Tímarit Máls og menningar - 01.03.1994, Page 92
liggur fram á púða og sefur. Hún raular og bros leikur um varirnar.
Ljós í stöku glugga í húsinu gegnt þeim og glampi frá sjónvarpi á hverri
hæð. Úti er einstaka bíll á ferð og ómur af röddum og tónlist, annars
hljótt. Skellir í háhælaskóm og prúðbúið ungt par sem heldur utan
um hvort annað gengur niður götuna og hverfur fyrir hornið. Nokkru
síðar, sírenuhljóð sem færist nær og nær og fer loks hjá með ærandi
hávaða og bláu ljósi. Hann rís upp, vinstri helmingur andlitsins eins
og dauður. „Hvað er klukkan? Af hverju vaktirðu mig ekki? Eru
fréttirnar búnar?“ Hann er mjög þvoglumæltur. „Æ, þú svafst svo
vært“ segir hún. Það rymja einhverjar formælingar í honum. Hann
tekur stafinn, stendur upp með aðstoð hennar og þau staulast að
sjónvarpinu. Hann kveikir og sest síðan í hægindastólinn. Hún fer
aftur út að glugganum. Stansar og horfir út. „Kannski gerist eitthvað
á morgun“, segir hún eins og við sjálfa sig. „Ha?“ hrópar hann. Hún
snýr höfðinu og kallar „kannski gerist eitthvað á morgun, sagði ég“.
Hann svarar engu. Hún stendur hugsi, lokar síðan gluggunum, færir
sig til hliðar, tekur í bandið og gardínurnar dragast fyrir.
82
TMM 1994:1