Morgunblaðið - 27.11.2014, Side 44
44 FRÉTTIRErlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 27. NÓVEMBER 2014
BAKSVIÐ
Bogi Þór Arason
bogi@mbl.is
Efnahagsmálin hafa verið í brenni-
depli í baráttunni fyrir þingkosning-
arnar á Grænlandi á morgun, föstu-
dag, frekar en deilan um hvort
Grænlendingar eigi að stofna sjálf-
stætt ríki.
Vinstriflokkar hafa verið mjög öfl-
ugir á Grænlandi og skoðanakann-
anir benda til þess að þeir fjórir
flokkar sem eru lengst til vinstri fái
um það bil 85% atkvæðanna.
Grænlenskar fylgiskannanir hafa
ekki verið mjög áreiðanlegar, en
þær benda til þess að vinstriflokkur-
inn Inuit Ataqatigiit (IA) sé með
naumt forskot á jafnaðarmanna-
flokkinn Siumut en þurfi að mynda
stjórn með einum eða tveimur öðr-
um flokkum til að tryggja meirihluta
á landsþinginu. Þriðja vinstriflokkn-
um, Partii Naleraq, er spáð um 10%
fylgi og talið er hann geti komist í
oddastöðu á þinginu og ráðið úrslit-
um um hvort IA eða Siumut myndi
næstu landstjórn. Flokkurinn var
stofnaður í janúar og er undir for-
ystu Hans Enoksen, sem var leið-
togi Siumut og formaður land-
stjórnarinnar á árunum 2001 til
2009.
Siumut-flokkurinn var við völd á
Grænlandi í 30 ár samfleytt frá
árinu 1979, þegar landið fékk sjálf-
stjórn í eigin málum, og þar til hann
tapaði í kosningum í júní 2009 þegar
IA komst til valda. Hann var einn
við völd á árunum 1979 til 1983 en
eftir það í stjórn með einum eða
tveimur öðrum flokkum þar til hann
beið afhroð í kosningunum fyrir
fimm árum. Aleqa Hammond varð
þá formaður Siumut og flokkurinn
komst síðan aftur til valda eftir mik-
inn kosningasigur í mars á síðasta
ári. Landstjórnin sprakk í byrjun
október vegna ásakana um að Ham-
mond hefði notað rúmar 106.000
danskar krónur (2,2 milljónir ís-
lenskra) af opinberu fé í eigin þágu.
Háðir Dönum í
fyrirsjáanlegri framtíð
IA er systurflokkur Vinstrihreyf-
ingarinnar – græns framboðs á Ís-
landi og hyggst m.a. efna til þjóðar-
atkvæðagreiðslu um hvort banna
eigi vinnslu á úrani. Leiðtogi flokks-
ins, Sara Olsvig, segist ætla að hafna
fyrirhugaðri úranvinnslu á Suður-
Grænlandi hver sem niðurstaða
þjóðaratkvæðisins verður. Naumur
meirihluti þingsins samþykkti fyrir
ári tillögu stjórnar Hammond um að
afnema algert bann við vinnslu úr-
ans. Í kosningabaráttunni hefur nýr
formaður Siumut, Kim Kielsen, gert
lítið úr mikilvægi úranvinnslu fyrir
efnahag Grænlands.
Deilan um sjálfstæði hefur ekki
verið í brennidepli í kosningabarátt-
unni, ólíkt síðustu kosningum þegar
Hammond boðaði að Grænland gæti
orðið sjálfstætt ríki innan 20 ára
með því að nýta náttúruauðlindir
sínar, m.a. verðmæta málma og olíu-
lindir.
Grænland hefur fengið styrki frá
Danmörku að andvirði 3,3 milljarða
danskra króna (68 milljarða ís-
lenskra) á ári. Talið er að Grænland
verði háð fjárhagslegri aðstoð Dana
í fyrirsjáanlegri framtíð þótt áform
um námugröft gangi eftir, sam-
kvæmt nýlegri skýrslu Efnahags-
ráðs Grænlands.
Vinstrimenn berjast um völdin
Fjórum vinstriflokkum spáð um 85% atkvæðanna í þingkosningunum á Grænlandi á morgun
Nýr flokkur Enoksens gæti ráðið úrslitum um hvort Siumut eða IA myndar næstu landstjórn
AFP
Tvísýn kosningabarátta Þátttakendur á kosningafundi í Nuuk, höfuðstað Grænlands, á sunnudaginn var. Þingkosningar verða haldnar á Grænlandi á
morgun, föstudag, og nýjustu skoðanakannanir benda til þess að lítill munur sé á fylgi tveggja stærstu flokkanna, Siumut og Inuit Ataqatigiit (IA).
AFP
Eftirmaður Hammond Kim Kielsen, formaður Siumut
og starfandi formaður landstjórnarinnar.
AFP
Næsti leiðtogi? Aggaluag B. Egede (t.v.) og Sara Ols-
vig, leiðtogi vinstriflokksins Inuit Ataqatigiit (IA).
Rúmur helmingur lands-
framleiðslunnar á Grænlandi
kemur frá opinbera geiranum
og um 90% útflutningsins
koma frá sjávarútveginum.
Brýnt er að efla einkageirann
og mikil umræða hefur verið
um hvernig auka eigi fjöl-
breytnina í atvinnulífinu,
minnka atvinnuleysið, sem er
um 9-10%, og stemma stigu
við fólksflótta úr dreifbýlinu.
Íbúum Nuuk hefur fjölgað um
17,5% á síðustu tíu árum en
íbúum flestra minni sveitarfé-
laga hefur fækkað. Meðal-
árstekjur íbúa Nuuk eru
292.000 d. krónur (6 millj.
ísl.), en í þorpinu Qeqertat eru
þær aðeins 83.000 d.kr. (1,7
millj. ísl.), svo dæmi sé tekið.
Margir hafa flust til annarra
landa og margt ungt fólk, sem
fer í nám erlendis, kemur ekki
aftur heim.
Fólksflótti úr
dreifbýlinu
MIKILL LÍFSKJARAMUNUR
Hátúni 6a • 105 Reykjavík • Sími 552 4420 • www.fonix.is
Heimilistækjadagar20%
afslá
ttur