Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Page 43
og kvæðum hans og ekki síður sú fágæta innsýn í sálarlíf og hugrenningar
sem í kvæðunum býr, einkum Söknuði. Á sama tíma og Halldór er að semja
Heimsljós er hann að rifja upp minningar um Jóhann Jónsson og skrá þær.
Aftan við grein Halldórs „Af Jóhanni Jónssyni" í Vettvangi dagsins standa
ártölin „1935-1942“. Ritgerðin hefur því verið harla lengi í smíðum þótt ekki
sé hún ýkja löng. Þetta eru sömu árin og Halldór er að semja sagnabálkinn
um Ólaf Kárason nema hvað ritgerðin á sér þó enn lengri sköpunartíma. En
þetta þýðir að Jóhann Jónsson hlýtur að hafa verið Halldóri hugstæður á
sama tíma og hann var að semja skáldsöguna.
Eins og áður segir er kvæðið Söknuður innhverft kvæði og það hentar vel
til að varpa skáldlegu ljósi á sálarástand Ólafs Kárasonar og þær hugrenn-
ingar sem Halldóri þótti hlýða að eigna Ólafi þegar kreppti að í sálarlífi hans,
þegar togstreita andstæðnanna hremmdi hann, en þeim átökum lauk ekki
nema á einn veg eins og áður er greint. Þessi skírskotun til kvæða Jóhanns
vekur þá spurningu hvort Halldór hafi fundið einhvern andlegan skyldleika
með Jóhanni og Ólafi, hvort einhverjir eðlisþættir Jóhanns Jónssonar hafi
verið notaðir í persónusköpun Ólafs Kárasonar. Eftir lýsingu Halldórs og
annarra á Jóhanni að dæma virðist slíkt fráleitt og sömu ályktun má draga
af kvæðum Jóhanns og bréfum. Þó eru þeir báðir frábitnir baráttu og átökum
og hugsanlegt er að eitthvað í máli Ólafs Kárasonar sé frá Jóhanni runnið en
um það verður ekkert fullyrt. „Að vera skáld, það er að vera gestur á fjarlægri
strönd þángað til maður deyr.“15 Þessi orð úr ræðu Ólafs Kárasonar á
Sviðinsvík gætu ekki einungis verið sögð af Jóhanni Jónssyni, heldur lýsa þau
e.t.v. betur lífi hans og kjörum en nokkurs annars skálds. Og reyndar tjáir
Jóhann þessa sömu skáldlegu framandleikakennd undir ævilokin í bréfi til
Gunnars Gunnarssonar. Hann ráðgerir að komast heim til íslands eftir
áralanga vist á „fjarlægri strönd“, en: „[...] ef til vill erum við hvergi meir í
framandi landi en þar heima á íslandi [.. .]“16
Það eru einkum tvö hugtök sem vísa veginn að skyldleika skáldverksins
um Ólaf Kárason og kvæðis Jóhanns Jónssonar. Það eru hugtökin „fram-
andi“ og „vitund“ sem bæði hafa drjúgan þunga í Söknuði. Jóhann Jónsson
notar fýrstur íslenskra skálda hugtakið „vitund“ í hinni heimspekilegu
merkingu þess (meðvitund, það að vita til sín): „hrópar í alsgáðri vitund/vor
sál:/Hvar!“ eins og stendur í Söknuði. Þetta verður svo einskonar lykilhugtak
þegar Halldór er að lýsa hugarkreppu og sálarstríði Ólafs Kárasonar, sem
„kannast ekki við sína eigin vitund, finst hún vera sér með öllu framandi“
(sjá bls. 34 hér að framan). Síðar verður svo „vitund“ meginhugtak í ljóðum
Steins Steinars, einkum frá og með Ijóðabókinni Spor í sandi 1940 en það er
önnur saga.
Jóhann er líka fýrstur skálda til að nota orðið „framandi“ í hinni heim-
TMM 1996:4
41