Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Síða 20
Þessi mynd sem ég mála af sveitinni í Mýrarenglunum er kannski ekki fögur
en í henni felst raunsæi, það er ekki glamúr yfir því sem er að syngja sitt
síðasta, engin framsækni og reisn. Ég held hins vegar að væntumþykjan skíni
þarna í gegn og sá sjarmi sem er yfir hnignuninni, því í henni er viss nautn.
Það er jafnan þefur af líkum og hræætum finnst það góð lykt.“
Þessi sveitaheimur virðist yfirsögulegur. Það er eins og dráttarvélin hafi alltaf
verið þarna líkt og vargurinn.
„Sögumaður er náttúrlega barn í flestum sagnanna og miðar því út frá
fremur stuttum tíma. En ég ætlaði þessu líka að hafa almenna skírskotun,
þessi mynd er einnig mitt alternatív við þá náttúru- og sveitaímynd sem
hefur verið einráð í bókmenntum á íslandi síðan á 19. öld — þrátt fyrir
Halldór Laxness sem kemst reyndar styttra frá henni en virðist í fljótu bragði.
Hvað náttúruna varðar fór hann ekki svo langt frá rómantíkinni, framlag
hans snerist um mennsku. Það á að nota náttúruna eða baða sig í fegurð
hennar og kaflar eins og sá í Sjálfstœðufólkiþegar gesturinn kemur og skýtur
fugla og steikir í smjöri eru bara til að sýna hvað kotbændurnir eru vitlausir
að kunna ekki að nota landgæðin. Hann er að kenna. Mér fannst enginn hafa
lýst á raunsannan hátt hliðum á sveitinni sem ég hafði upplifað. Enginn tekið
á hnignun þeirra eins og ég vildi og svo var það þetta með veiðimanninn.
Hann hefur verið furðulega vanræktur í bókmenntum þessa veiðimanna-
þjóðfélags."
Zombí er ekki síður upptekinn af hnignuninni. Þeir félagar, mœlandinn og
Zombí, virðast beinlínis nœrast á henni.
„Þeir fíla þetta bara vel, það er rétt og svo étur maðurinn einfaldlega það sem
tiltækt er, ekki satt? En það er þrátt fyrir það samskonar sjónarhorn á
hnignunina þarna og í Mýrarenglunum nema hvað Zombí er makrókosmísk
bók en ekki míkrókosmísk, allt safnast að. Fyrir miðju í bókinni eru þeir
félagar tveir og þær speglanir sem að þeim dragast. Þetta er ekki ferð heldur
einskonar söfnun; allt kemur til þeirra og þeir eru staddir alls staðar í einu.
I forgrunni er ekki það sem er víkjandi heldur fremur sá tilfmningalegi
dekadens sem fylgir gengisfallinu á öllum hlutum; öllum gildum og verð-
mætum. Þarna er sum sé ofgnóttin sem þó er svo lítils virði. í þessum heimi
er allt að verða jafn-gilt, ekkert sker sig úr, allt er markleysa nema séð út frá
einstaldingsbundnum sjónarhól og þar með út frá huglægu verðmætamati
vegna þess að mælikvarðarnir eru ekki lengur fyrir hendi. Þetta er náttúrlega
18
TMM 1996:4