Húnavaka - 01.05.1975, Page 101
HÚNAVAKA
99
um, auðnaðist að svala þeirri þrá. En liún nýtti sínar stundir til
hlítar. Hún las í bók með þvöruna í hendinni og sinnti þó báðum
vel. En drýgstar munu þær stundir hafa orðið, sem hún var með
prjóna. Hún las á kvöldvökum og prjónaði sokka, tók úr á hæl og
tá án þess að fipast við lesturinn. Hún var slík hamhleypa í því efni
að hún prjónaði karlmannspeysu í höndum á einum degi og hefur
það lengi verið talið til afreka. Þessi saga barst um héraðið:
Unglingspiltur kom að Sauðanesi um haust. Hregg var á og var
hann hrakinn af vosbúð og kulda enda vanbúinn. Klæði hans voru
tekin til þerris. Að morgni var þeim skilað þurrum svo sem venja
var í sveitum, væri þess kostur. Sokkarnir voru ekki aðeins þurrir.
Húsmóðirin hafði „prjónað neðan við þá“ og skilaði þeim þurrum
og þæfðum um morguninn.
Það vakti oft athygli þeirra, er eyra höfðu fyrir fögru máli, hversu
óvenju myndauðugt málfar Sesselju var. Þekking hennar á tungu-
taki feðra sinna var fágætt. Ég hefi fáum kynnst, sem slík kynstur
kunnu af málsháttum og orðskviðum og hún. Þessi fágætu skraut-
blóm tungunnar léku svo á vörum hennar að oft var unun að. Svo
virtist, sem hún gleymdi ekki snillyrði, ef hún festi það á færið sitt.
Ég set hér eitt, sem sýnir örlítið svipmót af málfari hennar.
Um það var rætt kvöld eitt í baðstofunni í Sauðanesi, að tilgreind-
ur maður, sem notið hafði fágætrar fyrirgreiðslu og átti þess þá góðan
kost að greiða hluta hennar og í líkri mynd, án þess að nokkurrar
slíkrar viðleitni yrði vart af hans hálfu. Sesselja mælti þá: „Það hefur
fleiri hent, þegar borga skal það, sem best er gert, að mæla þá í
hálfum hleif og höllu keri.“
Páll í Sauðanesi missti heilsuna síðustu sambúðarár þeirra. Þurfti
hann að dveljast á sjúkrahúsi oftar en um sinn og lá þar þungar
legur. Lést hann 24. okt. 1932. Stóð Sesselja þá uppi ein með 12
börn, það elsta 18 ára en hið yngsta var skírt við kistu hans. Hjónin
á Húnstöðum, Sigurbjörg Gísladóttir og Jón Benediktsson buðu
henni þá að taka eitt barnið — Önnu — í fóstur og ólst hún þar upp
til þroskaaldurs.
Ékki þarf djúpt að grafa til að skilja að ekki hafi allsnægtir á nú-
tíðarvísu sett sinn svip á búskap Sesselju í Sauðanesi, þegar hún var
orðin ekkja. Páll hafði barist við banvænan sjúkdóm um alllangt
skeið. Þá var ekki flúið til sjúkrasamlags eða annarrar samhjálpar
um greiðslur fyrir læknishjálp og sjúkralegur. Allt slíkt féll aðstand-