Tímarit Máls og menningar - 01.12.1992, Page 79
Þó voru það ekki bara vopnin sem leiddu þessa bölvun yfir okkur,
heldur líka hjátrú fullorðna fólksins, en það var alltaf að tala um að
sjódauðir menn gengju um fjöruna og pössuðu sorphauga hersins. Okkur
var sagt frá einsemdarsvipnum og holum tóttunum á þessum sjóreknu
varðmönnum.
Það voru til sögur af körlum sem grömsuðu einsog gammar í sorpinu
og höfðu rekist á og haldið hver um annan að þeir væru framliðnir og
orðið svo hræddir að þó að þeir segðu draugasögur á fylliríum og
dansleikjum forðuðust þeir hver annan í dagsbirtu.
Við vorum staðráðnir í að komast niður bjargið og rannsaka haugana.
Við ætluðum að finna skothylki og helst fjársjóði. Við höfðum heyrt um
gullúrin sem lágu í sandinum og kirkjugarðsrotturnar sem urguðu í
myrkrinu og gátu gleypt bæði hunda og ketti.
En skothylkin voru aðalmálið, því að svo ætluðum við að redda okkur
vopnum úr vopnabúri hersins og ganga um þorpsgötumar og skjóta út í
loftið.
Það var ekki útilokað að við myndum stúta nokkrum, til dæmis Jóa
leikfimikennara og öllum verkstjórunum og það sannaði hvað hugmynd-
in var góð að við höfðum ekki rætt þetta lengi þegar hálft þorpið lá í
valnum.
Ég heyrði bíótónlist í huganum; þegar við flýðum austur á bóginn, út
í mosavaxið hraunið, því að við vorum eftirlýstir. Myndir sem á stóð
WANTED DEAD OR ALIVE, héngu í öllum fiskiðjuverum. Við vorum
yngstu glæpamenn landsins og heimtuðum að komast í herinn og fá
amerískan ríkisborgararétt; ella fengju önnur þorp á nesinu sömu útreið
og þorpið okkar.
Alla þessa hugaróra urðum við rekja oní félagsmálafulltrúana og
kerlingarnar frá bamavemdamefndinni, því þó að enginn okkar hleypti
af einu einasta skoti og byssur og rifflar kæmu aldrei til sögunnar, endaði
þetta með skelfíngu.
Siggi og Jonni áttu hermannahjálma sem bræður þeirra höfðu gefið
þeim, en hermannahjálmamir lágu á haugunum og ég var staðráðinn í að
ná mér í einn, en í staðinn fyrir hjálm var ég með gamlan emaléraðan
hlandkopp frá afa og hafði bundið vír við haldið og fest hann í barminn
hinum megin, þannig að hann var einsog hermannahjálmur á höfðinu,
því að það var algjörlega vonlaust að príla niður bjargið án þess að hafa
TMM 1992:4
77