Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Síða 17
magnaðri. Þegar það tekst þá gerist eitthvað, það er einstakur viðburður,
mystísk upplifun. Þetta er eins og hjá galdramönnum. Yfirburðakenndinni
sem þá hleypur í höfundinn fylgir dularfull orka, kraftur sem aflfræðin kann
engin skil á. Ég held ekki sálfræðin heldur.
Það er svo aftur önnur saga að í seinni tíð er margur að verða þunglynd-
islega þenkjandi yfir því að móttökuskilyrðin séu alltaf að versna hjá fólki.
Ég tek hvað eftir annað eftir því að þegar einhver segir eitthvað flott í hópi
manna virðist enginn hafa tekið eftir því og stundum ekki einu sinni sá sem
sagði þetta. Þetta eru einu áhyggjurnar sem ég hef af tungumálinu. Ef menn
hætta að hafa nautn af því og næmið minnkar þá getur það verið keðjuverk-
andi því næmið byggist á hugarþjálfun rétt eins og hagmælskan og þá gæti
farið svo á endanum að tungumálið yrði ekki spennandi tæki lengur. Við
sætum uppi með mál sem er gott fyrir verslunarráð, skilmerkilegt og einfalt,
fínt í upplýsingaþjóðfélaginu. En þá færi nú að lækka risið á bókmenntun-
um. Nei annars, ég er ekkert svartsýnn. Slangrið reddar þessu ef hnignunin
kemst á verulega hátt stig.“
Óafturkræfur missir verðmætanna
Þú hefuráður haftþað á orði aðþessi tungumálsdauði í upplýsingaþjóðfélaginu
tengist hvarfi menningarlegrar fjölbreytni, sem í íslensku samfélagi birtist sem
dauði sveitanna ogþorpatma. Ertu enn sama sinnis?
„Ég er sömu skoðunar ennþá. I fýrsta lagi er tungumál okkar í augljósri hættu
vegna þess að það er enn að mestu byggt á hugsun sem leidd er af atvinnu-
háttum menningar sem nú er horfin. Þetta hefur auðvitað gerst svo hratt að
það er varla von að tungumálið hafi fylgst með tímanum. Hér er líka
sennilega öflugasta mállögregluríki heimsins og algerar páverbremsur á allri
endurnýjun tungunnar. Ég hef fýrir satt að ritskoðun sé á tveimur stigum.
Á lægra stiginu eru ritskoðararnir að krukka í allt sem skrifað er en á æðra
stiginu eru þeir orðnir óþarfir. Þannig varð það fljótlega fýrir austan járn-
tjald, hver og einn varð sjálfs sín ritskoðari og miklu nákvæmari og smá-
smugulegri en hinir höfðu verið. Það er búið að gera íslendinga þannig og
ég held að þetta sé alveg stórhættulegur hemill á frjósemi fólks. Það er hjá
þjóðunum sem tungumál þróast og listamönnum þeirra reyndar líka, mál-
sérfræðingar geta ekki viðhaldið tungumáli upp á eigin spýtur sama hversu
málfræðilega snjöll nýyrði þeir semja. Það er auðvitað alveg furðulegt stór-
mennskubrjálæði að ætla sér að stjórna heilu tungumáli af kontórnum. En
TMM 1996:4
15