Húnavaka - 01.05.1961, Blaðsíða 10
HALLDÓR JÓNSSON, Leysingjastöðum:
Tvær smámyndir
Á VORI.
Á bláum himni sigla silfurský,
sólgullið flæðir yfir höf og lönd.
Blíðlega strýkur blómin gola hlý,
bárurnar faðma lága og sendna strönd.
Upplyftum höndum ung og fögur mær
unaði dagsins tjáir sína þrá.
Ó, kom þú gleði, komdu til mín nær,
kyssið þið sól og vindur mína brá.
UM ÁGÚSTKVÖLD.
Aftanninn blækyrr, angandögg á rós,
óminnishöfgi sígur yfir byggðir.
Til viðar gengur dagsins dýra ljós
og deginum hefur nóttin svarið tryggðir.
Að austan rennur blakki um heiðis brún,
blika á efstu tindum röðulglóðir.
Um suðurhimin ristir blika rún,
í rauðagulli funa norðurslóðir.
Við himinskraut og heiða kvöldsins ró,
hugur minn dvelur, nýtur sólarlagsins.
Höfugt af trega hljómar kvak úr mó,
— hreimfagurt kveðjustef til liðins dagsins.