Læknablaðið - 15.11.2013, Page 43
Hvað er
þetta með
lækna og
tónlist?
Þröstur Haraldsson
fyrrverandi blaðamaður
Læknablaðsins
og ritstjóri Bændablaðsins
throsth@simnet.is
Hér er kórinn Söngfjelagið á æfingu í Listasafni fslands á dögunum undir stjórn Hilmars Arnar Agnarssonar, undirleikari er Vignir Þór
Stefánsson og Kristjana Stefánsdótlir er einsöngvari meðþeim. íþessum kór eru alla vega þrír læknar, Trausti Valdimarsson, Sveinn Rúnar
Hauksson og Kristín Andersen. Eins og sést berlega á mynd Árna Möller af söngfélögum sínum skín brakandi lífsgleði og þróttur afkórnum
öllum.
Eftir að tónlistarhúsið Harpa reis á rústum
Faxaskála og kolakranans ákváðum við
hjónin að fara að stunda sinfóníutónleika
og keyptum okkur miða í gulri röð. Það
vakti athygli mína þegar tónleikatíðin
hófst að á öllum konsertum var meirihluti
þeirra tónleikagesta sem ég kannaðist við
úr læknastétt. Allra handa læknar, ungir
og gamlir, hjartaskurðlæknar sem kven-
sjúkdómalæknar, geðlæknar og lýtalæknar,
að ótöldum öllum heimilislæknunum.
Hvað veldur? hugsaði ég en það var
ekki fyrr en á nýliðnu sumri sem ég fékk
þessa tilfinningu staðfesta, að hluta til í
það minnsta. Þá rakst ég á grein í norska
læknablaðinu um listfengi lækna.1 Hún var
eftir tvo þarlenda lækna, Magne Nylenna
og Olaf Gjerlow Aasland, en þeim fyrr-
nefnda kynntist ég þegar hann var ritstjóri
norska læknablaðsins um aldamótin. Hann
heimsótti okkur í Hlíðasmáranum og ég tók
viðtal við hann um nýtt skipulag heimilis-
lækninga í Noregi.
Mikið lesið og margvislegt
Þeir félagar endurtóku rannsókn sem
gerð var árið 1993 en þá voru lagðar sömu
spurningar fyrir úrtak úr hópi virkra lækna
í Noregi. í fyrra skiptið svöruðu tæplega
500 læknar spurningunum en árið 2010
hafði þeim fjölgað um helming, losuðu þús-
undið. Spurt var um menningarneyslu og
-virkni þátttakenda, hvort þeir hefðu lesið
eitthvað annað en læknisfræði og þá hvað,
hvort þeir hefðu sótt bíó, leikhús, óperu,
tónleika - klassíska eða popp - síðasta árið.
Einnig var spurt hvort þeir syngju í kór
eða lékju reglulega á hljóðfæri, einir eða í
hljómsveit.
Niðurstöður þessarar könnunar voru
bornar saman við rannsóknina frá 1993 og
menningarneysla lækna við samsvarandi
neyslu og virkni annarra háskólastétta
eins og hún mælist í lýðfræðirannsóknum
norsku hagstofunnar. Útkoman var ansi
sláandi.
Könnunin frá 1993 leiddi í ljós mikla
menningarneyslu og -virkni lækna og
samkvæmt niðurstöðum seinni rann-
sóknarinnar hefur hún aukist umtalsvert
á síðustu árum. Ef við byrjum á lestrinum
var niðurstaðan sú að árið 1993 höfðu
48,2% aðspurðra nýlega lesið skáldsögu eða
smásagnasafn en árið 2010 hafði hlutfallið
hækkað í 69,9%. Á móti hafði dregið veru-
lega úr lestri hópsins á bókum um sam-
félagsmálefni (pólitík, listir, sagnfræði) og
trúmál. Þá kom í ljós að blaðalestur lækna
hafði minnkað talsvert minna en raunin
var hjá öðrum stéttum. Ljóst er að lestrar-
hestarnir lesa jöfnum höndum læknisfræði
og aðrar bókmenntir.
Önnur menningarneysla var einnig
mikil. 81% aðspurðra höfðu brugðið sér í
bíó á síðustu 12 mánuðum, 78% í leikhús
og 47% í óperuna. Þarna hafði líka orðið
aukning frá 1993 og reyndust karlarnir
hafa aukið menningarneysluna heldur
meira en konur í læknastétt. Samanborið
við aðra hópa háskólafólks höfðu læknar
verið heldur óduglegir við að fara í bíó en
mun duglegri við leikhúsferðir og þeir voru
næstum þrefalt líklegri til að fara í óperuna
en aðrir háskólamenn.
Þar er komið að tónlistinni og þar eru
niðurstöðurnar ekki síður athyglisverðar.
Þegar spurt var hvort fólk kynni á hljóðfæri
svöruðu 58% þátttakenda því játandi og
21% kváðust spila reglulega en 13% að þeir
syngju í kór eða lékju í hljómsveit. Tölur
fyrir aðra hópa háskólamanna eru í sömu
röð: 44%, 11% og 9%.
Tónlistariðkun lækna hafði aukist
verulega frá fyrri rannsókninni. Árið 1993
sögðust 8% aðspurðra vera virkir í tónlist
en 13% árið 2010. Konur höfðu aukið virkni
sína meira en karlar, fleiri konur en karlar
sögðust kunna á hljóðfæri þótt fleiri karlar
spiluðu reglulega á þau. Sé litið á einstaka
hópa lækna eru geðlæknar virkastir í
tónlist en 18% þeirra syngja í kór eða spila í
bandi. Skurðlæknar virðast hafa minnstan
tíma eða áhuga á tónlist því einungis 9%
þeirra sögðust sinna henni reglulega sem
iðkendur.
Vörn gegn útbruna
f báðum könnunum var einnig spurt um
starfsánægju, heilsufar (að eigin mati)
og streitu í starfi. í fyrri könnuninni var
engin marktæk fylgni milli þessara þátta
og menningarneyslu en það hafði breyst 17
árum seinna. Niðurstaða þeirra Nylenna og
Aasland er sú að því duglegri sem læknar
eru við að iðka og njóta menningar og tón-
listar þeim mun meiri er starfsánægjan og
minni hætta á útbruna. Þetta styðja aðrar
rannsóknir sem gerðar hafa verið meðal
heilbrigðisstarfsfólks á áhrifum menningar-
virkni á starfsánægju þess og heilsufar.
Þeir félagar taka það fram að enn skortir
verulega á að tengsl menningarvirkni og
vellíðunar hafi verið könnuð til hlítar. Þeir
geti þó með góðri samvisku mælt með
menningarlegri tómstundaiðkun, það sé
alla vega ekki hægt að sjá í fljótu bragði að
hún geti verið til óþurftar.
Það er því ljóst að goðsögnin um hinn
tónelska lækni er engin goðsögn. Enn á
þó eftir að svara þeim spurningum sem
vöknuðu með mér í Hörpunni. Hver er
ástæðan fyrir því að hlutfall lækna meðal
tónleika- og óperugesta er svona hátt? Af
hverju kunna hlutfallslega fleiri læknar á
hljóðfæri en aðrar stéttir menntamanna?
Þarna er kjörið verkefni fyrir rannsakendur
og ég efa ekki að Læknablaðið standi þeim
opið til að greina frá niðurstöðunum.
1. Nylenna M, Aasland OG. Kulturell og musikalsk aktivitet
blant norske leger. Tidsskr Nor Legeforen 2013; 133:1307-9.
LÆKNAblaðið 2013/99 531