Húnavaka - 01.05.1966, Blaðsíða 42
BJARNI JÓNASSON, Blöndudalshólum:
Hestur og tvö slys
I.
Eins og mönnum mun enn í fersku minni fórust tveir ökumenn
í Borgarfirði á sl. ári, af sömu bifreiðinni, með skömmu millibili.
Þá var það einn bíll og tvö slys. Atburðir þeir rifjuðu upp fyrir
mér tvö hörmuleg slys, sem gerðust hér um slóðir fyrir rúmum 80
árum. Við bæði slysin kom við sögu sami hesturinn. Fyrra slysið bar
að höndum sumarið 1882 og hið síðara árið eftir. Fyrra skiptið
drukknuðu tveir bændur á Móvaðinu á Blöndu 7. júní, þeir Hannes
Gíslason á Fjósum og Hannes Björnsson í Ljótshólum, en árið eftir
fórst af slysum á sömu slóðum kaupamaður frá Ljótshólum, Arnljót-
ur Þórðarson að nafni. í bæði skiptin var rauður hestur frá Ljóts-
hólum með í förum, hinn svokallaði Ljótshóla-Rauður, sem var
kunnur gripur á sinni tíð.
Verður hér sagt nokkuð frá þessum atburðum. Fyrra slyssins er
stuttlega getið í þætti mínum Harðindin 1881 — 1887 (Troðningar
og tóftarbrot, bls. 201), en síðara slyssins mun ekki hafa verið getið
á prenti, nema í stuttri blaðafrétt skönnnu eftir þann atburð. Við
frásögn mína mun ég m. a. styðjast við tvö handrit, annað eftir
Erlend Guðmundsson frá Mörk, en hitt eftir Jónas Illugason í
Brattahlíð. Erlendur var greindur rnaður og vel ritfær. Hann lézt í
Ameríku fyrir nokkrum árum og lét eftir sig töluvert af handritum,
sem nú munu komin á opinber söfn í Reykjavík. Nokkuð er og til
eftir Jónas Illugason, sem ekki hefur verið prentað. Þar er helzt að
minnast, að Jónas hefur gert drög að búendasögu Bólstaðarhlíðar-
hrepps fyrir síðari hluta 19. aldar.