Tímarit Máls og menningar - 01.12.1996, Page 99
að einhver gaf henni gaum. Ör sýnir að þú hafir sögu að segja. Einn
fótur og þú átt sögu af hákarli.“
Vein berst neðan úr kjallaraíbúðinni og kvenmaður heyrist segja:
„Ég var búin að biðja þig um að hætta að leika þér að eplunum, krakki.
Það er ekki eins og þau vaxi á trjánum!“
Mamma virðist ekki hafa heyrt neitt. Kannski er heyrnin farin að
daprast. Peysan liðast niður úr prjónunum. Gul rönd yfir brjóstið.
„Finnst þér hún ekki snotur?“ segir mamma og lyftir upp peysunni
til að sýna mér.
„Jú, jú, ég er bara ansi hrædd um að enginn eigi eftir að nota hana.“
Prjónarnir hætta að tifa.
„Hvað áttu við með þessu?“ segir mamma felmtruð.
„Ég hef engan áhuga á börnum,“ læt ég mér nægja að segja. Ég nenni
ekki að láta það fylgja með að við Árni séum hætt saman. Hún myndi
ekki hætta fyrr en hún fengi að heyra alla söguna.
„Og ég sem er búin að prjóna hátt í 10 peysur og gammosíur í stíl
við hverja einustu. Hvað meinarðu eiginlega?“ hálfhrópar mamma.
„Stundum er nógu flókið að þurfa að bera ábyrgð á sjálfum sér þótt
maður fari ekki að gæta annarra líka. Þar að auki er erfitt að vera barn
og spurning hvort maður hafi nokkurn rétt til að kalla það yfir aðra.“
Ég hef útskýrt þetta svo oft fyrir hinum frjósömu vinkonum mínum
að ég þarf ekki lengur að hugsa mig um.
Mamma skrúfar frá krananum og fær sér vatn í glas. Hún er svo
skjálfhent að það gusast upp úr glasinu þegar hún ber það að munni
sér. Halda mætti að hún væri stödd í Jurassic Park og risaeðlur
nálguðust Norðurmýrina óðfluga.
„Að eignast barn er engin spurning,“ segir hún lágmælt. „Það er
bara eitthvað sem maður gerir.“
„Ekki ég,“ tauta ég ofan í plastdúkinn á eldhúsborðinu. Ég lít á úrið
og segist þurfa að fara.
,Ætlarðu ekki að borða kvöldmat hjá mér?“
„Hvað er í matinn?“ spyr ég og gýt augum á pott sem sýður í á
eldavélinni.
„Kanína,“ heyrist mér mamma segja. „Þú ferð ekki að fara strax. Ég
hef haft heilmikið fyrir matnum.“
Hún rís upp úr stólnum og horfir á mig starandi augum. Hún
TMM 1996:4
97