Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Page 38
Hann vaknar í djúpum næturinnar framandi maður i sínu eigin
lífi, iðrunarmaður þeirra synda sem hann hefur ekki drýgt, dáðir
hans löngu druknaðar í vorkunn, vaknar lángt burt frá sjálfum sér,
viltur í eyðimörk mannlífsins, og leiðin til baka of laung fyrir eina
mannsævi. Einginn gaf honum framar tækifæri til að brosa, og
hann hafði ekki lifað sælar stundir síðan hann lá undir súðinni á
Fæti undir Fótarfæti, sjúkur og sár, og beið eftir geislanum. Ef hann
rís á fætur og kveikir ljós og skoðar sig í spegli mun hann verða
hræddur við þennan beiníngamann sem gistir hér hjá fimtán árum
eldri konu, þriggja mánaða gömlum syni.
Hver er ég? spyr hann. Og hvar?
Og fær að svari: Bið þín er bráðum á enda, lífið sem þér var ætlað
— týnt. (bls. 43-44)
Tækifærin eru liðin hjá „með þessum lymskufulla hætti sem tíminn stelst
frá hjartanu“. Þetta er í raun snjöll túlkun á kjarna kvæðisins sem segir að
dagar lífsins hafa glatað lit sínum. Slíkt hendir einnig á þessum afskekkta
stað sem Ólafur hefur hrakist til, ekki síður en í „sollinum og þysnum" eða
„æði múgsins og glaumsins" eins og það heitir í Söknuði. Mælandi kvæðisins
uppgötvar að lífsundrið var ekki óþrjótandi — það er hin heilaga blekking
sem svo er ávörpuð:
ert þú hverful oss, hversdagsins þrælum [...]
Og óðar en sé oss það ljóst, er undur þitt drukknað
í æði múgsins og glaumsins.
Ólafur Kárason vaknar um nótt „framandi maður í sínu eigin lífi“. Og hann
er „viltur í eyðimörk mannlífsins“. í kvæðinu stendur:
Svo höldum vér leið vorri áfram, hver sína villigötu,
hver í sínu’ eigin lífi vegvilltur, framandi maður
Ólafur iðrast er hann hugsar til hinna glötuðu fyrirheita, „dáðir hans laungu
druknaðar í vorkunn“. Þetta minnir á tregann í fyrsta erindi kvæðisins,
glataðan lífslit og horflnn þyt ljóða frá draumi til draums.
hvar urðu þau veðrinu að bráð,
ó barn, er þig hugðir
borið með undursamleikans
eigin þrotlausan brunn þér í brjósti.
hvar?
í svefnrofunum, þegar Ólafur vaknar „lángt burt frá sjálfum sér“, spyr hann:
„Hver er ég? . . . Og hvar?“ Þetta er hið endurtekna spurnarstef kvæðisins.
Þar stendur:
36
TMM 1996:4