Læknablaðið - 01.02.2014, Side 56
120 LÆKNAblaðið 2014/100
Hannesson þá verið fljótur að ákveða það,
að taka fótinn af föður mínum án þess að
Árni læknir hefði nokkurn veg eða vanda
af því starfi. Faðir minn var búhagur,
átti þar af leiðandi dálítið af smíðatólum.
Meðal þeirra fann Guðmundur Hannesson
bandsög, sem hann notaði við aðgerðina,
svo varð að hugsa fyrir skurðarborði, ekki
var um annað að ræða en að nota baðstofu-
hurðina fyrir skurðarborð. Ekki var hægt að
láta hana liggja á gólfinu. En Guðmundur
Hannesson var þekktur smiður og séra
Jón vel lagtækur, hann smíðaði orf, hrífur,
ljábakka, hestajárn og fleira fyrir sjálfan sig
öll þau ár, sem hann stundaði búskap. Þeim
varð því ekki skotaskuld úr því að smíða
það sem þurfti undir hurðina. Þegar þeir
voru búnir að því, var pottur settur á hlóðir
og Guðmundur fór að sjóða þau verkfæri,
sem hann hafði. Loks fór hann af stað og
gekk þangað sem hann fann dýjamosa og
tók talsvert mikið af honum með sér, skar
svo af honum ræturnar og þvoði hann vel
úr sterku karbólvatni og notaði hann í stað
umbúða. Engin eldavél var til í Stapa sem
hægt var að dauðhreinsa umbúðir í. Nú
vita menn að dýjamosi hindrar gerla- og
sýklavöxt, en það vissu menn ekki þá, og er
mjög merkilegt, að Guðmundi Hannessyni
skyldi detta í hug að nota dýjamosa í stað
umbúða.
Séra Jón tók að sér að svæfa sjúklinginn
og tókst það ágætlega. Aðgerðin gekk
greiðlega hjá Guðmundi án þess að nokkuð
bæri út af. Dagurinn varð víst merkisdagur
fyrir þá báða. Guðmundur Hannesson hafði
unnið sitt fyrsta læknisverk, þó að mikið
vantaði á að hann væri fulllærður, og séra
Jón hafði í fyrsta sinn verið við handlæknis-
aðgerð, en hann mun hafa langað mikið til
þess að læra læknisfræði, þó það yrði úr, að
hann gengi á prestaskólann.
Þetta þótti mikið þrekvirki af ungum
læknanema og flaug um alla sveitina, en
Hannesi karlinum á Eiðsstöðum þótti lítið
til koma og húðskammaði son sinn. Hann
hefði engan rétt til að framkvæma neitt
læknisverk, hvað þá að ráðast í svo mikla
aðgerð, og ef illa færi, mætti refsa honum
fyrir það!
Faðir minn komst til fullrar heilsu. Hann
vann alla algenga sveitavinnu fram á elliár
og reri stundum til fiskjar á árabátum, en
aldrei eignaðist hann vandaðan tréfót, en
bjargaðist við þann, sem hann smíðaði sér
sjálfur.
Guðmundur Hannesson var uppi á því
tímabili, sem ávallt mun talið verða mesta
framfaratímabil íslenzku þjóðarinnar. Með
læknisstarfi sínu, kennslu sinni við háskól-
ann og brautryðjandastarfi sínu í húsagerð
átti Guðmundur Hannesson mikinn og
veglegan þátt í þessum framförum.
Það sem einkenndi Guðmund Hann-
esson framar öðru, var það hve vitur og
fróður hann var og fullur af góðum vilja til
þess að verða þjóð sinni að gagni. Þeir, sem
þekktu hann, vita vel, að hann var einhver
merkasti Íslendingur, sem uppi var á sínum
tíma, að hann kom mörgu góðu til leiðar
fyrir þjóð sína, einkum í heilbrigðismálum
og húsagerðarlist, en lengi mun líka verða
minnzt framlags hans til sjálfstæðisbaráttu
vorrar og ekki sízt til skipulagsmála, sem
fyrst voru tekin upp að frumkvæði hans.
Nú eru Húnvetningar að vinna að því
að Guðmundi Hannessyni verði reistur
minnisvarði á fæðingarstað hans, Guðlaugs-
stöðum í Blöndudal. En hvar er skurðar-
hnífurinn hans séra Jóns og bandsögin hans
föður míns. Auðvitað, því miður, hvort-
tveggja týnt og tröllum gefið fyrir löngu,
um það er reyndar ekkert hægt að segja. En
mig dreymir um það, að gamla, fræga Nes-
stofan úti á Seltjarnarnesi, þar sem fyrsti
lærði læknirinn á Íslandi bjó, Bjarni Pálsson
landlæknir, verði gerð að sjálfseignarstofn-
un og þar komið fyrir sögulegu safni, er
sýni uppruna og þróun læknamenntarinnar
á landi voru.
Í Morgunblaðinu 24. ágúst 1966 er fréttaskeyti frá
Blönduósi um að Anna Guðmundsdóttir hafi af-
hjúpað minnisvarða um föður sinn, Guðmund
Hannesson, í trjálundi á fæðingarstað hans, Guð-
laugsstöðum í Blöndudal. Í fréttinni er rakin dag-
skráin við athöfnina: Páll Kolka talar og viðstaddir
syngja „Starfið er margt en eitt er bræðrabandið“ og
„Ó fögur er vor fósturjörð“. Síðan er farið í Húnaver
þar sem Hulda Stefánsdóttir stýrir veislu og minn-
ist eiginkonu Guðmundar. Á stokk stíga sr. Pétur
Ingjaldsson, Jón Pálmason fyrrum ráðherra á Akri,
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, Hannes Páls-
son búnaðarmálastjóri fyrir ættmenni Guðmundar,
og að lokum þakkar Guðmundur Jónsson þeim sem
lögðu honum lið við að koma minnisvarðanum upp:
Kaupfélagi Húnvetninga, sýslunefnd Austur-Húna-
vatnssýslu, Húnvetningafélaginu í Reykjavík, og ætt-
ingjum Guðmundar Hannessonar. Fréttinni lýkur á
þessari rómantísku viðreisnaráralýsingu: „Fjölmenni
mikið var við athöfnina, sem öll var hin virðulegasta.
Sólskin og blíða var í Blöndudal og Húnaþingi. Höfðu
margir viðstaddir á orði að aldrei hefðu þeir séð
Blöndudal skarta eins dýrðlega og þennan dag. Átti
það vel við þegar minnst var frægasta sonar dalsins.“
VS
Minnisvarði um Guðmund Hannesson
Mynd: Björn Hilmarsson.
„Ég er nýbúinn að frétta það, að sonur Hannesar á
Eiðsstöðum, sem er að læra læknisfræði í Kaupmanna-
höfn, sé kominn heim og muni verða heima í sumar.
Ég ætla að skreppa vestur til þess að sækja piltinn og
láta hann skoða á yður fótinn, Jón minn. Hann er útaf
lánsfólki og ætti að geta gert eitthvað, sem vit væri í.“
Myndin er af Eiðsstöðum, tekin um 1940.