Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Síða 73
hvaða skoðanir eigum við að búast við að þeir geti af sér? Skyldu
það ekki vera réttnefndar rökbrellur, aUt saman óskilgetið og
óverðugt þess að kallast sönn viska?
Jú, fullkomlega, svaraði hann [Adeimantos].
Þá eru víst aðeins örfáir eftir, Adeimantos minn, sagði ég
[Sókrates], sem eiga verðugt samneyti við hana.8
Platon var semsagt langt frá því að vera frjálslyndur eða fylgjandi jafnrétti
og einstaklingshyggju í skilningi þeirra Poppers og Hannesar Gissurarsonar
enda varla við því að búast af höfðingjasyni frá 5. öld fyrir okkar tímatal.
Þessi þrjú einkenni á stjórnspeki Platons sem hér voru talin duga þó engan
veginn til að gera hann að frumkvöðli alræðishyggju og bandamanni harð-
stjóra og valdníðinga. Við skulum samt ekki fría hann allri sök.
Andúð Platons á aþenska lýðræðinu kemur glöggt fram í ritum frá fyrsta
hluta ferils hans. I Gorgíasi var hann tekinn að gæla við hugmyndir um
vísindalega stjórn og stjórnendur sem kunna að stjórna fólki eins og tamn-
ingamenn kunna að temja hesta eða skipstjórar kunna að stýra skipi. Þessar
hugmyndir eru þó fremur óskipulegar en í Ríkinu eru þær orðnar að
heilsteyptri kenningu sem fjallar bæði um eðli þeirrar þekkingar sem stjórn-
endur skulu hafa og um það hvernig velja skuli menn til að stjórna ríkinu,
mennta þá til starfans og tryggja að þeir láti eigin hagsmuni eða annarleg
sjónarmið ekki hafa áhrif á stjórnsýsluna.
í Ríkinu leggur Platon til að hópur úrvalsmanna stjórni ríkinu. Þeir séu
eignalausir og myndi allir eina fjölskyldu. Með skipulegum kynbótum,
mikilli skólagöngu og ströngum aga á að tryggja að stjórnendurnir verði svo
vitrir og góðir sem mest getur verið. Eignist þeir börn sem af einhverjum
ástæðum eru miður hæf skulu þau flutt niður í lægri stétt. Lýsing Platons á
lífi þessara stjórnenda minnir um margt á herbúðalíf yfirstéttarinnar í
Spörtu. Sá munur er þó á spartversku yfirstéttinni og stjórnendunum í ríki
Platons að þeir síðarnefndu hafa numið stærðfræði, heimspeki og fleiri
vísindagreinar svo árum eða áratugum skiptir áður en þeir setjast að völdum
fimmtugir að aldri.
Sem ungur maður var Platon lærisveinn Sókratesar og lærði af honum að
trúa á mátt mannlegrar skynsemi. Síðar stofnaði hann fyrsta háskóla í heimi,
Akademíuna. Þar voru iðkaðar rannsóknir meðal annars í stærðfræði. Fáir
hafa sungið vísindunum hástemmdara lof en þessi fyrsti háskólarektor
sögunnar. Platon var ekki bara sannfærður um að vísindin efli alla dáð heldur
taldi hann líka að sönn þekking gerði menn hófsamari, réttlátari, hugrakkari
og betri á alla vegu. Þegar Platon skrifaði Ríkið þótti honum sem alrœði vel
menntaðra úrvalsmanna væri öllum fyrir bestu; fyrir allan almenning væri
betra að lúta guðdómlegri visku annars en ófullkominni visku sjálfs sín.9
TMM 1996:4
71