Tímarit Máls og menningar - 01.03.1994, Page 41
hún á hestinn og áður en hún reið burt horfði ég á bláleita nefið eins
og hún væri þar alltaf með blóðeitrun.
Óðar en hún var farin hljóp ég í húsið til hinnar konunnar og ætlaði
að standa af mér athugasemdirnar sem hún kæmi með þegar amma
riði fram hjá, þá ætlaði ég ekki að fara undan í flæmingi eins og í hitt
skiptið.
Ég heyrði í hestinum á veginum fyrir utan. Ég var kominn með
sjónaukann og varð órólegur yfir að kannski tæki konan ekki eftir
ömmu á heimleið og ég missti af tækifærinu. Ég stóð við gluggann og
sagði svo hátt að hún heyrði:
Þarna fer hún amma með bláa nefið sitt.
í þetta sinn brást konan ókvæða við og hreytti út úr sér:
Skammastu þín ekki fyrir að segja svona smánarlegt um ömmu
þína, þessa duglegu konu. Að hún skuli komast ein þessa löngu leið á
hesti og með blóðeitrun.
Hún er blánefja, sagði ég af því óskiljanlega innra afli sem rak mig
oft skyndilega til að segja ýmislegt án þess ég hugsaði sérstakt með því.
Fátækt fólk fékk bláan lit í framan af húskulda, sagði konan og færði
sig að glugganum.
Ég hlustaði og sagði ekkert.
Nema kerlingin sé komin með blóðeitrun í nefið af að vera stöðugt
með það niðri í hvers manns koppi, bætti hún við og hló ertnislega.
Ég fann hvernig ég varð ringlaður en ákvað að láta ekki vötnin í
brjóstinu ólga og leita út um augun, í staðinn beindi ég öfugum
sjónaukanum að konunni svo hún þaut burt frá mér, og ég beindi
honum líka að ömmu svo hún þaut á svipstundu langt í burt þótt ég
vissi að hún lötraði hægt á gamla áburðarklárnum yfir hæðina sem
var steinsnar í burtu. Þrátt fyrir þetta fann ég í huganum ilminn af
sjölunum hennar, veikan og sætan eftir að vellyktandibréfið hafði
legið á milli brotanna í efninu ofan í lokaðri skúffu, og ég dvaldi eins
lengi og ég gat við ilm ffá framandi heimi handan við hafið og skýin
af því hann var fegurri en þessi.
TMM 1994:1
31