Læknablaðið - 15.07.2011, Side 7
RITSTJÓRNARGREIN
Háskóli íslands
- hugleiðingar eftir heila öld
Sigurður
Guðmundsson
forseti
heílbrigðisvísindasviðs
Háskóla islands
siggudm@hi.is
Háskóli íslands er 100 ára á þessu ári. Það er
ekki langur tími í lífi háskóla, en skólanum
hefur vissulega vaxið fiskur um hrygg á
þessum tíma. Fyrsta veturinn stunduðu 45
stúdentar þar nám, nú eru þeir um 14.000.
Skólinn hefur vaxið úr andarunga, í sjálfu
sér ekki ljótum, í fullfleyga álft á þessum
tíma. Langur aðdragandi var að stofnun
hans, fyrsta tillagan um tilurð háskóla var
lögð fram á Alþingi 1881 og síðan fylgdu
allmargar slíkar í kjölfarið sem annaðhvort
dagaði uppi eða náðu ekki fram að ganga.
Þrautseigju aldamótakynslóðarinnar hinnar
fyrri var hins vegar viðbrugðið og skólinn
leit dagsins ljós 1911.
Skólinn hefur á þessum tíma breyst úr
skóla sem menntaði fólk sem samfélagið
þurfti á að halda, lækna, lögfræðinga,
presta, í öflugan og víðtækan skóla sem
leggur áherslu á mikinn fjölda fræði-
greina. Hann er einnig orðinn það sem
prýðir mikilvirka háskóla, altæk rann-
sóknastofnun. Árangur Islendinga á sviði
vísindarannsókna er með nokkrum ólík-
indum; þegar horft er til tilvitnana í greinar
í alþjóðlegum tímaritum á svið líf- og
heilbrigðisvísinda eru þær í efsta sæti meðal
þjóða OECD. Hér vegur hlutur starfsmanna
Háskóla íslands og samstarfsstofnana hans
þyngst. Við Islendingar erum miklir meist-
arar í því að hreykja okkur af ýmsum
afrekum misstórum, en einhvern veginn
hefur þjóðinni yfirsést þetta, lítið er um
þetta fjallað í umræðu dagsins. Skilur þjóð-
in kannski ekki mikilvægi þessa, eða hvað?
Við vitum líka að íslenskir háskóla-
stúdentar standa sig yfirleitt vel þegar þeir
hleypa heimdraganum og leita á önnur mið
til frekara náms við erlenda háskóla og
stofnanir. Þeir standa sig vel á alþjóðlegum
prófum og er skemmst að minnast mjög
góðrar frammistöðu íslenskra læknanema
á prófi, Comprehensive Clinical Science
Examination (CCSE), sem þorri banda-
rískra læknanema tekur og stendur okkar
fólk kollegum sínum vestanhafs fyllilega
á sporði.
Þessi árangur er um margt merkilegur
fyrir svo litla þjóð, en ekki síst í ljósi þess
að í alþjóðlegum samanburði er Háskóli
íslands ódýr skóli, mjög ódýr. Samkvæmt
nýlegu yfirliti frá OECD, Education-at-a-
Glance 2010, er hlutfallslega mun minna
fé sett í háskólamenntun hér en í flestum
nálægum löndum, og munur á kostnaði við
nema í grunnskóla og háskóla nær enginn,
en tvö- til þrefaldur í ýmsum náiægum
löndum. Hér getum við því státað af
góðum skóla sem kostar samfélagið lítið.
En er það æskilegt til framtíðar og hvar
liggja þolmörkin? Er víst að sá eldmóður
og kraftur starfsmanna skólans sem býr
að baki þessum merkilega árangri haldist
til eilífðar að öllu óbreyttu?
Við höfðum ekki úr ýkja háum söðli
að detta fjárhagslega þegar kreppan skall
á okkur haustið 2008. Niðurskurður á fjár-
framlögum til HÍ hefur lauslega áætlað
numið um 20% frá þeim tíma. Að því hlýtur
að koma að gæði starfsins bíði hnekki, og
óttumst við að sú stund sé upp runnin.
Þetta lýtur bæði að kennslu og rannsóknum
við skólann. Ekki má gleyma að lokapróf
úr nær öllum deildum heilbrigðisvísinda
er ígildi starfsleyfis, mikið er því í húfi
að gæði náms séu ekki skert. Jafnframt er
íhugunarefni hve hugmyndir um samstarf
eða sameiningu tveggja stærstu háskólanna
hér, HÍ og HR, fá lítinn hljómgrunn, en sú
gjörð væri líklega einfaldasta og öflugasta
leiðin til að mæta þeirri skerðingu fjár-
framlaga sem háskólastarf hér býr við. Þetta
hefur lítið hreyft við þjóðarsálinni. Unnt
væri að spyrja, hvaða hæðum gætum við
náð, ef háskólinn sæti að þessu leyti við
sama borð og skólar í nálægum löndum?
Ber núverandi aldamótakynslóð ef
til vill ekki sama hug til menntunar og
vísinda eins og aldamótakynslóðin hin
fyrri gerði? Hefur okkur sem störfum að
menntun ekki tekist að koma mikilvægi
háskólamenntunar og vísinda nægilega
vel áleiðis? Drukkna raddir okkar í sí-
bylju daganna? Þetta meinta afskipta- og
áhugaleysi kemur þó ekki fram hjá unga
fólkinu, aðsókn að háskólanum hefur aldrei
verið jafnmikil og nú.
Nú er ýmislegt sem bendir til að
kreppunni ljúki senn, miklu skiptir að
samfélagið komi sér saman um hvernig
við ætlum að byggja okkur upp að nýju.
Efling menntunar og vísinda er ljóslega
eitt af forgangsmálum þar. Því er sér-
stakt ánægjuefni að ríkisstjórnin færði
nýverið háskólanum 150 milljónir króna í
afmælisgjöf, sem nýtast munu til eflingar
rannsókna og kennslu í samræmi við
nýsamþykkta stefnu skólans. Sé þetta
vísbending um að samfélagið og stjórnvöld
vilji sækja fram og efla Háskóla Islands
sem homstein og rekakkeri íslenskrar
háskólamenntunar væru fáar gjafir skólan-
um kærkomnari. Hér er verk að vinna fyrir
stjórnvöld og tilefnið ærið.
University of lceland - on crossroads at it's centennial
Dean of School of Health Sciences
University of lceland
LÆKNAblaðiö 2011/97 403