Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Qupperneq 15
viður sem er annarrar merkingar. Rökleg textagreiningaraðferð virkar þess
vegna ekki á þetta, ja nema menn vilji afgera kjarnana en þá eru þeir eiginlega
komnir á sama stað og höfundurinn lagði upp frá. Mér finnst þess vegna að
skrif um skáldskap af þessu tagi verði að vera á svipuðu innsæisplani, nú eða
frumspekilegu og þekkingarfræðilegu. Þá erum við hins vegar farnir að tala
um skrif sem ég hef á tilfinningunni að yrðu skáldskapur í sjálfu sér og allt
gott um það að segja, en ég get ekki ímyndað mér að þau yrðu einfaldari eða
aðgengilegri. Fyrir mér yrði það alltaf ósvinna að því leyti að kjarnarnir sjálfir
gæfu áfram skýrustu sýnina, mesta rýmið fýrir hugarflugið og mesta frelsið
því að teoretískt eru möguleikarnir ótæmandi rétt eins og gimsteinn er aldrei
sá sami einfaldlega vegna þess að sólarljósið er aldrei það sama eins og við
vitum.“
Gerirþú þá ráðfyrirþví að kjarninn sé einskonar veruleiki í sjálfu sér?Að Ijóðið
feli í sér eigin veru?
„Á vissan hátt geri ég það en það má ekki gleyma því að tengingin við aðra
heima hverfur aldrei, hún er uppistöðuþáttur. Allt efnið síast inn í mig
gegnum persónulega reynslu og þar innifel ég bókmenntirnar því fyrir mér
er lestur ekki síðri reynsla en annað. Kjarninn er í mínum huga bæði
kristallaður hlutveruleiki sem og tilfmningalegur veruleiki byggður á skynj-
un, en hann felur einnig í sér óhlutbundið svið, er heimspekilegur eða
alþýðuspekilegur í mínu tilfelli því ég hef ekki heila í heimspeki á háu plani.
Tengingarnar á milli kjarnanna eru svo í senn merkingarlegs og byggingar-
legs eðlis. Það eru ekki reistar neinar brýr heldur er eins og hlaupi straumur
á milli. Margliða tengiferli er stytt í skammhlaup. Hugmyndir skjótast milli
skauta. Nú er ég kannski farinn að tala mystík en við þetta gerist eitthvað
magnað þegar best tekst til. Merkingarnar víkka og dýpka, upphefja kjarn-
ana. Þetta er útópíuhugsunin að baki þessu og árangurinn auðvitað tak-
markaður í samræmi við það en mér fannst samt að með þessari aðferð
tækist mér að fanga verðmæti á plani sem ég kallaði tilfinningavitið.
Ég var auðvitað ekki að finna upp hjólið. Ég lærði til að mynda fræðilega
mjög mikið af Paz enda er hann að mínu viti sá maður sem skrifað hefur af
mestu innsæi um ljóðlist á þessari öld og margt af því hef ég tekið til mín.
Til dæmis hugmyndir hans um eðli hrynjandinnar, að hún sé eitthvað meira
en bara músíkelementið, uppmögnun orða og merkinga sem getur nálgast
fjölkynngi, heldur sé hún merkingarbær í sjálfri sér. Það er svo margt í þessu
sem enginn getur svarað vitrænt, til dæmis af hverju ákveðnar línur eru
svona magnaðar en aðrar ekki, hvað gerir þennan gæfumun. Menn eru meira
og minna í myrkrinu með það hvernig hrynjandin vinnur, hvernig hún
TMM 1996:4
13