Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Blaðsíða 54
að segja upp úr hverjum snjóskafli. Þegar kom svo að dramatískum
hápunkti sögunnar, þar sem andstæðurnar rekast á af fullum krafti,
lætur hann soninn í fjölskyldunni farast með voveiflegum hætti: það
ráðast á drenginn sleðahundar ærir af langvarandi sulti og hreinlega
éta hann með húð og hári. Slíkur atburður hafði einhvern tíma átt sér
stað í byggðinni þar sem rithöfundurinn dvaldi og um leið og hann
heyrði um þetta hljómaði rödd innra með honum sem sagði að
nákvæmlega þannig yrði boðskapnum í skáldsögunni hans komið
best til skila. Nema hvað, aðeins nokkrum dögum síðar rifu óðir
sleðahundar hans eigin son á hol. Merkilegt, ekki satt?
Hryllilegt mundi ég nú frekar segja, sagði ég og lét mig síga neðar í
vatnið, alveg upp að höku og hristi mig rækilega til að losna við
ónotakenndina sem frásögnin hafði kveikt í brjósti mér.
Hann hætti auðvitað að skrifa.
Ég er ekki hissa á því.
Hefur ekki skrifað stafkrók síðan.
Neinei.
Við þögðum nokkra stund. Spói var að vella einhvers staðar í
grenndinni og ég beið átekta, fann að málarinn átti sitthvað ósagt.
Ég er að velta fyrir mér hvernig þessir atburðir tengjast, sagði hann
loks, örlítið hikandi eins og hann væri enn að leita að réttu orðunum
yfir það sem var að brjótast í honum. Ég meina, hafði ákvörðun
rithöfundarins um að nota fyrri atburðinn í skáldsöguna sína eitthvað
um það segja að sá seinni átti sér stað.
Nei, það held ég að sé algjör tilviljun, sagði ég og hugsaði með mér
að það væri eins gott að hlutirnir væru þannig — annars ætti hjóna-
band mitt engan möguleika á að bjargast og ég mundi missa dóttur
mína í eldsvoða einhverja helgina þegar hún væri hjá mér í heimsókn!
Kannski var þetta hugboð. Hann sá ógæfuna fyrir en áttaði sig ekki
á því fyrr en hún hafði dunið yfir.
Það er alltaf hægt að segja svoleiðis.
]a, oft býr eitthvað annað að baki því sem maður skapar en það sem
maður heldur eða ætlar sér. Þú hlýtur að kannast við það.
Jújú, og stundum veit maður ekki hvað maður er að hugsa fyrr en
maður les það sem maður hefur skrifað. Það er gamall sannleikur og
nýr.
52
TMM 1996:4