óperuuppfærslum með stórum hljómsveitum
og fjölda söngvara. Hún segir þetta ólík form
en hún nálgist hvort tveggja af sama metn-
aði. „Sönglög eru mun innilegri og maður er
á vissan hátt í beinna sambandi við áheyr-
endur; sem listamaður tekur maður þá með
sér í ferðalag. Á óperusviðinu fer ég í karakt-
er og leik en flutningur á ljóðasöng er vissu-
lega persónulegri.“
Er annað meira krefjandi en hitt?
Hún hugsar sig um. Segir síðan að á ljóða-
tónleikum þurfi hún að minnsta kosti að
syngja mun meira en í mörgum óperu-
hlutverkum. „Í óperunni fer maður stundum
af sviðinu í tíu mínútur og getur hvílt rödd-
ina, maður skiptir kannski um búning og
breytir förðuninni áður en aftur er hlaupið á
svið. En við ljóðaflutning er ég á sviðinu frá
fyrsta tóni og þarf að vera með fullkomna
einbeitingu alla tónleikana; þarf að túlka ólík-
ar tilfinningar og beita ýmsum aðferðum við
að segja þessar litlu sögur ljóðanna. Ég kalla
þær stundum óperu-míniatúra. Á óperu-
sviðinu er maður bara einn karakter en við
ljóðaflutning þarf að bregða sér í marga á
sömu tónleikunum, auk þess að stökkva á
milli stíla, jafnvel milli alda, fyrir utan að
maður syngur á nokkrum tungumálum. Þetta
er áhugavert, skemmtilegt en krefjandi. Þá
er engin leið að fela sig á bak við stóra
hljómsveit eða með leik, því þarna erum við
bara tvö, við meðleikarinn. Eins og maður að
tala við mann.“
Vil gera mitt besta
Ætla má að Damrau sé æði upptekin við að
sinna glæsum óperuferlinum en engu að síð-
ur gefur hún sér tíma til að koma reglulega
fram á ljóðatónleikum, og hljóðritar ljóðasöng
ekki síður en óperur. Er það mikilvægt fyrir
hana á þessum tímapunkti á ferlinum að vera
sífellt að koma fram, víða um lönd?
Hún hlær og segir óperuflutninginn og
stússið kringum óperuna auðveldlega geta
fyllt dagatalið hjá sér. „Þegar maður stígur
inn í uppfærslu sem er verið að taka upp að
nýju þá er maður að minnsta kosti í þrjár
vikur á þeim stað, upp í mánuð, tíminn fer
eftir fjölda sýninga. En þegar ráðist er í nýja
uppfærslu getur það tekið tvo mánuði ef æf-
ingatíminn er langur. Ég gæti sagt nei við
boðum um tónleika en það er mjög mikilvægt
fyrir mig að koma fram á tónleikum og flytja
ljóðasöngva. Ég finn mér því tíma fyrir það á
milli óperuuppfærslna og stundum inn á milli
sýninga. Nú er ég á hátindi ferils míns og ég
verð að koma fram því fólk vill heyra mig
syngja – og ég fagna því,“ segir hún glað-
lega. „Ég kem því fram með ánægju.“
Damrau er fjölskyldumanneskja, er gift og
á börn, og þetta hlýtur að vera krefjandi líf
fyrir fjölskylduna. Hún er sífellt á faraldsfæti
og fjölskyldan ferðast saman.
„Já, þetta er krefjandi en maðurinn minn
er líka söngvari og þekkir vel líf starfandi
listamanna. Maður verður bara að gæta þess
að hvílast eins vel og mögulegt er og vera ró-
legur þó það sé margt og mikið að gerast í
kringum mann.
Þetta eru mikil ferðalög, allskyns undir-
búningur, ferðatöskur sem þarf að pakka nið-
ur í og taka upp úr …“ hún dæsir við til-
hugsunina. Bætir svo við að þetta sé samt
alveg hægt og að þau séu orðin vön þessu.
Eins og Damrau segir réttilega, þá er hún á
DIANA DAMRAU FLYTUR LJÓÐASÖNGVA VIÐ HÖRPULEIK Í HÖRPU
Dramatískt ferðalag
söngstjörnunnar
„NÚ ER ÉG Á HÁTINDI FERILS MÍNS OG ÉG VERÐ AÐ KOMA FRAM ÞVÍ FÓLK VILL HEYRA MIG SYNGJA –
OG ÉG FAGNA ÞVÍ,“ SEGIR SÓPRANSÖNGKONAN DIANA DAMRAU. HÚN ER EIN SKÆRASTA
STJARNA ÓPERUHEIMSINS OG HELDUR HÉR LJÓÐATÓNLEIKA Á LISTAHÁTÍÐ
ÁSAMT HÖRPULEIKARANUM XAVIER DE MAISTRE.
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is
„Damrau er óttalaus,“ sagði í grein í
The New York Times árið 2007, þegar
unga þýska söngkonan tókst á nokkurra
vikna millibili á við tvö stjörnuhlutverk í
sömu uppfærslu á Töfraflautu Mozarts á
sviði Metropolitan-óperunnar; fyrst
Næturdrottninguna og síðan Paminu.
En henni var ekki bara hrósað fyrir
kjarkinn því fyrst og fremst var það
raddfegurðin, túlkunin og útgeislunin
sem hreif rýninn. Hún er iðulega sögð
fremsti kóloratúrsópran samtímans.
Allt frá unga aldri hefur Damrau hrif-
ið áheyrendur og gesti á tónleikum og
óperusýningum. Hún hefur mikla út-
geislun á sviði, og hefur hvað það varð-
ar verið líkt við Placido Domingo, sem
hún hefur sungið með mörgum sinnum
á síðustu árum, á galatónleikum og í óp-
erum.
Ferill Damrau tókst á flug þegar hún
starfaði við óperuhúsin í Mannheim og
Frankfurt. Frá árinu 2002 hefur hún
verið í lausamennsku og heillað áheyr-
endur af stærstu sviðum.
Damrau er
nú á hátindi
söngferilsins.
Óttalaus stjarna