Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Blaðsíða 78
Aristótelesar, Pólýbíosar og Cícerós og í þessi rit hafa talsmenn réttarríkis og
hófstillingar í meðferð ríkisvalds sótt rök fyrir málstað sínum svo öldum og
árþúsundum skiptir.
Þótt Platon hafi hafnað þeirri skoðun sinni í Ríkinu að alræðisstjórn
fámenns hóps menntaðra úrvalsmanna færði öllu ríkinu farsæld er af og frá
að hann hafi orðið neitt yfirmáta frjálslyndur í ellinni. í Magnesíu, fyrir-
myndarríki Laganna, eru til dæmis strangar reglur um fjölskyldustærð og
þar er mönnum bannað að eiga gjaldeyri og verslun við útlendinga er háð
takmörkunum að spartverskum hætti.
Andinn í Lögum Platons minnir um margt á veldi kaþólsku kirkjunnar á
miðöldum. Mikil áhersla er lögð á trúarlíf og tilbeiðslu og stundum er helst
að skilja að hlutverk ríkisins sé fyrst og fremst þjónusta við æðri máttarvöld.
Þessi trúarlega áhersla helst í hendur við vaxandi óbeit Platons á öllu ofbeldi.
í Ríkinu var hann til í að beita vopnavaldi í þágu þess sem hann taldi vera
hið eina sanna réttlæti en þegar hann skrifaði Lögin áleit hann að ofbeldi
myndi aðeins geta af sér meira ofbeldi. Hann bendir raunar ekki á neina
aðferð til að koma á fyrirmyndarríki því sem hann lýsir. Sennilega taldi hann
vonlaust að vopnaskak, valdabrölt, áróður og pólitískir klækir gætu leitt til
neins góðs og það sé vitið meira að trúa og vona að æðri máttarvöld leiði
samfélög mannanna á rétta braut.
*
Það lýðræði sem Platon þekkti ól af sér óstöðugleika og birtist stundum sem
hálfgert skrílræði. Platon var alinn upp af höfðingjum og hefur líklega lært
það snemma á ævinni að horfa með söknuði til fýrri alda þegar heldri menn
höfðu föðurlega forsjá yfir alþýðunni. Hann gerði sér þó grein fyrir að ekki
væri kostur á að hverfa aftur til fortíðar. Trú hans á mátt skynseminnar, sem
hann fékk í arf frá Sókratesi, ásamt reynslu af því að stjórna háskólasamfélagi,
þar sem lærdómsmenn rannsökuðu hinstu rök tilverunnar, blönduðust svo
saman við áhuga hans á stjórnmálum og úr varð hugmynd um vísindalega
alræðisstjórn. Þessa hugmynd setti Platon fram í sinni frægustu bók, Ríkinu,
og það örlar á henni í fleiri ritum frá miðtímabilinu á rithöfundarferli hans.
Nú á seinni árum hafa þessi rit verið mun meira lesin og rannsökuð en Lögin
og Stjórnmálamaðurinn og annað það sem Platon skrifaði á síðasta hluta
ævinnar. Ástæðan fyrir þessu er meðal annars áhugi seinni tíma heimspek-
inga á frummyndakenningu Platons sem hann setti fram í Ríkinu og öðrum
bókum sem hann skrifaði um svipað leyti.
Þeir sem lesa aðeins Ríkib og ef til vill Gorgías fá einhliða mynd af
stjórnmálaheimspeki Platons. Skilningur hans á stjórnmálum var að
þroskast og dýpka svo lengi sem hann lifði og Lögin eru endanleg niðurstaða
76
TMM 1996:4