Uppeldi og menntun - 01.07.2015, Qupperneq 16
UPPELDI OG MENNTUN/ICELANDIC JOURNAL OF EDUCATION 24(2) 201516
VEGFERÐ TIL FULLORÐINSALDURS
Rannsóknir á frávikum og ungmennamenningu studdust frá upphafi við ýmsar
félagsfræðikenningar en rannsóknir á vegferð frá skóla til vinnu eða frá barnæsku til
fullorðinsaldurs voru lengi kenningasnauðar. Smám saman þróuðust þó kenningar,
einkum í Þýskalandi, sem tengdu breytta vegferð við kenningar um breytta
samfélagsþróun. Á áttunda áratugnum bar þar talsvert á kenningum um breytta
félagsmótun og margar þeirra sóttu í smiðju freudískrar sálgreiningar. Um tíma bar
hæst kenningar Thomasar Ziehe um að hrun valdboða og fastra viðmiða í uppeldi hefði
leyst uppvaxandi kynslóðir úr menningarlegum viðjum; hann taldi að líf ungmenna
einkenndist í vaxandi mæli af leit að haldbærri merkingu (Ziehe og Stubenrauch,
1981). Úr annarri átt komu niðurstöður úr rannsóknum á því hvernig fólk skilur og
segir lífssögu sína. Werner Fuchs-Heinritz (1984) benti á veigamikla breytingu: eldri
kynslóðir segðu gjarnan lífssögu sína þannig að hún markaðist af ríkjandi viðmiðum á
hverjum tíma en yngri kynslóðir legðu áherslu á eigið val. Martin Kohli (1994) benti á
að vissulega einkennir einstaklingsvæðingin nútíma lífssögu en að hún hefur ekki út-
rýmt áhrifum félagslegrar formgerðar heldur breytt þeim; samfélagsstofnanir tryggja
samfellu milli hinna ólíku skeiða lífshlaupsins en einstaklingarnir gefa þessari sam-
fellu merkingu með lífssögu sinni. Alheit og Dausien (2000) bentu á að einstaklingar
þurfa oft að velja eða gefst kostur á því, en að við hvert val breytir einstaklingurinn
lífssögu sinni og að þessi samtvinnun vals og breyttrar lífssögu er lykilatriði í hvata
til frekara náms og starfsskipta á fullorðinsaldri. Ulrich Beck (Beck, 1986/1992; Beck
og Beck-Gernsheim, 2002) tengdi þessar rannsóknarniðurstöður almennum sam-
félagsbreytingum; í iðnaðarsamfélögum 20. aldar hefði stöðugleiki í siðferði og dag-
legri menningu myndað mótvægi við aðrar samfélagsbreytingar, en við breytinguna
úr iðnaðarsamfélagi í þekkingarsamfélag hefði þessi stöðugleiki riðlast. Beck notaði
hér sömu hugtök og greiningu og Ziehe áður; við iðnvæðingu hefði orðið félagsleg
leysing (þ. Freisetzung; e. release eða liberation) þegar fólk losnaði úr viðjum hefð-
bundins bændasamfélags, fluttist í borgir, fór að stunda launavinnu og réð sjálft yfir
frístundum sínum; Ziehe og Beck töldu að nú væri næsta stig leysingarinnar hafið, hin
menningarlega leysing.
Þessir þýsku straumar tengdust fljótlega frönskum lífssögurannsóknum Daniels
Bertaux og fleiri (Bertaux og Kohli, 1984), sem og bandarískri hefð lífshlaupsrann-
sókna (e. life course research) sem oft er talin hefjast með rannsókn Williams I. Thomas
og Florians Znaniecki á pólskum bændum í Póllandi og Bandaríkjunum fyrir um það
bil öld (Thomas og Znaniecki, 1918–1920). Sú hefð hefur sótt í sig veðrið á síðustu
áratugum (sjá Giele og Elder, 1998; Mortimer og Shanahan, 2003). Bandaríska
hefðin byggðist ekki á sama hátt og hinar evrópsku rannsóknir á viðamiklum
samfélagskenningum (e. grand theory) heldur sver hún sig fremur í ætt við grundaða
kenningu (e. grounded theory) og stundum við hugsmíðahyggju (e. constructivism).
Hún bendir þó í svipaða átt og evrópskar nálganir hvað varðar aukna fjölbreytni lífs-
hlaupsins, það er vaxandi mikilvægi lífssögunnar fyrir sjálfsmynd fólks og ákvarðanir
sem það tekur, og víðtæka þýðingu þessa fyrir samfélagsþróun. Margir rannsakendur,
einkum í Bretlandi og Þýskalandi (sjá Evans, Rudd, Behrens, Kaluza og Woolley, 2001;
Heinz, 2009), reyndu að samþætta hefðir fyrir stórum empírískum rannsóknum við
kenningarlegar áherslur Fuchs-Heinritz, Kohlis, Alheits, Becks og annarra þýskra