Morgunblaðið - 27.11.2014, Blaðsíða 60
60
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. NÓVEMBER 2014
BÆKUR
Tófa
Tófa, Vulpes lagopus, er eina land-
spendýrið sem örugglega var fyrir á
landinu þegar menn námu hér land
og má telja líklegt að hún hafi sest
hér að strax í lok ísaldar. Elstu leifar
tófu sem fundist hafa eru þó einungis
um 3.500 ára gamlar. Tófan gengur
undir ýmsum nöfnum hér á landi, svo
sem refur, melrakki, skolli og lágfóta.
Tófan er dæmigert heimskautadýr
og algeng allt í kringum norðurpól-
inn. Tvö meginstaðbrigði eru þekkt,
dýr sem sækja fæðu sína fyrst og
fremst í fjörur og dýr sem lifa að-
allega á læmingjum og öðrum hrygg-
dýrum fjær sjó. Rannsóknir á erfða-
efni tófunnar, einkum stofna sem lifa
á læmingjum, sýna lítinn mun milli
dýra frá mismunandi svæðum. Skýr-
ingin er væntanlega sú að refir eru
mikil flökkudýr sem geta ferðast um
800 km á hafís og allt að 2.000 km á
landi.
Fullyrða má að íslenski melrakk-
inn hafi verið að mestu einangraður
um þúsundir ára, þótt líklegt sé að
flökkudýr hafi borist hingað annað
veifið með hafís og blandast stofn-
inum. Í ofangreindri rannsókn á
erfðaefni hvatbera í refastofnum á
norðurhjara skar sá íslenski sig á af-
gerandi hátt frá hinum. Víðast á
norðurhjara er viðkoma tófunnar
nátengd stærð læmingjastofna
sem sveiflast nokkuð reglulega með
hámarki á þriggja til fimm ára fresti.
Á Íslandi eru engir læmingjar.
Hagamýs eru einu nagdýrin sem
tófan getur nýtt sér í einhverjum
mæli. Hagamýs eru þó ekki stór hluti
af fæðu tófunnar nema helst á haust-
in þegar músastofninn er í hámarki.
Yfir vetrarmánuðina hefur hlutdeild
hagamúsa í fæðu refa mælst hæst í
Árnessýslu, um 18%.
Hér á landi er fæða refa fjölbreytt-
ari en víða annars staðar og afar
breytileg eftir svæðum. Fuglar eru
meginfæða á öllum árstímum;
svartfuglar og æðarfugl við
ströndina og rjúpa inn til landsins á
vetrum, en á sumrin einnig fýll,
Fulmarus glacialis, mófuglar og gæs-
ir. Tófan nýtir sér einnig hræ af
búfé og hreindýrum, étur þang-
flugu, Coelopa frigida, og aðra
hryggleysingja úr fjörunni og ber og
jurtir af ýmsu tagi. Dýrbítar eru tóf-
ur sem komast upp á lag með að
drepa sauðfé, einkum lömb, sér til
matar. Tvö meginlitaafbrigði finnast
af tófu, hvítt og mórautt. Hvíta af-
brigðið er nánast alhvítt á vetrum en
grábrúnt á baki og hliðum og ljós-
grátt á kvið á sumrin. Mórauða af-
brigðið er dökkbrúnt allt árið. Hvíta
afbrigðið er í yfirgnæfandi meiri-
hluta á freðmýrum meginlandanna
en mórauða afbrigðið er algengara á
strandsvæðum. Hér á landi er mó-
rauða afbrigðið algengara þegar á
heildina er litið og í miklum meiri-
hluta á vestanverðu landinu. Hvíta
afbrigðið verður hlutfallslega algeng-
ara eftir því sem lengra dregur inn á
miðhálendið og austur á bóginn.
Viðkoma íslensku tófunnar er mun
minni og jafnari en gerist víðast hvar
á norðurhjara.
Meðalgotstærð samkvæmt taln-
ingu á legörum, þ.e. örum sem mynd-
ast þar sem fylgjan er áföst við leg-
vegginn, er 5,4 hér á landi.
Meðalfjöldi yrðlinga á grenjum sem
unnin hafa verið á undanförnum 40
árum er þó aðeins um fjórir yrðling-
ar. Víðast á freðmýrum norðurhjara
er viðkoma tófunnar afar sveiflu-
kennd; allt að 8–10 yrðlingar þegar
læmingjastofnar eru í hámarki á
þriggja til fimm ára fresti en mun
minni eða engin þegar læm-
ingjastofnar eru í lægð.
Tölulegar upplýsingar frá fyrri
tímum, sem byggja á útflutningi
refaskinna, benda til þess að fjöldi
refa í landinu hafi verið afar breyti-
legur frá einum tíma til annars þótt
ekki sé unnt að greina reglu í sveifl-
unum.
Einungis voru flutt út skinn af
vetrarveiddum dýrum. Samkvæmt
veiðitölum frá 1958 til 2009, sem ná
bæði yfir dýr sem veidd voru að
sumri og vetri, fækkaði veiddum
refum samfellt fram yfir miðjan
áttunda áratug síðustu aldar þegar
lágmarki í veiði var náð og refaveiði
fór að glæðast aftur. Síðan hefur veið-
in aukist jafnt og þétt og hefur verið
rétt innan við sjö þúsund dýr á ári frá
aldamótum.
Tölur yfir heildarveiði og aldur
veiddra dýra síðastliðin 25 ár hafa
verið notaðar til að meta lágmarks-
stofnstærð tófunnar.
Veidd dýr eru aldursgreind með
talningu árhringja í tönnum og hlut-
fall frjórra grendýra og gelddýra eða
hlaupadýra skráð með rannsókn á le-
görum. Heildarfjöldi dýra sem
veiðist úr tilteknum árgangi er
skilgreindur sem lágmarksnýliðun
þess árs. Þessi aðferð gagnast vel til
að skoða stofnbreytingar milli ára en
vanmetur heildarstofnstærð, því dýr
drepast af ýmsum orsökum öðrum en
veiði, svo sem hungri, slysförum, sár-
um og
sjúkdómum. Samkvæmt þessari
aldursaflagreiningu hefur lágmarks-
stofnstærð íslensku tófunnar marg-
faldast á 25 ára tímabili, úr um það bil
1.300 dýrum árið 1978 í tæp 8.000 dýr
árið 2003. Líklegt er þó talið að lág-
marksstofnstærð síðustu ára sé
ofmetin þar sem hlutfall gelddýra í
veiðinni hefur farið vaxandi.
Einföld skýring á uppsveiflu refa-
stofnsins frá því um miðjan áttunda
áratug síðustu aldar er sú að hlut-
fallslegt veiðiálag hafi minnkað og
stofninn hafi þess vegna náð að rétta
úr kútnum. Líklega er þó um mun
flóknara orsakasamhengi að ræða.
Náttúrleg frjósemi stofnsins virðist
meðal annars hafa verið óvenjulítil á
síðustu öld þegar stofninn var í lægð,
hvort sem þar er um að kenna ytri
umhverfisþáttum eða innri lífeðl-
isfræðilegum þáttum.
Samfara fjölgun í stofninum hafa
refir breiðst út um landið og eru nú
víða algengir á láglendi þar sem þeir
sáust vart eða ekki fyrir nokkrum
áratugum. Þegar mikið var um refi á
seinni hluta 19. aldar voru þeir einnig
algengir á láglendi, til dæmis á Mýr-
um. Þegar stofninn er í lágmarki
virðist hann sækja upp á hálendið,
fjær mannabústöðum. Á láglendi er
fæðuframboð margfalt meira en á
hálendinu; meðal
annars verpir meginþorri allra mó-
fugla neðan 200 m yfir sjávarmáli.
Sókn refa niður á láglendi má því
líkja við byltingu í framboði á fæðu
og búsvæðum.
Áhrif tófu á lífríki Íslands
Íslendingar hafa reynt að útrýma
tófunni með öllum tiltækum ráðum
svo lengi sem sögur herma. Refir
voru réttdræpir hvar sem til þeirra
náðist allt fram til 1994 að
lög voru sett um vernd, friðun og
veiðar á villtum fuglum og villtum
spendýrum. Með þeim varð sú
grundvallarbreyting að tófan
nýtur lagalegrar verndar og ekki
má lengur stefna refastofninum í
hættu með veiðum eða öðrum að-
gerðum. Refaveiðar eru þó
enn heimilaðar og stundaðar með
beinum fjárstuðningi sumra sveitar-
félaga, nema þar sem dýralíf er frið-
að samkvæmt náttúruverndarlögum.
Forsenda refaofsókna fyrr á
tímum og opinberra styrkja til
refaveiða enn í dag er meint tjón af
völdum refa í landbúnaði, sauð-
fjárrækt og æðarvarpi.
Refir leggjast stundum á fé. Oftast
er um að ræða unglömb á vorin en
stundum koma stálpuð lömb og jafn-
vel fullorðnar ær bitnar af fjalli. Erf-
itt getur verið að fullyrða um
dánarorsök bitinna hræja sem
finnast á víðavangi; lagðist tófan á
dauðvona kind, hræ eða fullfríska
skepnu? Á tímabilinu 1979–2002
fundust lambaleifar á um 19%
refagrenja sem upplýsingar feng-
ust um. Á tæplega helmingi þeirra
grenja var um aðeins eitt lamb að
ræða, sem bendir frekar til að við-
komandi refir hafi dregið dauð lömb
heim á grenið. Greni með 10
lambshræ eða fleiri voru sjaldgæf.
Refir fara einnig í æðarvörp og
geta valdið þar miklu tjóni. Tjónið er
einkum tvíþætt: Annars vegar er um
að ræða rýrnun í dúntekju vegna
þess að æðarfugl flýr varp þar sem
refur hefur farið um og gert usla,
hins vegar beinan kostnað vegna
vöktunar, girðinga og annarra varn-
araðgerða. Samkvæmt könnun sem
gerð var í lok síðustu aldar var árlegt
heildartjón æðarbænda vegna refa
metið á innan við 25 milljónir króna á
núverandi gengi. Árið 2005 var
kostnaður opinberra aðila af refa-
veiðum á landinu um 61 milljón króna
en hefur líklega minnkað mikið á
undanförnum árum.
Í þessu samhengi er þó rétt að
benda á að æðarbúskapur byggist að
miklu leyti á því að bjóða æðinni
öruggt varpland; þannig byggist upp
hreiðurþéttleiki sem hagstætt er að
nýta. Ef engin ógn stafaði af refum
eða öðrum rándýrum væri líklega
lítið um nýtanlegt æðarvarp.
Tölt um landið með tófunni
Í bókinni Lífríki Íslands
segir Snorri Baldursson
frá náttúrunni hér við
land, vistkerfi lands og
sjávar, með ítarlegum
hætti. Þróun þess, breyt-
ingum og framtíðarhorf-
um eru gerð skil til að
móta sem heildstæðasta
mynd. Hér er gripið nið-
ur í kaflann um lágfótu.
Forlagið gefur út.
Morgunblaðið/Þórður
Náttúrurit Snorri Baldursson líffræðingur er höfundur bókarinnar Lífríki Íslands, sem Forlagið gefur út.
Er á Facebook
Jurtir í jólagjöf
Slakandi olían er
góð fyrir húðina og
himnesk í baðið!
– Lena
Lenharðsdóttir
www.annarosa.is
Slakandi olían
hefur róandi
áhrif og er
frábær nudd-
og húðolía.
Eftir að ég fór að nota
24 stunda kremið hurfu
þurrkblettir í andliti
alveg og ég er ekki eins
viðkvæm fyrir kulda og
áður. Það gengur mjög
vel inn í húðina og mér finnst það
frábært í alla staði.
– Sigþrúður Jónasdóttir
24 stunda kremið er einstak-
lega rakagefandi og nærandi
fyrir þurra og þroskaða húð.
Fótakremið er silkimjúkt,
fer fljótt inn í húðina
og mér finnst það alveg
æðislegt.
– Magna Huld
Sigurbjörnsdóttir
Fótakremið er kælandi og
kláðastillandi, mýkir þurra
húð, græðir sprungur og
ver gegn sveppasýkingum.
Fæst í apótekum, heilsubúðum, Hagkaupsverslunum
(Smáralind og Spönginni) og Fjarðarkaupum.