Morgunblaðið - Sunnudagur - 08.09.2013, Page 28
*Matur og drykkir Gómsæt en ekki dísæt pippkaka var í eftirrétt í líflegu matarboði í Vestmannaeyjum »32
Forréttur fyrir fjóra
ÞORSKUR
(hnakkastykki)
300 g þorskur
6 msk. salt
4 msk. sykur
1 sítróna
1 appelsína
sítrónuolía
Skerið þorskinn niður í 60 g
bita. Blandið salti og sykri sam-
an, rífið í rifjárni eða skrælið
börk af sítrónu og appelsínu og
blandið saman. Látið fiskinn
liggja í þessu í 4 klst. Skolið síð-
an blönduna af.
Hellið þessu næst sítrónu-
olíu yfir fiskinn. Bakið að svo
búnu í ofni á 180 gráðum í 10
mín.
BEIKONKREM
1 pakkning beikon (Ali)
1 stór kartafla
600 ml rjómi
Skerið beikonið niður og
steikið á pönnu. Skerið næst
kartöfluna í teninga og setjið út
á. Hellið síðan rjómanum yfir
og látið sjóða í 4-5 mín. Setjið
svo allt í blandara og látið
vinna, þar til að kremið verður
alveg maukað. Gott er að taka
það síðan í gegnum sigti.
STÖKKT BEIKON
1 pakkning beikon (Ali)
Steikið á pönnu í 5 mín., látið
það svo inn í ofn á 150 gráður
þar til að það er orðið stökkt.
SÝRÐAR AGÚRKUR
1 agúrka
1 dl vatn
1 dl edik
1 dl sykur
Skerið agúrkuna í litla bita og
setjið í skál. Setjið því næst
vatn, edik og sykur í pott og
hitið upp á blöndunni þar til
sykurinn hefur bráðnað. Hellið
loks vökvanum yfir gúrkurnar
og látið kólna í ísskáp.
Raðið fiskinum á disk, með
bæði beikonkremi og beikoni.
Skreytið með sýrðum agúrkum
og ferskri sólselju (dilli).
É
g byrjaði snemma, þetta í kringum fermingu
eða 14 ára. Ég byrjaði að vinna í eldhúsinu á
sjúkrahúsinu á Húsavík, hjá afa mínum,“ seg-
ir Gústav spurður að því hvernig leið hans lá
inn á brautir matreiðslunnar í upphafi. Afi hans og
nafni, Gústav Axel Guðmundsson, var um langt skeið
kokkur á fyrrnefndu sjúkrahúsi og réð strák til
starfa. Þar með virðist fræinu hafa verið sáð, eitt
leiddi af öðru og árið 2008 útskrifaðist Gústav yngri
sem matreiðslumaður. Í dag heldur hann um stjórn-
artaumana á veitingastaðnum Sjávargrillinu á Skóla-
vörðustíg.
Þrátt fyrir að hafa einkum verið viðloðandi sjávar-
réttastaði í gegnum tíðina, en Gústav lærði m.a. á
veitingastaðnum Sjávarkjallaranum sem var og hét,
hefur hann ekki síður gaman af því að vinna með
kjöt. „Það er til dæmis bara gaman að tvinna saman
kjöt og fisk í matseldinni,“ bætir hann við og segir lít-
ið mál.
Gústav gefur Sunnudagsblaðinu hér uppskrift að
ljúffengum forrétti. Ekki er að undra að beikon komi
þar við sögu en Gústav og Sjávargrillið eru á meðal
þeirra staða sem þátt taka í Reykjavík Beikon Festi-
val-götuhátíðinni, sem haldin er í þriðja skipti á
Skólavörðustígnum um helgina, þ.e. á laugardeginum.
Í fyrra lögðu ríflega tíu þúsund manns leið sína á við-
burðinn, þar sem ýmsir veitingastaðir, á og við götuna,
buðu upp á beikon í ýmsum útfærslum. Hefur hátíðinni
heldur betur vaxið fiskur um hrygg frá því að vinahóp-
ur, kenndur við Beikonbræður, blés fyrst til hennar í
miklu smærri mynd til gamans fyrir bandaríska beik-
onáhugamenn í heimsókn á Íslandi árið 2011.
„Þetta er létt og skemmtileg hátíð og frábær viðbót
við til dæmis Kjötsúpudaginn, sem við höfum haldið
hátíðlegan á Skólavörðustígnum undanfarin ár,“ segir
Gústav. „Beikonið er líka mjög skemmtilegt hráefni, sí-
vinsælt og gaman að vinna með. Það er hægt að út-
færa það á ýmsan hátt annan en bara steikja það á
pönnu með eggi,“ bætti hann við.
Í ár ætluðu menn á Sjávargrillinu að bjóða upp á
skemmtilega útfærslu á þorski og beikoni á sínum bás
en í fyrra buðu þeir upp á rétt úr döðlum, beikoni og
svínasíðu. Átti Gústav ekki von á öðru en stemningin
yrði ekki síðri nú en áður enda fjölbreyttir réttir á
smakkseðlinum sem fyrr, m.a. beikon í plokkfiski, á
pítsum o.s.frv. Nýbreytni í ár væri að gestir keyptu sér
matarmiða sem framvísa þyrfti til að fá rétti afhenta
en allur ágóði af sölu þeirra rennur til stuðnings
hjartadeild Landspítalans. „Maður telur sig bara hepp-
inn að fá að reka fyrirtæki við svona flotta götu og láta
gott af sér leiða í leiðinni,“ bætti kokkurinn frá Húsa-
vík við að endingu, léttur í bragði.
Morgunblaðið/Kristinn
Gústav Axel og Sjávargrillið bjóða upp á beikon og þorsk í bænum á laugardag.
Morgunblaðið/Kristinn
BYRJAÐI Í ELDHÚSINU HJÁ AFA
Tvinnar saman beikon og fisk
GÚSTAV AXEL GUNNLAUGSSON, KOKKUR OG MATGÆÐINGUR, HEFUR AFAR GAMAN AF
ÞVÍ AÐ TVINNA SAMAN KJÖT OG FISK. HANN VAR EKKI HÁR Í LOFTINU ÞEGAR LEIÐ
HANS LÁ FYRST Í ATVINNUELDHÚS TIL STARFA.
Gunnhildur Ásta Guðmundsdóttir gunnhildur@mbl.is
Léttsaltaður þorskur
í beikonveislu