Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Síða 75
til stjórnendur sem gætu beitt óskoruðu alræðisvaldi þannig að til heilla
horfði fyrir land og lýð. í niðurlagi Gorgíasar lætur hann Sókrates segja frá
lífi mannanna eftir dauðann og lýsa því með áhrifamiklum hætti hversu
valdið spillir konungum og stjórnmálamönnum.
Þegar sál manns hefur verið klædd úr líkamanum og stendur eftir
nakin, þá kemur í ljós bæði allt sem hún hefur fengið í vöggugjöf
og öll reynsla sem hún hefur orðið fýrir í verkum sínum á lífsleið-
inni. Og þegar sálirnar koma svo fyrir dómara sinn, /.../, hendir
oft, þegar hann fer höndum um konunginn mikla og aðra konunga
og valdsmenn, að hann sér engin merki um heilbrigði í sálinni,
heldur er hún útsteypt í örum og flakandi sárum sem eru afleið-
ingar meinsæra og glæpa, sem hvert einasta afbrot hans hefur
merkt sálina með. Og hann sér, að sakir lyga og taumleysis er
enginn limur hennar heill, enda er hún uppfóstruð í ósann-
indum.13
Sálirnar hljóta svo sæluvist eða refsingu efir því hvort þær eru hreinar og
óspilltar eða afskræmdar „vegna óhófs, munaðar, hroka og óstjórnar“. Flestar
þær spilltu batna af að taka út sína refsingu.
En refsing þeirra sem stærstu brotin hafa framið og af þeim sökum
orðið óforbetranlegir, er aðeins öðrum til viðvörunar /.../ enda er
þeim bókstaflega stillt upp í fangelsinu í Hadesarheimi til sýnis og
aðvörunar fýrir brotamenn á öllum tímum sem þangað koma. /.../
Ég held einmitt að stærsti hlutinn í þessum sýningarbás muni vera
harðstjórar, konungar, valdsmenn og stjórnmálamenn, því að sakir
ofurvalds síns geta slíkir menn framið mestu og óforbetranlegustu
glæpina.14
Þegar Platon skrifaði Ríkið áleit hann að með menntun, kynbótum, skipulagi
og aga væri hægt að koma í veg fýrir að valdið spillti stjórnendunum. Seinna,
þegar hann ritaði Stjórnmálamanninn, skildist honum að stjórnendur eru
og verða ekki nema mennskir og þeir geta ekki staðið utan og ofan við
samfélag venjulegs fólks og horft á lífsbaráttuna utan frá. Eina leiðin til að
tryggja góða stjórn er að láta allt vald lúta lögum sem koma í veg fyrir að lestir
og breyskleiki einstakra valdamanna spilli lífi alls samfélagsins. Segja má að
Platon hafi uppgötvað réttarríkið um leið og hann áttaði sig á ókostum
alræðisins.
Þegar Platon ritaði Stjórnmálamanninn var hann tekinn að linast nokkuð
í andstöðu sinni gegn lýðræðinu. í 8. bók Ríkisins hafði hann gert grein fyrir
fimm gerðum stjórnarfars15 og haldið því fram að af þeim sé lýðræðið næst
TMM 1996:4
73