Tímarit Máls og menningar - 01.05.1986, Page 105
Jarðarför að hausti
Guð minn, sagði presturinn.
Hann — altsvo — valt, sagði ég einsog til skýringar.
Presturinn lyfti hendi og teiknaði kross útí loftið. Hvílík óheppni,
dæsti hann.
Þegar við mættum til hinnar formlegu athafnar síðar um daginn
höfðu öll ummerki um bílinn verið afmáð. Einsog allt hefði gengið
samkvæmt áætlun. Eg veit ekki nema athöfnin hefði farið úr böndum
ef bíllinn hefði ennþá legið þarna með hjól til himins.
Hvað presturinn sagði um afa heyrði ég aldrei, það drukknaði í
svita mínum og áhyggjum af hlutverkinu. Eg náði ekki stikkorðinu,
en sá þegar hinir líkberarnir risu á fætur og þá fór ég á eftir. Og við
vorum í aðalhlutverki.
Öðrum þætti lauk án áfalla.
Þegar kom að því að drekka kaffið hafði sagan um útafkeyrsluna
spurst út. Það var ákaflega vandræðalegt, ekki síst vegna ekkjunnar,
ömmu gömlu, en allir vildu heyra söguna. Þannig varð þetta heldur
brothætt mál; í kringum ömmu ríkti eindrægni sorgar, en í öllum
hornum var „slysið“ skeggrætt í hálfum hljóðum. Við urðum að
segja söguna margoft og alltaf voru það jafn gírug andlit sem gleyptu
hana með hverjum drætti og þóttust eflaust merkilegri eintök en áður
útaf því að hafa verið við svona mergjaða jarðarför.
Auðvitað voru allir sammála um að láta þessa vandræðalegu uppá-
komu verða þögninni að bráð — menn kinkuðu kolli ábyrgðarfullir
og renndu úr bollanum — ekkert skyldi skyggja á minningu afa.
En hver getur þagað yfir svonalöguðu? Ekki ég. Og kannski er
eins gott að ég segi frá þessu einsog það var — nákvæmlega. Eg treysti
engan veginn hinni munnlegu geymd.
231